Unga fólkið í Árdal tekið við Skúlagarði

Í Árdal í Kelduhverfi búa hjónin Salbjörg Matthíasdóttir og Jónas Þór Viðarsson ásamt börnum sínum tveim, þeim Heiðnýju tveggja ára og Sigursveini níu

Salbjörg og Jónas kynntu Skúlagarð á Mannamóti.
Salbjörg og Jónas kynntu Skúlagarð á Mannamóti.

Í Árdal í Kelduhverfi búa hjónin Salbjörg Matthíasdóttir og Jónas Þór Viðarsson ásamt börnum sínum tveim, þeim Heiðnýju tveggja ára og Sigursveini níu mánaða.

Þar hafa þau rekið sauðfjárbú undanfarin ár og boðið upp á heimagistingu fyrir ferðamenn en nýlega tóku þau við rekstri Hótel Skúlagarðs.  

Salbjörg er stúdent með BS gráðu í hestafræði frá Háskólanum á Hólum og Landbúnaðarskóla Íslands.  Jónas er með sveinspróf í húsasmíði og vinnu sjálfstætt við iðn sína auk þess sem hann er í 50% starfi sem smíðakennari í Öxarfjarðarskóla.

Heiðný

Heiðný með góðum vinkonum.

“Jónas er búinn að vinna sjálfstætt í eitt ár og hefur helling að gera í því en ég hef hins vegar meira hugsað um dagleg verk sem tengjast búskapnum. Ég hef samt gripið í störf utan heimilis s.s í sláturtíð, sem flugvallastarfsmaður og stundað aðeins tamningar. En þar sem ég hef ýmist verið ólétt eða með lítið barn undanfarin þrjú ár hefur Jónas þurft að taka þungann af búrekstrinum í þau skipti og þá hentað vel að vera sjálfstæður” segir Salbjörg.  

Sigursveinn

Sigursveinn og hundurinn Loki í fjárhúsunum.

Þau tóku við rekstri á búinu í Árdal af foreldrum hennar um áramótin 2014-2015. Bróðir hennar Sveinn Björnsson, hafði rekið það um tíma eftir að foreldrar hennar, Ólöf Sveinsdóttir og Matthías Guðmundsson fluttu erlendis árið 2011.  Sveinn lést af slysförum í september 2013.

“Þetta sauðfjárbú telst nú vera hobbý meðal sauðfjárbænda, við erum með 156 ær á vetrarfóðrum þar sem við leggjum áherslu á frjálsa hreyfingu þeirra.  Þær ganga flestar við opin hús og fá hey úti þegar veður leyfir.  Við höfum bara yngstu árganganna inni og rýjum því bara einu sinni á ári, í mars og  þá tekið allt inn.  En í ár ætlum við að prófa gamla lagið og rýja þær bara þegar veður er orðið gott í vor eða í sumarbyrjun svo þær geti notið útiverunnar fram yfir sauðburð.

Haustið 2015 byrjaði afurðaverðið að lækka og vorum við því mjög óheppin, en við tókum þá ákvörðun haustið 2017 að selja kjötið okkar beint frá býli. Sú ákvörðun hefur reynst okkur vel, við erum komin með góða viðskiptavini og höfum betur út úr búskapnum fyrir vikið.  Markmið okkar  er að halda áfram að þjónusta góða viðskiptavini og ásamt því að bjóða lambakjöt á veitingahúsinu í Skúlagarði” segja þau Salbjörg og Jónas en við komum betur að Skúlagarði síðar.

Árdalur

"Við höfum rekið heimagistingu á efri hæðinni í Árdal yfir sumarmánuðina síðustu þrjú sumur. Þar eru þrjú tveggja manna herbergi með sameiginlegu baði og með sér inngangi.  Við höfum einungis boðið upp á uppábúin rúm með morgunmat sem framreiddur var í eldhúsinu okkar á neðri hæðinni.  Það hefur gengið mjög vel og höfum við fengið frábær ummæli auk þess sem þetta hefur gefið vel af sér og sumarið 2018 var mjög gott og mikið að gera” segir Salbjörg.

Þá kemur Skúlagarður til sögunnar

Ungu hjónin í Árdal höfðu verið í hugleiðingum um að stækka ferðaþjónustuna og færa hana af heimilinu því með stækkandi fjölskyldu er þörf á herbergjunum á efri hæðinni í náinni framtíð.  Og þá kemur Skúlagarður til sögunnar.

Hópmynd

Fv. Jónas Þór, Salbjörg með Sigursvein, Heiðný, Harpa Jóna og Guðmundur Karl við Skúlagarð.

“Það vantaði rekstraraðila í Skúlagarð og hann hefur alltaf verið í huga mér því hann er hér í landi Árdals og Krossdals og því frábær staðsetning hvað okkur varðar.  Mamma og pabbi ráku Skúlagarð um tíma hér á árum áður og við Jónas unnum þar bæði og þekkjum því býsna til hvað störfin þar varðar.

En þar sem við erum með sauðfjárbú, Jónas vinnur mikið utan heimilis og við með tvö mjög ung börn sáum við ekki fram á að geta tekið við Skúlagarði á þessum tímapunkti.  En eins og ég sagði vantaði rekstraraðila í Skúlagarði núna og enginn sem var líklegur til að taka það að sér.  Þá komu Harpa Jóna Jónasdóttir og Guðmundur Karl Sigríðarsson foreldrar Jónasar eins og riddarar á hvítum hestum og vildu fara í þetta verkefni með okkur og við létum slag standa” segir Salbjörg.

Þau stefna á að reka Skúlagarð með svipuðu sniði og verið hefur nema ætlunin sé að hafa opið allt árið og leggja meiri áherslu á veitingasöluna.  Harpa er yfirmaður í eldhúsinu og ætlunin er að bjóða hópum uppá hlaðborð í stað þess að þjóna til borðs. 

Að sjálfsögðu verður áhersla á lambakjöt frá Árdal á matseðlum en það verður að bíða til næsta árs því allt kjöt frá síðasta hausti seldist upp.  Boðið verður upp á grillveislu á hópamatseðlinum þar sem erlendir ferðamenn geta upplifað íslensku grillstemminguna í fallegri sveit.

Stefnt er á að hafa opinn veitingastað frá 18-21 alla daga í sumar. Þá á að reyna að standa fyrir alls konar viðburðum í Skúlagarði um helgar, í sumar og næsta vetur bæði fyrir heimamenn og ferðamenn.

Salbjörg og Jónas segja ferðaþjónustuna spennandi atvinnuveg og mörg ónýtt tækifæri á svæðinu, Salbjörg gerði tilraun til að hefja nám við Ferðamálafræði á Háskólanum á Hólum í haust en sagði sig svo úr því vegna haustanna í búskapnum og barnauppeldi.  Hún stefnir á að taka upp þráðinn aftur þegar börnin verða orðin eldri og fara þá kannski frekar í BA í stjórnun ferðaþjónustu og móttöku gesta fy­­­­rst þau eru farin að reka hótel.

“Við teljum ferðaþjónustuna vera framtíðar atvinnuveg á þessu svæði og þá sé það einnig farsælt fyrir sauðfjárbónda ef vel gengur að selja lambakjötið beint á diskinn í Skúlagarði. 

Kelduhverfi á gríðarlega mikið inni, fyrir utan hér eru margar náttúruperlur sem enn eru faldar almenningi, við erum á jarðfræðilega sérstöku svæði og t.d eru mörg náttúruundur hér suður í heiði.  Þá höfum við Víkingavatn með allt sitt fuglalíf ásamt því að Ásbyrgi og Vatnajökulsþjóðgarður standa alltaf fyrir sínu.

Kelduhverfi hefur allt til að bera að okkar mati til að geta orðið eins vinsælt ferðmannasvæði og t.d Mývatn.  Og með tilkomu Dettifossvegar mun umferðin óneitanlega aukast mikið og því ekki annað hægt en að nýta sér það og reyna að hafa atvinnu af ferðaþjónustu allt árið.

Við erum bara gríðarlega spennt fyrir komandi verkefnum og, vonum innilega að þetta muni ganga vel og erum rosalega heppin og þakklát fyrir allan þann stuðning sem við fáum frá foreldrum okkar.  Okkur finnst við óstöðvandi með þau á bak við okkur og vonandi tekst okkur einnig að efla félagslífið í sveitinni og nærumhverfi. Það er ekki síður okkar markmið eins og það að reka hótel fyrir ferðamenn” segja ungu hjónin í Árdal að lokum.

Um Skúlagarð:

Skúlagarður var byggður á árunum 1953-1959 sem heimavistarskóli og félagsheimili. Á síðari árum hefur húsinu verið breytt í notalegt gistihús.

Gistingin samanstendur af 17 tveggja manna herbergjum með klósetti og sturtu. Í veitingasalnum er boðið uppá kvöldverð, morgunverð og léttan hádegisverð, auk drykkja. Lögð er áhersla á einfaldleika og notalegt viðmót.

Skúlagarður er í miðju Kelduhverfi í 50 km fjarlægð frá Húsavík og 140 km. frá Akureyri. Margar af helstu náttúruperlum Íslands, svo sem Ásbyrgi, Hljóðaklettar og Dettifoss eru í næsta nágrenni. Gönguleiðir í Kelduhverfi og nágrenni eru margar og fjölbreyttar og náttúrufegurð mikil. Við Ásbyrgi er 9 holu golfvöllur. Örstutt frá Skúlagarði er Litlá, vinsæl stangveiðá og ein af bestu silungsám á Norðulandi. Skúlagarður er tilvalinn staður fyrir stóra sem smærri hópa, ættarmót, fundi og ráðstefnur.

Skulagarður  Skúlagarður

Með því að smella á myndirnar, sem eru aðsendar, er hægt að fletta þeim og skoða í hærri upplausn.

 

 



 

 

 

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744