Tóku skóflustungu að nýrri félagsaðstöðu við FjallshólaÍþróttir - - Lestrar 450
Skotfélag Húsavíkur stendur í stórræðum nú sem oft áður en ekki er langt síðan lokið var við smíði riffilhúss.
Og nú í vikunni var tekin fyrsta skóflustungan að nýju húsi á svæði félagsins við Fjallshóla. Það hús á að leysa af eldra hús sem hýst hefur starfsemi félagsins í um 20 ár.
Að sögn Kristins Lúðvíkssonar formanns Skotfélags Húsavíkur er félagið alltaf að eflast og frá árinu 2018 hafa um 30 félagar bæst við. Eru þeir nú eitthvað á annað hundraðið og núverandi félagsaðstaða því orðin alltof lítil.
"Á síðasta aðalfundi var ákveðið að ráðast í byggingu nýs aðstöðuhús sem hýst gæti allt og alla í kringum starfsemi félagsins. Nýja húsið verður um 90 fermetrar að stærð. Faglausn ehf. teiknaði húsið, yfirsmiður verður Hermann Sigurðsson og Vinnuvélar Eyþórs ehf. sjá um jarðvegsvinnuna. sagði Kristinn.
Ljóst er að það verður mikill munur á aðstöðunni því hvorki rafmagn né heitt vatn er í gamla húsinu. "Gamla húsið er gaskynt, kaffið græjað á gashellu og sólarsellur kveikja á ljósum fyrir okkur fyrir vetrarmánuðina. En nú verður breyting á því loksins er Skotfélag Húsvík að fara fá rennandi vatn en hvenær nákvæmlega er óvitað, Orkuveita Húsavíkur er að vinna í þeim málum.
Hvað rafmagn varðar þori ég ekki að segja til um en að sjálfsögu veður gert ráð fyrir því í nýju húsi" Sagði Kristinn en skotfélagsmenn vonast eftir því að flytja inn í húsið næsta sumar þó svo að smávægilegur frágangur verði eftir.
Eins og áður segir er mikill uppgangur í félaginu:
- 2016 var tekið í notkun nýtt 50fm2 riffilhús með 5 skotborðum en ekki tveimur eins og áður var.
- 2018 var lagt út fyrir nýjum og stærri leirdúfuvelli, nú eru 7 leirdúfukastarar en ekki tveir eins og áður var.
- 2019 var byrjað að byggja nýtt 90fm2 félagsaðstöðuhús
"Opið hefur verið þrisvar í viku í allt sumar á leirdúfuvellinum sem er viðbót frá árinu áður. Enn virðist vera hægt að bæta við opnunardögum því ekkert lát er á aðsókn.
Haldin hafa verið sex mót á leirdúfuvellinum í sumar og eitt mót framundan. Þá voru tvö mót á riffilvellinum og tvö mót framundan ef ég man þetta rétt" sagði Kristinn að lokum en til fróðleiks má nefna það að Skot- og veiðifélag Húsavíkur var stofnað 2. október 1964. Það var síðan endurvakið sem Skotfélag Húsavíkur 2. október 1988 eftir að hafa legið í dvala um tíma.
Fyrsta skóflustungan var tekin 8.ágúst sl. í vægast sagt rysjóttu veðri og það gerði Garðar Héðinsson sem er í byggingarnefnd Skotfélagsins. Ljósmynd aðsend.