Þórudagur 24. júní 2012Aðsent efni - - Lestrar 538
Stuðningsfólk Þóru Arnórsdóttur um land allt ætlar að taka höndum saman sunnudaginn 24. júní og sameinast um að halda Þórudag. Stefnt er að því að gera hann að degi gleði og samstöðu.
Dagurinn byggist á því að haldnir verða viðburðir út um land allt tileinkaðir Þóru. Markmiðið er að stuðningsfólk komi saman og njóti dagsins í nafni Þóru um land allt. Allir geta tekið þátt í deginum, bæði með því að skrá inn viðburð á heimasíðu framboðsins (thoraarnors.is) eða með því að taka þátt í einhverjum þeirra viðburða sem í boði verða.
Nú þegar er búið að skrá fjölda viðburða. Garðar verða slegnir fyrir nágranna, farið verður í Þórugöngu á Esjuna og að Lóndröngum, fluguvinafélagið ætlar að hnýta Þóruflugu, bakaðar verða Hnall-Þórur um allt land og varðeldar kveiktir í nafni Þóru. Einnig er búið að skrá fjölda fjölskylduviðburða þar sem farið verður í fótbolta, boðhlaup og annað skemmtilegt.
Í Iðnó verður boðið upp á fjölbreytta skemmtidagskrá frá kl. 15.30-18. Húsið opnar kl. 15.00. Meðal þeirra sem koma fram eru Gjörningaklúbburinn, Valgeir Guðjónsson, White Signal, rithöfundarnir Hallgrímur Helgason og Sindri Freysson, Felix Bergsson og Hjalti Þorkelsson úr Múgsefjun auk þess sem Þóra ávarpar stuðningsfólk sitt. Á efri hæð Iðnó verður dagskrá fyrir börnin þar sem boðið verður upp á andlitsmálun, upplestur, origami- og spunasmiðju.
Á heimasíðu framboðsins er að finna yfirlit þá viðburði sem verið er að skipuleggja fyrir Þórudaginn. (Fréttatilkynning)