Þorgrímur Sigmundsson: Til ráðamanna

Í upphafi þessa bréfs vil ég biðjast afsökunar á því að það kann að vera harðorðara en títt er með slík bréfkorn. Og ég afsaka mig með því að þær

Þorgrímur Sigmundsson: Til ráðamanna
Aðsent efni - - Lestrar 752

Í upphafi þessa bréfs vil ég biðjast afsökunar á því að það kann að vera harðorðara en títt er með slík bréfkorn. Og ég afsaka mig með því að þær tilfinningar sem stuðla að skrifum þessum eru gífurleg reiði og sorg yfir skammsýni ráðamanna að engu tali tekur. Og nú er mælirinn fullur.

 

Ekki aðeins hafa núverandi stjórnvöld hreinlega staðið í vegi fyrir því að við íbúar í Þingeyjarsýslum getum nýtt auðlindir okkar til að efla okkar samfélag. Heldur bæta þau (stjórnvöld) um betur og hyggjast fremja hryðjuverk á nánast heilum landshluta með því að skera niður framlög til Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga um 40%.

 

Þessi gjörningur ef af verður er með slíkum ólíkindum að maður spyr sig hvort ráðamenn gangi einfaldlega heilir til skógar? Hvað halda menn að verði um allt það góða starfsfólk HÞ sem missa vinnuna? Jú ríkið þarf áfram að greiða þeim framfærslu en nú í formi atvinnuleysisbóta sem án vafa mun fæstum þeirra duga til framfærslu og því greiðsluvandi líklega á næsta leiti. Sem aftur getur kallað á aðkomu félagsþjónustu en þar á að skera niður líka.  Þá er hér ónefnd sú staða sem hinn almenni íbúi svæðisins er í. Að þurfa að sækja heilbrigðisþjónustu, jafnvel neyðarþjónustu, um langan veg þar sem yfir fjallvegi er að fara á vetrum jafnvel 3-4 klukkutíma ferð. Slíkt er brot á mannréttindum og alls ekki í samræmi við það sem boðað var eða er einhver búinn að gleyma tuggu Steingríms J Sigfússonar um norrænt velferðarríki?

Nú er það svo að við hér í þingeyjarsýslum höfum lengi beðið eftir leyfi til að bjarga okkur sjálf en ekki fengið annað en innantóm loforð um stórfellda atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Sér er nú hver uppbyggingin.

Og hver verður svo sparnaðurinn þegar upp er staðið ? Gerir línurit fjárlaga-frumvarpsins ráð fyrir þessari miklu aukningu á atvinnuleysisskránni og þess hvað það kostar samfélagið þegar fólk getur ekki staðið í skilum vegna forsendubrests eða hvað það kostar að sækja þessa þjónustu um langan veg? Þá hefur ekki verið minnst á aukinn kostnað í geðheilbrigðisþjónustu á svæðinu sem kann að vera þessu samfara. Ég spyr því aftur ganga þessir menn heilir til skógar ? Fyrir aðeins fáum dögum síðan samþykkti Alþingi Íslendinga ákærur á hendur fyrrverandi forsætisráðherra m.a. fyrir vanrækslu í embættistörfum hans. Ég spyr í fullri alvöru í ljósi þessa hvort ekki geti verið ástæða til að kæra núverandi stjórnvöld fyrir vísvitandi brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár Íslands ?

Og ég spyr og vil fá svör. Hve mörg sendiráð þyrfti að leggja niður til að hægt yrði að halda uppi lítið breyttri þjónustu HÞ? Hve mikið þarf að ganga á áður en Þingeyingar fá að nýta orku svæðisins sér og landsmönnum öllum til heilla? Hve mikill er kostnaður hins opinbera vegna listamannalauna? Ef þessar spurningar undirritaðs yrðu settar saman í eina spurningu þá gæti hún hljóðað svona: Er þetta sú forgangsröðun og það norræna velferðarsamfélag sem ríkisstjórnin stendur fyrir?

Ég skora á þingmenn kjördæmisins sem og Þingeyinga alla að láta í sér heyra og koma í veg fyrir að skammsýni og heimska ráðamanna verði til þess að óafturkræf hryðjuverk verði framin í Þingeyjarsýslum á sama tíma og heimamenn fá ekki að nýta auðlindir svæðisins til sjálfshjálpar.

Húsavík 4/10 2010

Þorgrímur Sigmundsson Þingeyingur

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744