Þingeyingur júlímánaðar - Snæbjörn Ingi IngólfssonFólk - - Lestrar 349
Þingeyingafélagið hefur valið Snæbjörn Inga Ingólfsson Þingeying júlímánaðar.
"Ég segi alltaf að ég sé ¾ Þingeyingur eða Mývetningur. Ég fæddist 7. apríl 1974 og er frá bænum Helluvaði í Mývatnssveit þar sem ég ólst upp. Pabbi minn heitir Ingólfur Ísfeld Jónasson frá Helluvaði, sonur hjónanna, Jónasar Sigurgeirssonar frá Helluvaði og Hólmfríðar Ísfeldsdóttur frá Kálfaströnd. Mamma mín heitir Anna Dóra Snæbjörnsdóttir, dóttir hjónanna Snæbjörns Inga Jónssonar og Þórunnar Andrésdóttur Kjerúlf. En Snæbjörn afi minn var sonur Guðrúnar Jónsdóttir úr Reykjahlíð.
Ég er búinn að vera allt of lengi brottfluttur í raun og veru. Það má segja að ég hafi verið alfluttur 1995, en ég fór í VMA 1990 og kom alltaf heim á sumrin að vinna og hjálpa til á búinu. Árið 1995 var fyrsta sumarið sem ég kom ekki heim. Ég lærði húsasmíði í VMA og kláraði raungreina stúdent í kjölfarið. Þá vann ég í smíðavinnu á Akureyri og leiddist þaðan í tölvubransann. 1998 fluttir ég svo til Reykjavíkur og fór að læra tölvunarfræði við HÍ. Hef búið síðan þá í Reykjavík. Sem eru nú orðin 22 ár. (allt of langt).
Ég er búinn að vinna í tölvubransanum í 25 ár. Í dag vinn ég sem viðskiptastjóri hjá Origo, er búinn að vera þar í 16 ár og hef gengt hinum ýmsu störfum. Í starfi viðskiptastjóra sinni ég sölu, ráðgjöf og samskiptum til nokkurra af helstu viðskiptavinum Origo. Þetta er virkilega krefjandi og skemmtilegt starf í lifandi og skemmtilegu fagi. Þar sem alltaf er að koma eitthvað nýtt á markaðinn. Ég hef einnig verið að sinna einhverju kynningastarfi fyrir Origo þar sem ég hef verið segja frá því sem er heitast á markaðnum hverju sinni.
Ekki nóg með að ég sé Þingeyingur, heldur náði ég mér í konu sem er hálfur Þingeyingur líka. Hún heitir Ragnheiður Valdimarsdóttir frá Dalvík. Pabbi hennar er Sigurður Valdimar Bragason frá Landamótsseli í Kinn og mamma hennar er Rósa Þorgilsdóttir frá Dalvík. Saman eigum við 3 börn, 25 ára dóttur og tvo syni, 16 og 12 ára. Að auki er dóttirin að gera okkur afa og ömmu síðar á árinu.
Það er alltaf endurnærandi að komast norður í Fjalladrottninguna. Reyni að fara reglulega, helst í sauðburð, smalamennsku og einhvern veiðiskap sérstaklega á haustin". Segir Snæbjörn Ingi Ingólfsson Þingeyingur júlímánaðar.