Þingeyingur ágústmánaðar - Hróbjartur SigurðssonFólk - - Lestrar 345
Þingeyingafélagið hefur valið Hróbjart Sigurðsson sem Þingeying ágústmánaðar 2020.
"Ég er hæfileg blanda af Þingeyingi, Mývetningi og Suðurnesjamanni en ólst upp á Sandi í Aðaldal og er sonur Hólfríðar Bjartmarsdóttur og Sigurðar Ólafssonar, sem eru oftar kölluð Fía og Siggi á Sandi. Móðuramma mín og afi (Hólmfríður Sigfúsdóttir og Bjartmar Guðmundsson) byggðu húsið en það var reyndar notað sumarbústaður um nokkurn tíma þar sem afi var þingmaður í Reykjavík. Mamma og pabbi fluttu svo norður 1983 þegar ég var þriggja ára, en við höfðum áður búið í Höfnum á Reykjanesi.
Eftir uppeldisárin í sveitinni fór ég til Akureyrar í menntaskóla þar sem ég lærði einnig grafíska hönnun, sem svo varð til þess að ég vann á Örkinni á Húsavik samhliða námi og um tíma eftir námið. Fáum árum eftir námið varð ég svo endanlega bitinn af ljósmyndabakteríunni og flutti með fjölskyldunni til Danmerkur í tæp 6 ár þar sem ég lærði auglýsinga- og matarljósmyndun ásamt því að stofna alþingeyska tveggja manna auglýsingastofu sem við Aggi rákum svo í 5-6 ár.
Í dag bý ég í Breiðholti með konu minni, Sólveigu Auðar Hauksdóttur og eigum við þrjú börn. Ég vinn sem hönnunarstjóri og ljósmyndari á auglýsingastofunni VORAR auglýsingastofa. Þess á milli eyði ég stundum tíma mínum í að bruna hjólandi yfir fjöll og firnindi, ýmist með vinum eða fjölskyldumeðlimum".
Hróbjartur á m.a. þessa hönnun https://www.facebook.com/arnasynir/posts/2698703833778090