Stuðningur við Sigurð Árna Þórðarson

Stuðningur við Sigurð Árna Þórðarson. Eftir Sigurð Ægisson.

Stuðningur við Sigurð Árna Þórðarson
Aðsent efni - - Lestrar 833

Sr. Sigurður Árni Þórðarson.
Sr. Sigurður Árni Þórðarson.
Stuðningur við Sigurð Árna Þórðarson
Eftir Sigurð Ægisson
Þegar herra Karl Sigurbjörnsson biskup lýsti því yfir 12. nóvember síðastliðinn að hann myndi láta af embætti um sumarið 2012, renndi ég í huganum yfir þá kandídata sem mér fannst til greina koma sem eftirmenn hans á stóli. Og þetta endurtók sig næstu daga. Niðurstaðan varð ávallt hin sama. Eitt nafn stóð upp úr, eða öllu heldur gnæfði yfir.

Íslenska þjóðkirkjan hefur undanfarið verið í miklu róti, að ekki sé fastar að orði kveðið, sterkir vindar um hana nætt, og þarfnast nauðsynlega einhvers sem getur komið henni burt úr þeim ólgusjó, hratt og örugglega, rétt kúrsinn og siglt fleyinu áfram, mót komandi tímum.
Ég tel dr. Sigurð Árna Þórðarson, prest í Neskirkju í Reykjavík, vera rétta manninn í verkið. Það byggi ég á yfir 30 ára kynnum mínum af honum. Aldrei hefur neinn skugga borið þar á. Það hefur verið gott að leita til hans, jafnt í gleði sem raun. Hann kemur til dyranna eins og hann er klæddur, alltaf hreinn og beinn. Og er umhyggjusamur og hollráður.

Hann fylgist vel með umræðu líðandi stundar, er næmur, vökull og réttsýnn. Og guðfræði hans og lífsskoðun er öfgalaus, víðfeðm, björt og hlý. Eins og hann sjálfur.
Sigurður Árni hefur allt það til að bera sem prýða má þann hirði sem verið er að leita að.

Hann tók áskorun minni og fjölmargra annarra og gefur kost á sér. Það er sannarlega fagnaðarefni.

Dr. Sigurður Árni Þórðarson heldur kjörmannafund á Vestmannsvatni á morgun, laugardaginn 18. febrúar, kl. 13.00, og í safnaðarheimili Akureyrarkirkju á sunnudag, 19. febrúar, kl. 13.00.

 Þess má að lokum geta, að vefurinn www.sigurdurarni.is er upplýsingaveita um biskupskjör, ferilskrá Sigurðar Árna og áherslur. Og www.facebook.com/sigurdurarni.is er upplýsinga- og stuðningssíða hans á Facebook. 

Sigurður Ægisson
sóknarprestur í Siglufjarðarprestakalli

  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744