Stjórn Húsavíkurstofu styður áform Huang NuboAlmennt - - Lestrar 150
Stjórn Húsavíkurstofu hefur lýst yfir stuðningi við áform Huang Nubo um stórfellda uppbyggingu á sviði ferðaþjónustu á Grímsstöðum á Fjöllum. Engum dylst að ferðaþjónusta verður með hverju árinu sem líður mikilvægari atvinnugrein, hvort sem litið er til gjaldeyrisöflunar eða styrkingar byggðar í landinu.
Uppbygging í ferðaþjónustu á norðausturlandi hefur ekki náð að fylgja eftir þeirri þróun sem verið hefur á suðvesturhorni landsins undanfarin ár. Þau áform sem kynnt hafa verið gætu skipt sköpum í Þingeyjarsýslum. Starfsemi Þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum hefur til dæmis liðið fyrir stuttan ferðamannatíma og ófullnægjandi samgöngur. Fjárfesting á Grímsstöðum myndi kalla á stóraukna markaðssetningu og kynningu á Þingeyjarsýslum.
Greinargerð:
Ferðaþjónusta í Þingeyjarsýslum hefur löngum liðið fyrir stuttan ferðamannatíma. Vegna þess hefur Norðausturland dregist aftur úr öðrum svæðum þegar horft er til fjárfestinga í greininni. Yfir vetrartímann standa mannvirki mikið til auð og arðsemi fjárfestinga stórminnkar. Mikil fjárfesting hefur verið á undanförnum árum á suðvesturhorni landsins hvort sem það er í gistirými eða í samgöngum.
Á síðastliðnum 15 árum hefur íbúum í Norður- og Suður Þingeyjarsýslum fækkað um 1.100 manns. Mest er það ungt fólk á barneignaraldri sem hefur flust í burtu vegna takmarkaðra tækifæra heima fyrir. Ekki sér fyrir endann á þeirri þróun.
Í skýrslu sem Þekkingarnet Þingeyinga gerði 2010 kom fram að meðalútgjöld ferðamanns á Húsavík væri 13.544 krónur á sólarhring. Heildarútgjöld ferðamanna á Húsavík sumarið 2010 voru því 1,2 til 1,8 milljarðar króna. Ferðaþjónustunni hefur vaxið fiskur um hrygg undanfarin ár og hefur orðið hornsteinn atvinnuuppbygginar í landinu.
Áform Huang Nubo um uppbyggingu á sviði ferðaþjónustu á Grímsstöðum á Fjöllum er því gleðiefni fyrir íbúa Þingeyjarsýslu. Fyrir utan þann fjölda starfa sem myndu skapast þá yrði um leið gerð aukin krafa til uppbyggingar á innviðum eins og samgöngum. Til dæmis hefur Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum löngum liðið fyrir ófullnægjandi samgöngur.
Stjórn Húsavíkurstofu hvetur Ögmund Jónasson Innanríkisráðherra að samþykkja kaup Huang Nubo á Grímsstöðum á Fjöllum og um leið blása lífi í þá uppbyggingu sem Þingeyingar hafa svo lengi beðið eftir.