Skipulag Húsavíkur og nágrennis III

Í þessari þriðju og síðustu grein okkar um skipulag Húsavíkur og nágrennis ætlum við að taka fyrir nokkrar einingar sem krefjast mismunandi skipulags,

Skipulag Húsavíkur og nágrennis III
Aðsent efni - - Lestrar 531

Í þessari þriðju og síðustu grein okkar um skipulag Húsavíkur og nágrennis ætlum við að taka fyrir nokkrar einingar sem krefjast mismunandi skipulags, miðsvæði, íbúabyggð og athafna- og iðnaðarsvæði önnur er iðnaðarsvæðið á Bakka.

 

Miðsvæði

Miðsvæði Húsavíkur afmarkast af giljunum í norðri og suðri og höfninni í vestri og Miðgarði í austri. Í forsendugreiningu Alta er svæðinu líkt við tvo ása, annars vegar Garðarsbraut-Héðinsbraut og hins vegar svæðið á milli Vallholtsvegar og Stóragarðs. Svæðið er afar gisið og götumyndin víða brotin. Mikil tækifæri felast í því að þétta byggð og laga götumyndir. Innan miðbæjarsvæðisins eru nokkur  ófrágengin svæði eða svæði sem bjóða upp á endurskipulag. Öskjureiturinn, svæðið á milli Kaupfélagshússins og N1 og lóðin fyrir ofan hótelið eru dæmi um slík svæði.

Í forsendugreiningu Alta er lögð áhersla á að miðbæjarkjarninn verði frá Naustagili að kirkju þar sem hafnarsvæði og miðbær mætast. Jafnframt er lagt til að uppbygging á miðbæjarsvæði verði fyrst beint á Kaupfélagsreit og Öskjureit. Þetta er vísun í gamla byggðamynstrið með einni megin verslunargötu. Við teljum þetta vera góða leið til að dreifa umferð ferðamanna um bæinn og glæða fleiri staði lífi en hafnarsvæðið. Rökrétt framhald er svo að teygja umferðina í átt að Safnahúsinu og mynda jafnvel þríhyrning með greiðum aksturs- og gönguleiðum milli Kaupfélagsreitarins, Safnahússins og Öskjureitarins.

Í greinargerð aðalskipulagsins er lagt til að svokallaðurKeldugangur verði endurvakinn. Keldugangur er stígur sem lá frá Garðarsbraut á milli Stóragarðs og Vallholtsvegar. Hugmyndin um að endurvekja gamla gönguleið er í sjálfu sér ekki slæm í ljósi markmiða um minni bílaumferð í miðbænum og að gera Safnahúsið sýnilegra ferðamönnum. En ef horft er til þess í hvers konar umhverfi stígurinn mun liggja þá efumst við um gildi þess að endurvekja hann. Að honum snúa nánast eingöngu bakgarðar húsa með atvinnustarfsemi á jarðhæð og að hluta íbúðasvæði. Við teljum að endurvakning stígsins geti grafið undan atvinnustarfsemi við göturnar sitt hvorum megin við stíginn. Stórigarður er orðinn nokkuð líflegri sem verslunar- og þjónustugata aftur og nú eru þar ljósmyndastofa, apótek, fótaaðgerðastofa og hársnyrtistofa. Öll þessi starfsemi og hönnun húsanna gerir eingöngu ráð fyrir umferð sunnanmegin við þau. Ef gangandi umferð er færð norður fyrir húsin að hluta dregur mjög úr lífi þessarar annars fallegu breiðgötu sem minnir um margt á götur í stórborgum.

Stórigarður

Frekar ætti að styðja við uppbyggingu Stóragarðs og þar með fyrr nefnds þríhyrnings m.a. með byggingum/framkvæmdum á lóðinni við hlið hótelsins. Með því að staðsetja byggingu á þeirri lóð þétt við götuna gefst færi á að nýta suðursvæði þeirrar lóðar til sólríks útisvæðis þar sem sjálf byggingin getur skapað skjól á meðan norðurhlið byggingarinnar mundi ramma enn frekar inn fallega götuna. Ef sú bygging væri að hluta íbúðarbygging myndi hún einnig efla miðbæinn þar sem íbúar gætu farið fótgangandi til flestra erinda og þá lýkur „lífinu“ í miðbænum ekki eftir að hefðbundnum verslunartíma lýkur.

Íbúðasvæði

Samkvæmt greinargerð aðalskipulagsins eru næstu íbúðarhverfi skipulögð í jaðri bæjarins bæði í tengingu við núverandi íbúabyggð og á nýjum stöðum. Jafnframt er ætlunin að leggja áherslu á að íbúðum í miðbænum verði fjölgað þannig að vegalengdir frá íbúabyggð í þjónustu og að skólasvæði verði stuttar og helst í göngufæri. Þetta þykir okkur vera jákvæð þróun þ.e. að byggðin verði þéttari í miðju bæjarins og styður þetta jafnframt við markmiðið um að auka umferð gangandi vegfarenda.

Áður höfum við minnst á verkstæði jólasveinsins í tengslum við aðalskipulagið, áhrif og afleiðingar þess, ef það væri útgangspunktur í skipulaginu. Í greinargerð aðalskipulagsins, þar sem fjallað er um framtíðarsvæði fyrir íbúðabyggð, er gert ráð fyrir að byggt verði meira í Reitnum og á Skógargerðismelnum. Þetta hefur verið inni á skipulagi síðan 1985 a.m.k.

Áður en byggt verður á Skógargerðismelnum, sem er síðasti byggingarkosturinn fyrir íbúðasvæði í aðalskipulaginu skv. greinargerðinni, þarf að lækka melinn. Í aðalskipulagi fram til ársins 2005 var ætlunin að byggja á honum eins og hann er. Enn og aftur hefur fyrirhugðu álversbygging áhrif á mótun skipulagsins og umhverfis okkar. Gerð er tillaga að því að svæðið verði nýtt til malarnáms og efnið sem hægt er að vinna úr melnum verði notað til uppfyllingar í tengslum við hafnarframkvæmdir vegna álvers og á íbúðasvæðinu í Reitnum. Hitt sjónarmiðið sem hefur áhrif er að með því að slétta úr Skógargerðismelnum verður auðveldara og ódýrara að búa til götur á honum. Mun áhugaverðara væri að byggja á Skógagerðismelnum eins og hann er. Þó gatnagerð yrðir dýrari fengjum við bæði mun áhugaverðara íbúðasvæði til að búa á og eins til að horfa á.

Iðnaðarsvæði og athafnasvæði

Nokkur svæði eru teiknuð upp og skilgreind sem athafna- eða iðnaðarsvæði. Bæði er um að ræða ný svæði sem og eldri svæði sem þegar gegna þessum hlutverkum. Á athafnasvæðum er gert ráð fyrir atvinnustarfsemi þar sem lítil hætta er á mengum s.s. léttum iðnaði, geymslum, verkstæðum og umboðs- eða heildverslunum. Þar eiga helst ekki að vera íbúðir. Á iðnaðarsvæðum skal aftur á móti gera ráð fyrir umfangsmikilli iðnaðarstarfsemi með tilheyrandi mengunarhættu s.s. verksmiðjum, veitum, skólpdælum og hreinsistöðvum, birgðastöðvum fyrir olíur og móttökustöðvar fyrir úrgang. Einnig má vera með gróðurhús á slíkum svæðum.

Suðurfjara

Það eru óumdeilanlega mikil sjónræn áhrif frá þeim svæðum í miðbænum sem á tillögum að aðalskipulagi eru skilgreind sem athafna- og iðnaðarsvæði. Athafnasvæði í suðurfjöru, fyrir neðan Mararbrautina, mun taka yfir hluta þess útivistasvæðis sem fjaran er í dag. Séð að ofan, munu loftræstihús og þök iðnaðar- og verslunarhúsnæðis vera mjög áberandi og flokkast það tæplega sem fagurt útsýni. Einnig eru fyrirhugaðir súrálsturnar vestan/norðan við núverandi aðstöðu Flytjanda ef af álversframkvæmdum verður sem munu setja mjög stóran svip á útsýni miðbæjarins. Þeir standa t.d. mun nær íbúðabyggð hér hjá okkur en þeir gera á Reyðarfirði eða í Hafnarfirði.

Samsett mynd sem sýnir súrálsturna vegna fyrirhugaðs álvers.  Á myndina vantar búnað sem kemur ofan á tankana. Hlutföllin sjást vel ef miðað er við olíutankinn lengra til hægri.  Myndin er tekin úr frummatsskýrslu vegna umhverfismats um álver á Bakka á vef Skipulagsstofnunar.

Fljótlega verður tillaga að aðalskipulagi kynnt fyrir íbúum í Norðurþingi. Mikilvægt er að íbúar fylgist vel með því sem er gert að tillögum í aðalskipulaginu og varðar þéttbýlið, sérstaklega miðbæinn og hafnarsvæðið. Sú hætta er fyrir hendi að inn í aðalskipulagið rati atriði sem sett hafa verið fram sem hugmyndir en verða að gildandi aðalskipulagi og þar með að ramma deiliskipulags á hverju svæði fyrir sig.

Við viljum benda á nokkra þætti sem okkur finnast vera athyglisverðir eða sem fólk ætti að taka afstöðu til þar sem þeir skipta miklu varðandi framtíðarútlit og notkun svæða í bænum.

Þessi atriði eru eftirfarandi:

  • Iðnaðarlóðin á Bakka og stærð hennar. Viljum við stíga það skref sem lagt er til í tillögu að aðalskipuagi að iðnaðarlóðin fyrir álverið á Bakka miðist við 346.000 tonna álver og að þar með höfum við ekkert um það að segja hvort fyrirhugað álver verði stækkað í þessa stærð síðar?
  • Athafnasvæðið í suðurfjöru. Hluti þess sem mótar lífsgæði íbúa er aðgengi að opnum svæðum til útivistar. Fjaran hefur verið mjög vinsælt útivistarsvæði allan ársins hring og það að taka hana undir athafnasvæði skerðir tvímælalaust lífsgæði íbúa. Er það þróun sem við viljum taka þátt í? Eða viljum við áfram geta notið þess að hafa sandfjöru í þægilegu göngufæri frá heimilum okkar?
  • Miðbærinn. Einn af útgangspunktum í miðbæjarskipulaginu er að upplýsingamiðstöð ferðamanna verði að Garðarsbraut 7 (en verið er að ganga frá framtíðaraðstöðu fyrir slíka starfsemi í Hvalasafninu) og tengingu hennar við Keldustíg. Að mati okkar er það stór galli að á skipulagstillögunni að gengið sé út frá ákveðinni starfsemi í ákveðnum húsum. Nú þegar áður en skipulagið hefur verið samþykkt er það orðið úrelt. Aðrir þættir en tiltekin starfsemi í húsum ættu að ráða skipulaginu. Efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir ættu að ráða sem og heilbrigði og öryggi íbúa sbr. skipulagslög.
  • Hafnarsvæðið. Vilji flestra er líklega að við höfnina fari saman útgerð og sjósækin ferðaþjónusta. Á þetta er lögð áhersla í skipulaginu. Þar er jafnframt lögð áhersla á að halda í ákveðin sérkenni og byggingar sem móta sjálfsmynd íbúa bæjarins. Núverandi sveitarstjórn hefur þegar samþykkt að fjarlægja nokkrar byggingar þvert á það sem lagt er til í tillögu að aðalskipulagi. Annað sem mun hafa mikil áhrif á hafnarsvæðið er sú áskorun sem vegurinn í gegnum það er. En breikkun hafnarstéttarinnar til að koma veginum fyrir mun hafa mikil áhrif á umferð gangandi ferðamanna sem og þá atvinnustarfsemi sem nú er við höfnina. Ríkir sátt meðal íbúa um að um hafnarsvæðið verði lögð tengibraut vegna þeirra þarfa sem fylgja álveri?

Að lokum

Tillaga að aðalskipulagi 2010-2030 er að okkar mati bæði skynsöm og góð að mörgu leyti og stefnan sem er mörkuð með því t.d. að ætla sér að hafa íbúðasvæði í göngufæri frá þjónustu, skólum og miðbæ býður upp á ýmsa spennandi möguleika þegar kemur að deiliskipulagi miðbæjarins, íbúðasvæðanna og tenginga þar á milli. Þessi stefna er grundvöllur þess að miðbærinn eflist. Blöndun verslunar og þjónustu býður upp á þá möguleika að iðandi líf sé í bænum á öllum tímum og má líkja því við þá tíma þegar járnsmiðurinn bjó á efri hæðinni og vann á þeirri neðri, eins og bakarinn og saumakonan gerðu einnig. Hins vegar hefur tillagan á sér ýmsa galla og er sá stærsti að grundvöllur skipulags of margra svæða er bygging álvers á Bakka. Stóriðjuframkvæmdirnar eru of veigamikill þáttur í skipulaginu á kostnað samfélagslegra þátta og þeirrar atvinnustarfsemi sem fyrir er. Gildir þá einu hvort um er að ræða svæði ætluð íbúðabyggð, verslun og þjónustu eða iðnaði. Aðalskipulag á að taka mið af þörfum íbúa og fjölbreyttrar atvinnustarfsemi. Það á ekkert eitt atriði að geta orðið ráðandi í skipulagi sveitarfélags, hvorki álver né leikfangaverksmiðja jólasveinsins og neyðarlendingabrautin hans. Til samanburðar geta áhugasamir skoðað aðalskipulag Fjarðarbyggðar. Þó álver hafi verið byggt á Reyðarfirði hefur það ekki sett mark sitt á skipulag bæjarins núna nokkrum árum eftir að framkvæmdum er lokið.

Það er von okkar að lesendur greinanna þriggja hafi haft gagn og gaman að. Tilgangurinn var að vekja lesendur til umhugsunar um það umhverfi sem við búum í og að þeir móti sér skoðun á því hvernig þeir vilja sjá það þróast. Vonandi höfum við náð því markmiði.

Höfundar:

 Arnhildur Pálmadóttir, arkitekt FÍA, og Helena Eydís Ingólfsdóttir, MPA nemi í opinberri stjórnsýslu.

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744