18. sep
Skálmöld heldur tryggð við Rás 1Aðsent efni - - Lestrar 883
Önnur plata víkingarokkshljómveitarinnar Skálmaldar er væntanleg í verslanir í lok október. Fyrri plata sveitarinnar, Baldur, sló
í gegn svo um munaði og sameinaði ólíka samfélagshópa í aðdáun á þungri tónlist og íslenskum menningararfi.
Textar Skálmaldar eru settir saman eftir flóknum reglum íslenskrar bragfræði og yrkisefnið, fornsögur og goðafræði, fellur einkar vel saman
við melódíska og kraftmikla tónlistina.
Þegar fyrri platan kom úr hér á landi, í desember 2010, var Skálmöld svo að segja óþekkt stærð. Þá
þegar höfðu meðlimir flakkað milli útgáfufyrirtækja án árangurs og á endanum var platan gefin út af færeyska
fyrirtækinu Tutl. Viðtökur útvarpsstöðva voru einnig dræmar og útvarpsspilun engin framan af. Það var síðan hinn
rótgróni útvarpsþáttur Víðsjá á Rás 1 sem reið á vaðið og varð fyrst allra útvarpsstöðva til
að spila Skálmöld í útvarpi. Eftir það opnuðust allar flóðgáttir og sveitin hefur síðan þá fengið
gríðarmikla athygli útvarpsstöðva, sem og annarra fjölmiðla.
Eins og fyrr segir er önnur plata Skálmaldar nú væntanleg og hefur útgáfudagur verið auglýstur 26. október, en platan kemur
samdægurs út víða um heim. Enn hefur almenningur ekki fengið að heyra forsmekkinn, en nú á föstudaginn, 21. september, stendur það til
bóta og lagið Narfi verður sett í almenna útvarpsspilun, bæði hér heima og utan. Lagið verður hins vegar forspilað einum degi fyrr, einmitt
í Víðsjá á Rás 1, og vilja Skálmaldarmenn þannig votta virðingu sína og þakka stuðninginn í upphafi.
Þátturinn hefst klukkan 17.03 og ljóst er að margir bíða hans með mikilli eftirvæntingu. (Fréttatilkynning)