Sjtta og sasta srtka grein um Valaheiargng vinningur allraAsent efni - - Lestrar 507
Það hefur mjög jákvæð efnahagsleg áhrif um þessar mundir að fara í framkvæmdir sem Vaðlaheiðargöng. Ríkið hefur beinan peningalegan ávinning af gerð ganganna. Hluti af kostnaðinum við gerð ganganna fer beint inn í ríkissjóð aftur. Líklegt er að um 300 ársverk verði unnin á þeim þremur árum sem tekur að klára framkvæmdina. Launakostnaður vegna framkvæmdarinnar verður líklega 2-3 milljarðar kr, restin 5-6 milljarðar verður vélakostnaður og aðföng. Þessar upphæðir munu hríslast um íslenskt efnahagslíf á einn eða annan hátt á meðan framkvæmdum stendur. Íslenskt vinnuafl er ódýrt um þessar mundir alþjóðlega séð og því er líklegt að flestir sem munu vinna við framkvæmdina verði Íslendingar eða fólk búsett á Íslandi. Ekki verður erfitt að fá starfsfólk, yfir 10.000 manns eru atvinnulausir.
Fyrir það fyrsta mun framkvæmdin verða þess valdandi að færra fólki þarf að greiða atvinnuleysisbætur á framkvæmdatímanum. Um 500 Mkr sparast í atvinnuleysisbótum ef miðað er við 140.000 kr á mánuði og 300 ársverk. Ríkið mun einnig fá beinar tekjur í formi tekjuskatts og tryggingargjalds af þeim sem vinna við gangagerðina. Sú upphæð gæti orðið um eða yfir 500 Mkr einnig. Þetta má kalla bein áhrif á ríkissjóð. Óbeinu áhrifin gætu komið með aðra eins upphæð í ávinning fyrir ríkissjóð. Það eru störf sem ekki eru á framkvæmdastað en verða til þegar aðföng eru keypt, vélar eru þjónustaðar og þegar starfsmenn eyða tekjum sínum í hagkerfinu. Það er því líklegt að peningalegur ávinningur ríkisins af gerð Vaðlaheiðarganga verði verulegur, líklega einhversstaðar á stærðargráðunni 2 milljarðar kr. Þessar tekjur eru hrein viðbót inn í ríkiskassann þegar um atvinnuleysi og efnahagsslaka að ræða. Í góðu efnahagsástandi er varhugavert að álykta að um viðbót yrði að ræða því þá myndi ein framkvæmd ryðja annarri í burtu. Þetta eru kölluð ruðningsáhrif (e. crowding out effect). Bein áhrif á sveitarfélög verða líklega um 300 Mkr í formi hærra útsvars. Óbein áhrif líklega annað eins.
Yfirgnæfandi líkur eru á því að ríkið muni fá til baka hverja krónu sem það lánar til gerðar Vaðlaheiðarganga. Það hefur verið rökstutt ítarlega í þessum greinum. Vitaskuld eru samt einhverjar líkur á að veggjaldið dugi ekki til. Hrunið kennir okkur að aldrei er hægt að útiloka að óvæntir og mjög alvarlegir hlutir gerist. Hversu miklar þessar líkur eru er erfitt að segja en það mun skýrast frekar þegar tilboð hafa verið opnuð í göngin og fjármögnun hefur verið frágengin. Ef veggjöldin duga ekki til þyrfti ríkið að brúa bilið. Mjög litlar líkur eru á að sá mismunur yrði nema nokkur hundruð milljónir ef til kæmi, í versta falli 1 til 2 milljarðar. Þó svo að Vaðlaheiðargöng kostuðu ríkið 1-2 milljarða er það spottprís fyrir framkvæmd sem kostar 10 milljarða. Líkurnar á að ríkið þurfi að leggja meira út en það græðir á því að göngin verði gerð (sparaðar atvinnuleysisbætur og skattar) eru hverfandi. Líkurnar á því að skattgreiðendur muni fá göngin í hausinn í þessum skilningi eru því hverfandi.
Mestar líkur eru á því að dæmið gangi upp og allir hagnist, vegfarendur, atvinnulíf, heimili, sveitarfélög og ríkissjóður. Því væri það sárara en tárum tekur ef tækifærið að gera göngin núna, í atvinnuleysinu, verður látið fara í súginn. Ávöxtunarkrafa á ríkisbréfum verður ekki alltaf jafn lág og nú. 1.700 milljarðar munu ekki alltaf bíða í bankakerfinu eftir verkefnum. Ef gera á Vaðlaheiðargöng síðar er ekki víst að það sé hægt með veggjöldum einum eins og um þessar mundir.