Sjómenn eðlilega argirAðsent efni - - Lestrar 422
Það sem vekur töluverða athygli er að háskólamenntaðir
ríkisstarfsmenn hafa verið mjög áberandi í þessari umræðu og lagt til að sjómannaafslátturinn verði felldur niður. Þeir
benda hins vegar ekki á aðra og enn árangurríkari leið til að laga stöðuna fyrir ríkið. Það er að krukka í
ríkistryggða lífeyrissjóðakerfið hjá opinberum starfsmönnum og jafna það við lífeyrissjóðakerfið á almenna
vinnumarkaðinum. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum voru lífeyrisskuldbindingar ríkisins umfram eignir Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins,
B-deildar, um 351, 4 milljarðar árið 2007 og höfðu aukist um 84 milljarða milli ára.
Meðan sjómenn og aðrir launþegar á almenna vinnumarkaðinum þurfa að taka á sig skerðingar, standi þeirra lífeyrissjóðir
ekki undir lífeyrisskuldbindingum, tryggir ríkið með skatttekjum lífeyrissjóðsskuldbindingar opinberra starfsmanna og þar með þingmanna sem eru
með málið til umfjöllunar á Alþingi. Sem sagt, á sama tíma og sjómaðurinn tekur á sig skerðingar á lífeyri
þarf hann með sínum sköttum að tryggja að sjóðsfélagar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins haldi fullum rétti úr
sínum sjóði. Þetta er að sjálfsögðu mjög óréttlátt kerfi, sjómanninum og öðrum launþegum á almenna
vinnumarkaðinum í óhag. Milljarðurinn sem leggjast mun á sjómenn við afnám sjómannaafsláttarins dugar skammt upp í gatið sem er
á lífeyrissjóðsskuldbindingum ríkisins gagnvart opinberum starfsmönnum.
Þá má geta þess að sjómenn greiða fyrir sitt fæði um borð. Fæðispeningar sem útgerðin greiðir sjómönnum
flokkast sem laun og eru skattlagðir sem slíkir. Dagpeningar sem greiddir eru til annarra stétta vegna ferðalaga á vegum vinnuveitanda eru ekki skattlagðir. Ef
gæta ætti jafnræðis ættu sjómenn að fá kr. 8.300 á dag frádregnar frá tekjum vegna fæðiskostnaðar áður en
skattur er reiknaður.
Þeir sem berjast þessa dagana fyrir afnámi sjómannaafsláttarins ættu að gefa þessu óréttlæti gaum. Jöfnunin er ekki bara
fólgin í að fella niður sjómannaafsláttinn, hún hlýtur einnig að felast í að lífeyrissjóðsréttindin verði
jöfnuð milli opinberra starfsmanna og starfsmanna á almenna vinnumarkaðinum. Eða er það ekki? Vonandi verður ekki þörf á því
að hrófla við þessum réttindum, eða sjómannaafslættinum og í framtíðinni búi allir lífeyrissjóðir á
Íslandi við sömu tryggingarákvæði gagnvart sjóðfélögum. Markmiðið á að vera að jafna stöðu fólks, burt
séð frá því við hvað það starfar. Ekki síst á þeim tímum sem við erum að upplifa um þessar mundir.
Aðalsteinn Á. Baldursson