Selveiðar við sand

Fyrir nokkru birtist á fésbókarsíðunni Húsavík á árum áður frásögn Eiríks Sigurðssonar af selveiðum inn við sand.

Selveiðar við sand
Fólk - - Lestrar 667

Söguhetjurnar Siggi og Helgi. Lj. GHE.
Söguhetjurnar Siggi og Helgi. Lj. GHE.

Fyrir nokkru birtist á fésbókarsíðunni Húsavík á árum áður frásögn Eiríks Sigurðssonar af selveiðum inn við sand.

Þetta er mögnuð frásögn og 640.is fékk góðfúslegt leyfi Eiríks til að birta hana.

Í janúarmánuði 1974 ákváðu pabbi (Sigurður Sigurðsson, gjarnan nefndur Siggi Stýssi) og Helgi Bjarnason (Helgi í Grafarbakka) að fara á selveiðar á bát pabba, Vini ÞH 73, sem var 3,5 tonna súðbyrðingur. Ég var þá 13 ára gutti og fannst alltaf ofboðslega gaman að fara með í svona túra og náði að væla út samþykki fyrir því.

Þetta var í grimmdarfrosti, en stillu, í lok janúar og fórum við af stað út frá Húsavík þegar birti um morguninn og var stefnan sett inn að Sandi, fyrir botni Skjálfandaflóa.

Pabbi var við stýrið en við Helgi stóðum frammá á útkíkki. Við sáum engan sel fyrr en við vorum komnir vestur í Bjargakrók en þá var fullorðinn landselur að sniglast skammt frá fjöruborði og reyndum við að komast nokkrum sinnum í færi við hann, en hann stakk sér alltaf áður en hægt var að koma á hann skoti. Helgi var vel vopnaður Winchester pumpunni sinni og beið óþreyjufullur eftir að geta plammað á hann. 

Við eltumst við hann nokkra stund áður hann kom skyndilega upp með hausinn, 20 metra framundan á bak og þá fékk hann það sem hann þurfti og steinlá í fyrsta skoti og lak úr honum blóðið. Varð nú uppi fótur og fit og kallarnir mjög æstir í að ná selnum áður en hann sykki. Pabbi bætti vel við Sabb-inn og setti stefnu á selinn en Helgi rétti mér byssuna en tók sjálfur langan krókstjaka og var tilbúinn til að krækja í hann. Um leið og selurinn rann aftur með kinnungnum á bak náði Helgi að setja krókstjakann á kaf í hálsinn á honum, en af því að hált var og ísað á hvalbaknum í frostinu og pabbi alltof æstur og á of mikilli ferð vildi ekki betur til en svo að Helgi tókst á loft og sveif fyrir borð í glæsilegum boga og fór á bólakaf í ískaldann sjóinn. Þegar honum skaut upp aftur 10-15 metra frá bátnum saup hann kveljur eins og við mátti búast í kuldanum og reyndi að halda sér á floti. Þeir flutu sem sagt saman í einum kór, alblóðugur og steindauður selurinn, Helgi og krókstjakinn. 

Okkur pabba var að vonum brugðið en hann náði að nýta sér áratuga reynslu við manueringar skipa og með fumlausum handtökum tókst honum á undraskömmum tíma að leggja bakborðshliðinni á Vininum að Helga. Ég teygði hendina eins og ég gat og Helgi náði í hana og pabbi stökk yfir miðrúmið til að hjálpa mér. Um leið og ég hafði náð taki á Helga öskraði hann “selinn fyrst – selinn fyrst” en við hlustuðum ekki mikið á það og reyndum að drösla kallinum um borð. Það var enginn hægðarleikur þar sem Helgi var með stærri mönnum og níðþungur í hefðbundnum klæðnaði þess tíma, tveimur lopapeysum, Álafossúlpu og bússunum kjaftfullum af sjó, en að sjálfsögðu ekki í björgunarvesti frekar en þá þekktist. Í smá tíma var alls ekki ljóst hvort okkur tækist að koma honum um borð, þrátt fyrir að nota alla okkar krafta, en það gerðist eins og stundum gerist að maður fær einhvern aukakraft þegar svona stendur á og dugði hann til þess að það tókst og Helgi veltist hríðskjálfandi yfir borðstokkinn.

Þegar þarna var komið áttum við feðgar enga krafta eftir og stóðum báðir á öndinni. Það var samt ekki nóg til að hemja veiðieðlið í pabba, sem varla náði andanum og gat rétt staðið í lappirnar eftir átökin eða Helga sem gat ekki talað vegna skjálfta og ofkælingar. Í þessu ástandi fóru þeir að brasa við að ná selnum um borð og tókst það að lokum.

Nú var Helgi drifinn fram í lúkar og kabyssan fýruð upp, þannig að kófsvartur reykurinn stóð upp úr skorsteininum og 16 hestafla Sabb- inn í Vininum keyrður í botni (6-7 sml hraði) í átt til Húsavíkur. Helgi fór úr einhverju af fötunum m.a. Álafossúlpunni sem hefur líklega verið um 20 kíló að þyngd svona blaut, en við vorum með eitthvað lítið af aukafötum og varð hann bara að hýrast sem næst kabyssunni til að reyna að fá í sig hita. Við vorum um einn og hálfan klukkutíma til Húsavíkur og varð Helga sem betur fer ekki meint af þessu volki. Því miður sá ég ekki svipinn á frú Jóhönnu þegar Helgi kom heim í Grafarbakka.

Ég er búinn að þvælast víða síðan, á sjó og landi, en þetta er með því magnaðasta sem ég hef upplifað og mun aldrei gleyma. Viðbrögðin hjá Helga lýsa einstökum veiðimanni, en það var ég svo sem búinn að sjá margoft áður t.d við Laxá í Aðaldal og á rjúpnaveiðum. Seinna sagði Helgi frá því að honum fannst einna merkilegast við þetta allt að hann tapaði ekki gleraugunum og svo fannst honum magnað þegar hann sökk sem dýpst að horfa upp í yfirborðið og sjá fagurgrænan botnfarvann á Vininum.

Þegar þetta gerðist hefur sjávarhitinn líklega verið um frostmark vegna blöndunar ósalts jökulvatns úr Skjálfandafljóti. Því hefur kælingin verið gífurleg í frostinu og nokkuð ljóst að ekki mátti mikið tæpara standa þ.e. með Helga. Skítt og lagó með selinn, þó hann hefði sokkið og orðið eftir, segi ég en vinirnir og veiðifélagarnir Siggi og Helgi hefðu seint kvittað undir það.

Skrifað 31/8 2013 um borð í Reval Viking NA af Svalbarða 8136 N– 3230 A
Eiríkur Sigurðsson - Skipstjóri


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744