Rótarý 120 áraAðsent efni - - Lestrar 33
Rótarýhreyfingin fagnar 120 ára afmæli í dag, 23. febrúar.
Paul Harris stofnaði þessa mikilvægu mannúðarhreyfingu í Chicago og nú 120 árum síðar er Rótarý starfandi í 200+ löndum um allan heim með 1,2 milljónir Rótarýfélaga og 220 þúsund Rotaract félaga (18-35 ára).
Á Íslandi starfa 32 Rótarýklúbbar um allt land og eru félagar 1.100 talsins.
Þessi merkilega hreyfing kom að stofnun Sameinuðu þjóðanna og var upphafsaðili að útrýmingu lömunarveiki í heiminum. Sú barátta stendur enn og hefur sjóður Bill og Melindu Gates tekið höndum saman með Rótarýhreyfingunni við útrýmingu þessa vágests.
Rótarý leggur áherslu á þjónustu ofar eigin hag og hentar því öllum sem vilja láta gott af sér leiða. Fjórpróf Rótarýfélaga er tímalaust og á alltaf við:
Er það satt og rétt?
Er það drengilegt?
Eykur það velvild og vinarhug?
Er það öllum til góðs?
Rótarýhreyfingin leggur áherslu á inngildingu og því eru allir velkomnir í Rótarý, sama á hvaða aldri, af hvaða kyni, af hvaða þjóðerni, sem og fylgjendur allra trúarbragða. Allir eru velkomnir í Rótarý hvort sem þeir vilja ganga til liðs við klúbba eða stofna sína eigin.
Rótarý lætur sig varða umhverfismál, vatnsvernd, friðarmál, heilbrigðismál, menntun, læsi, sjálfbærni samfélaga, mæðravernd, vernd barna og ungmenna o.fl.
Á Húsavík hefur verið starfandi Rótarýklúbbur í 85 ár og stofnað var Rótarskot út frá þeim klúbbi í nóvember 2023. Rótarskotið hefur nú slitið barnsskónum og er að bæta við sig félögum. Þú ert velkomin/n í klúbbinn, en hann leggur áherslu á að láta gott af sér leiða í samfélaginu. Við fundum einu sinni í mánuði á netinu og einu sinni í mánuði heimsækjum við fyrirtæki og stofnanir á svæðinu og fræðumst um atvinnumál eða annað áhugavert sem er að gerast í samfélaginu okkar.
Soffía Gísladóttir
soffiagisla65@gmail.com