Róðrar hafnir frá CalahondaFólk - - Lestrar 547
Það var ekki laust við að það hafi farið fiðringur um ljósmyndara 640.is þar sem hann flatmagaði í sólinni á Calahondaströndinni í Nerja á Costa del Sól í dag.
Hann varð þá var við hreyfingu á einum af þeim bátum sem þar hafa legið í nausti síðan hann kom til Nerja þann 1. mars sl.
Það var stokkið til enda myndavélin við höndina og hleypt af. Lolita heitir fleyið og eftir að kallarnir höfðu ýtt því fram að flæðarmálinu var allt stopp um tíma.
Á hraða snigilsins var farið í það að greiða niður net i bátinn, setja baujur og færi um borð og annað sem til þarf til netaveiða. Ríflega 23 stiga hiti og kallarnir fóru sér engu óðslega við vinnu sína.
Ljóst er að þeir voru ekki að fara til grásleppuveiða eins og margir kollegar þeirra heima á Íslandi stunda núna en það kemur kannski í ljós síðar hverskonar fiska þeir eru að veiða í netin.
Þetta hafðist að lokum og Lolia hélt til hafs eins og sjá má af myndunum sem birtast hér að neðan.
Það er komin hreyfing á Lolitu.
Kallarnir setja drumba í sandinn til að ýta Lolitu á til sjávar.
En þegar komið var að flæðarmálinu var farið að greiða netin um borð í bátinn.
Menn báru hvert netið á fætur öðru að bátnum.
En þegar búið var að greiða niður og setja mótorinn á var sjósett.
Það var róið frá landi þar til óhætt var að setja utanborðsmótorinn niður og í gang.
Og síðan var haldið til hafs.
Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.