Reykdælskar bogaskyttur unnu til verðlauna á ÍslandsmótiÍþróttir - - Lestrar 381
Reykdælskar bogaskyttur úr UMF Eflingu gerðu ágæta ferð á fyrri hluta Íslandsmótsins í bogfimi innanhúss en keppt var í flokki byrjenda, U18, U21 og 50 plús.
Keppnin var haldin í Bogfimisetrinu í Reykjavík laugardaginn 16. febrúar. Frá þessu segir á Efling-Bogfimi
Ásgeir Ingi Unnsteinsson keppti með sveigboga í undir 21 árs flokki og hlaut silfrið eftir spennandi útsláttarkeppni við Akureyringinn Aron Örn Ólason Lotsberg sem hampaði gullinu.
Unnsteinn Ingason hreppti bronsið í keppni með sveigboga, sömuleiðis eftir spennandi útsláttarkeppni. Þá hlaut Ásgeir Ingi gullverðlaun í liðakeppni U21 og Unnsteinn silfurverðlaun í liðakeppni 50+.
Annars voru Norðlendingar sigursælir því samtals fóru þeir heim með á annan tug verðlaunapeninga. 42 þátttakendur voru skráðir til leiks á mótinu. Síðari hluti íslandsmótsins fer fram í Reykjavík um miðjan mars þar sem keppt verður í opnum flokki í öllum bogagerðum.
Nánari upplýsingar um úrslit, skor og fl. er að finna á www.archery.is