Pétur ljósmyndari listamaður Norðurþings 2020Fólk - - Lestrar 205
Pétur Jónasson ljósmyndari var útnefndur listamaður Norðurþings 2020 á þjóðhátíðardegi Íslendinga, 17. júní.
Sveitarstjórn Norðurþings samþykkti í september á síðasta ári tillögu B-lista þess efnis að ár hvert, frá og með árinu 2020 yrði listamaður Norðurþings útnefndur á þjóðhátíðardegi Íslendinga.
Í frétt á heimasíðu Norðurþings segi m.a
"Einróma ákvörðun fjölskylduráðs var að útnefna Pétur Jónasson ljósmyndara, listamann Norðurþings 2020. Það er alveg óhætt að segja að Pétur hefur frá upphafi verið einhver framsæknasti ljósmyndari landsins og rekur enn Ljósmyndastofu sína sem hann opnaði 1962 á Húsavík. Hún er því í dag elsta ljósmyndastofa landsins.
Pétur hefur ávallt verið meðal þeirra fremstu í að tileinka sér nýja tækni og framfarir er tengjast ljósmyndun og framköllun. Í gegnum tíðina hefur hann því bæði sinnt faglegum hliðum síns starfs til jafns við þær listrænum með einstakri natni og næmni fyrir minnstu smáatriðum. Margar kynslóðir Húsvíkinga hefur hann myndað á stofu sinni, í skólum bæjarins, í Húsavíkurkirkju, í leikhúsinu eða við önnur tilefni".