Óviðunandi geðheilbrigðisþjónusta ungmenna á NorðurlandiAðsent efni - - Lestrar 794
Vanlíðan ungs fólks á Norðurlandi er stórt vandamál sem þarf að bregðast við strax. Eftir hálft ár í starfi sem
sálfræðingur í Verkmenntaskólanum á Akureyri (VMA) hefur mér orðið ljóst að geðheilbrigðisþjónusta fyrir
norðlensk ungmenni er ekki boðleg. Sérstaklega ber að nefna þá þjónustu sem 16 og 17 ára ungmennum stendur til boða.
Eftir að sjálfræðisaldurinn var hækkaður í 18 ár virðist hafa gleymst að gera ráð fyrir þeirri
geðheilbrigðisþjónustu sem 16 og 17 ára börn eiga rétt á samkvæmt lögum. Mörg sveitarfélög leggja áherslu á
að sinna börnum sem eru í leik- og grunnskólum en eftir sitja þeir sem eru 16 og 17 ára með skerta þjónustu. Það er því
orðið tímabært að ríkið skilgreini sérstaklega hlutverk sitt í samráði við sveitarfélögin þegar kemur að
geðheilbrigðisþjónustu nemenda á fyrstu árum framhaldsskóla.
VMA hefur tekið skref í rétta átt, fyrstur framhaldsskóla á Íslandi og ráðið til sín sálfræðing til þess
að vinna að bættu geðheilbrigði nemenda. Er um tilraunaverkefnið „Nám er vinnandi vegur" að ræða. Sálfræðiþjónustan
sem boðið hefur verið upp á í VMA í vetur hefur verið vel nýtt og hafa um 70 nemendur á öllum aldri notfært sér hana að
einhverju leyti á haustönn.
Þjónustan felst annars vegar í hóptímum fyrir nemendur með kvíða og/eða þunglyndiseinkenni og hins vegar í
einstaklingsviðtölum þar sem í báðum tilfellum er unnið eftir hugrænni atferlismeðferð. Þar sem VMA er menntastofnun en ekki
meðferðar- eða heilbrigðisstofnun hefur þjónustan beinst að þeim sem eru með vægari einkenni. Þegar kemur að því að
vísa nemendum áfram sem þurfa á frekari meðferð að halda hefur komið í ljós að fá úrræði eru til staðar.
Þjónustan fer minnkandi
Ekki er hægt að ætlast til þess að barna- og unglingageðdeild Sjúkrahússins á Akureyri geti sinnt þeirri þörf sem er fyrir hendi
þegar þar starfar einn sálfræðingur í hlutastarfi og einn geðlæknir. Svæðið sem deildin þjónustar nær vestur frá
Hrútafirði alla leið austur til Hornafjarðar. Geðheilbrigðisþjónusta barna og unglinga á Sjúkrahúsinu á Akureyri kemur ekki til
með á batna á þessu ári þar sem framkvæmdastjórn Sjúkrahússins hefur nú frá 1. janúar lagt niður barna- og
unglingageðdeildina sem sjálfstæða einingu og hafa bæði starfandi barnageðlæknir og sálfræðingur sagt starfi sínu lausu. Deildin hefur
því lokið hlutverki sínu í lok mars þegar uppsagnarfrestir starfsmanna hafa runnið út.
Engin sérstök meðferðarúrræði eru í boði á Heilsugæslustöðinni á Akureyri. Þar er hins vegar starfrækt
unglingamóttaka í eina klukkustund á viku þar sem læknir og/eða hjúkrunarfræðingur veita ráðgjöf og vísa málum
á þá staði sem við á. Eftir stendur þá fullorðins geðsviðið á Sjúkrahúsinu á Akureyri þar sem
biðlistar eru langir og eru sífellt að lengjast og sjálfstætt starfandi sálfræðingar sem alls ekki allir hafa ráð á að notfæra
sér.
Mikið þarf að gerast til þess að geðheilbrigðisþjónusta ungs fólks á Norðurlandi verði viðunandi. Nýtt ár fer ekki
vel af stað og virðist sem þjónustan fari minnkandi sem á ekki að vera hægt þar sem þjónustan er lítil sem engin.
Verkmenntaskólinn á Akureyri hefur tekið stórt skref í rétta átt og er það von mín að ríki og sveitarfélög taki
höndum saman og leggi aukna áherslu á meðferð ungs fólks og forvarnir. Greiningar, einar og sér, skila sér ekki í bættri geðheilsu
ungs fólks heldur þarf að veita meðferð við hæfi af hæfum meðferðaraðilum.
Hjalti Jónsson sálfræðingur.