Óli og söguskýring sveitamannsins

Við tökum við ýmsu á lífsleiðinni, en það er hreint ekki hægt að láta allt yfir sig ganga án þess að veita andsvör þegar verið er að rýra mannorð mitt

Óli og söguskýring sveitamannsins
Aðsent efni - - Lestrar 532

Jóhanna Ingvarsdóttir.
Jóhanna Ingvarsdóttir.

Við tökum við ýmsu á lífsleiðinni, en það er hreint ekki hægt að láta allt yfir sig ganga án þess að veita andsvör þegar verið er að rýra mannorð mitt fyrir framan nærsamfélagið Norðurþing, komandi fram með ósannindi, ærumeiðingar og persónuníð.

Þessu tókst Óla Halldórssyni, framkvæmdastjóra Þekkingarnets Þingeyinga og forseta sveitarstjórnar Norðurþings (í leyfi), að koma til leiðar í grein, sem hann ritaði og birtist í vefmiðlinum www.640.is þann 25. október 2019, og ég kýs að kalla “söguskýringu sveitamannsins”, sem á ekkert skylt við eiginlegan raunveruleika.

Upphaf þessarar “sorglegu” sögu má rekja allt aftur til ársins 2014, þegar ég, þá nýlega orðin sjálfstætt starfandi við þróun og ritun Evrópuumsókna eftir að hafa gengið út úr starfi hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands sökum óbærilegs eineltis á vinnustað af hálfu yfirboðara. Þar hafði ég verið starfandi frá árinu 2010, m.a. við þróun og ritun Evrópuumsókna. Sumarið 2014 ákvað ég að kynna hugmynd að þriggja ára Erasmus-verkefni fyrir því samfélagi, sem ég ólst upp í og hafði draum um að láta gott af mér leiða. Verkefnishugmyndinni var vel tekið af hálfu allra hlutaðeigandi aðila, það er fulltrúum Norðurþings fyrir hönd leik- og grunnskólastigsins, Framhaldsskólans á Húsavík, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, Þekkingarnets Þingeyinga og Háskólans á Akureyri. Úr varð að Þekkingarnet Þingeyinga ákvað að gera við mig sex mánaða verktakasamning um þróun og ritun Erasmus-umsóknar og ef styrkur fengist, þá yrði ég verkefnisstjóri í verkefninu öllu, til þriggja ára, fyrir hönd ÞÞ. Á sex mánaða undirbúningstímabili við þróun og ritun umsóknar, var skipaður verkefnishópur frá öllum hagsmunaaðilum í Norðurþingi og Háskólanum á Akureyri sem ég fundaði með reglulega á meðan á umsóknarferlinu stóð. Til að standa straum af kostnaði við umsóknarvinnuna, sótti ÞÞ um 1,5 milljóna króna styrk í Vaxtarsamning Norðausturlands (VAXNA), í umsjá Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga. Stór hluti þeirrar fjárhæðar fór í að kosta erlend ferðalög verkefnisstjóra við að afla þriggja erlendra samstarfsaðila í Wales, Svíþjóð og Ítalíu. Erlendu samstarfsaðilarnir voru allir hluti af því tengslaneti, sem undirrituð hafði byggt upp á löngum tíma og togaði inn í viðkomandi verkefni fyrir hönd ÞÞ.

Eftir sex mánaða vinnu minnar í þessu verkefni, var viðkomandi umsókn skilað inn fyrir lok umsóknarfrests, 31.03.2015, undir yfirskriftinni “Creative Regions for Innovation, Skills, Technology, Accessibilityy and Learning” (CRISTAL), en verkefnið miðaði að sjálfbærni sveitarfélaga með því að efla nýsköpun í Norðurþingi með samvinnu skólasamfélags, stofnana og atvinnulífs. Verkefnið í Norðurþingi myndi þannig þjóna sem “model” fyrir jaðarbyggðir í Evrópu sem ættu undir högg að sækja. Eftir langt og strangt matsferli af hálfu Landsskrifstofu Erasmus+ og erlendra matsaðila, bárust þær ánægjulegu fregnir 24.06.2015 að verkefnið hlyti brautargengi og yrði styrkt um 319.552 EUR (á þávirði um 50 milljónir ISK). Verkefnið hófst formlega þann 1. september 2015 með vel heppnuðum “kick-off” fundi í Norðurþingi, sem ég skipulagði, þar sem saman komu allir hagsmunaaðilar ásamt erlendu samstarfsaðilanum frá Wales, Svíþjóð og Ítalíu.

En verkefnisstjórinn ég var ekki lengi í “paradís” því þann 20.10.2015 barst undirritaðri símtal frá Óla Halldórssyni, þar sem ég var stödd á ráðstefnu um starfsmenntun á Kýpur. Í umræddu símtali tjáði Óli mér að honum hefði borist símtal frá mínum fyrrum yfirboðara á Nýsköpunarmiðstöð Íslands og geranda í eineltismálinu gagnvart mér, um að í þessari umræddu umsókn hefði ég gerst sek um “stuld á hugmynd”. Í kjölfar ásakana NMÍ á hendur mér um meintan “hugverkastuld”, ákvað framkvæmdaráð ÞÞ, sem í sátu Óli Halldórsson, Aðalsteinn Árni Baldursson og Reinhard Reynisson, að vísa mér úr eigin verkefni og taka höndum saman við Nýsköpunarmiðstöð Íslands um verkefnið allt, af óttablandinni virðingu við viðkomandi ríkisstofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem hafði svo sannarlega ekkert með þetta mál að gera. Eineltið af hálfu NMÍ í minn garð hefur hinsvegar náð langt út fyrir öll velsæmismörk löngu eftir útgöngu mína af þeim vonda vinnustað og Þekkingarnet Þingeyinga kaus að taka fullan þátt í meðvirkninni allri enda segir Óli í grein sinni: “Enda væri stofnuninni ekki samboðið að bera ábyrgð á verkefni þar sem vafi léki á eignarhaldi hugverks”. Óli virðist sem sagt ekki vera alveg viss í sínum ásökunum í minn garð, þar sem honum hefur gjarnan verið tíðrætt um “hugsanlegan” vafa á eignarhaldi hugverks og “hugsanlegan” hugverkastuld af minni hálfu.

NMÍ býður sáttagjörð

Ég undirrituð get hinsvegar upplýst Óla Halldórsson, framkvæmdastjóra Þekkingarnets Þingeyinga og forseta sveitarstjórnar Norðurþings (í leyfi), um þá staðreynd að hér leikur nákvæmlega enginn vafi á eignarhaldi hugverks eða hugverkastuldi. Og til að svara söguskýringum Óla Halldórssonar, sem hann kýs í grein sinni að kalla “staðreyndir málsins”, er mér það bæði ljúft og skylt að telja upp fáeinar réttar staðreyndir málsins, svo enginn sveitunga minna velkist í vafa um meint glæpsamlegt athæfi mitt í þessu máli. Óli og félagar í ÞÞ ákváðu að afhenda Nýsköpunarmiðstöð Íslands verkefnið allt ásamt samþykktum Erasmus-styrk á silfurfati rétt fyrir jól 2015, sem Óli segir í grein sinni að hafi verið “upphaflegur eigandi verkefnisins”. Óli segir jafnframt í nýbirtri grein sinni á www.640.is, að ákveðið hafi verið, þrátt fyrir augljóst tjón, sem af þessari stöðu hafi hlotist, myndi stofnunin, það er ÞÞ, á þessum tímapunkti ekki sækja málið fyrir dómstólum eða með öðrum hætti gagnvart Jóhönnu Ingvarsdóttur, þó hótanir um málshöfðun liggi áfram í loftinu, sem eru alls ekki nýjar af nálinni. Ég hvet Óla eindregið til að láta kné fylgja kviði og gera alvöru úr hótunum í minn garð. Óli veit hinsvegar, rétt eins og ég, að hann hefur ekkert mál í höndunum þar sem eftirfarandi staðreyndir tala sínu máli:

a) Samkvæmt stofnun Menntaáætlunar Evrópusambandsins í Brussel, lúta Evrópuumsóknir ekki höfundavernd. 

b) Samkvæmt starfslýsingu minni hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, þar sem ég starfaði á árunum 2010-2014, var starfssvið mitt m.a. þróun og ritun Evrópuumsókna. Þegar ég hætti störfum hjá NMÍ, voru engin ákvæði í starfslokasamningi um að mér væri óheimilt að nýta eigin sérfræðiþekkingu á framtíðar vinnustöðum. Í því ljósi, telja lögfræðingar BHM að hér sé um að ræða “aðför að vinnurétti” af hálfu NMÍ og ÞÞ í minn garð.

c) Samkvæmt samstarfsaðilum mínum hjá hinum virta háskóla í Wales, University of Wales Trinity Saint David (UWTSD), eiga ásakanir Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Þekkingarnets Þingeyinga um hugverkastuld ekki við rök að styðjast þar sem Evrópuumsóknir lúta ekki höfundavernd. Að auki getur NMÍ ekki eignað sér verkefnishugmynd um sjálfbærni þar sem öll Evrópa er að hugsa á sömu nótum. Háskólinn í Wales, margverðlaunaður fyrir nýsköpunar-og frumkvöðlamennt, meðal annars af Elísabetu Englandsdrottningu, átti að gegna mikilvægu hlutverki máttarstólps í CRISTAL-verkefni ÞÞ, en samstarfsmenn mínir í UWTSD ákváðu að draga sig alfarið út úr verkefninu af stuðningi við mig, þegar þeim varð ljóst í hvað stefndi og mér ýtt út úr eigin verkefni af hálfu Óla og félaga.

d) Samkvæmt tölvupósti frá Berglindi Hallgrímsdóttur, framkvæmdastjóra á Nýsköpunarmiðstöð Íslands, til Ágústar Hjartar Ingþórssonar, forstöðumanns Landsskrifstofu Menntaáætlunar Evrópusambandsins þann 16. Október 2015, fór Berglind þess á leit við Ágúst Hjört að könnuð yrðu líkindi með svokallaðri IPA-umsókn Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands frá árinu 2012, sem ég var þátttakandi í að þróa og rita, og þeirri umsókn, sem ég þróaði og ritaði fyrir hönd Þekkingarnets Þingeyinga árið 2015. Í svari Ágústar til Berglindar sama dag segir: “Við erum búin að kíkja á þetta mál og mín niðurstaða er sú að við getum ekki metið hvort eða að hvaða marki einhver umsókn sem okkur berst er byggð á öðrum umsóknum eða fyrri umsóknum. Hver umsókn er metin á hverjum tíma á eigin forsendum og það sem við gerum er að ganga úr skugga um, eftir bestu getu, að ekki sé um tvífjármögnun að ræða. Hver sjóður og áætlun hefur sín eigin umsóknarform og sú umsókn, sem þú sendir mér (IPA-umsókn NMÍ) er fyrst og fremst um innlent samstarfsverkefni og talsvert umfangsmeira heldur en það evrópska samstarfsverkefni, sem við styrktum.” Ágúst Hjörtur benti Berglindi á, í sama tölvupósti, að hafa beint samband við ÞÞ, sem hún svo gerði, með þeim eftirmálum, sem hér hafa verið rakin, og krystallast í sameiginlegri aðför NMÍ og ÞÞ gagnvart mér.

e) Samkvæmt drögum að “sáttagjörð” milli undirritaðrar og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, sem NMÍ hafði alfarið frumkvæði að, viðurkennir ríkisstofnunin óásættanlega aðkomu ríkisstofnunarinnar að því verkefni, sem ég, sem sjálfstætt starfandi verktaki, vann fyrir aðra stofnun, Þekkingarnet Þingeyinga, og harmar þá aðför, sem mér var sýnd af hálfu NMÍ. Það sem sagt dró til tíðinda í þessu máli í janúarbyrjun 2018 þegar þáverandi mannauðsstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands boðaði mig á sáttafund fyrir hönd stofnunarinnar þann 16.01.2018, þar sem ég var í orði beðin afsökunnar á framgöngu NMÍ í þessu máli. Boðið var upp á “sáttagjörð”, sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands og lögfræðingar BHM, fyrir mína hönd, skyldu móta í sameiningu til að útkljá málin. Sáttagjörð þessi er hinsvegar enn óundirrituð þar sem ríkislögmaður lagðist gegn undirritun hennar. Tölvupóstar eru allir til sem sanna samskipti deiluaðila, en sáttagjörðin telur heilar fjórar greinar, sem eru eftirfarandi:

  1. Gr. Með samkomulagi þessu lýsir NMÍ því yfir að stofnunin dragi til baka að fullu og öllu leyti þær ásakanir, sem stofnunin og/eða einstakir starfsmenn hennar hafa borið á Jóhönnu um meintan hugverkastuld, höfundarréttarbrot eða annað athæfi af svipuðum toga vegna þeirra verkefna og starfa, sem Jóhanna hefur sinnt frá starfslokum hennar hjá NMÍ

  2. Gr. NMÍ skuldbindur sig til þess að hafa ekki í frammi neinar slíkar ásakanir, sem getið er um í 1. Gr. samkomulags þessa. Í því felst sömuleiðis að NMÍ skuldbindur sig til þess að rægja Jóhönnu ekki eða reyna með nokkrum hætti að koma í veg fyrir að Jóhanna geti sinnt Erasmus verkefnum eða öðrum verkefnum og störfum í framtíðinni. Skuldbinding þessi skal einnig ná til starfsmanna NMÍ og þeim starfsmönnum, sem hlut eiga að máli, formlega kynnt samkomulagið og hvað í því felst.

  3. Gr. NMÍ skuldbindur sig með samkomulagi þessu til þess að bæta Jóhönnu fjár- og miskatjón sem hún hefur orðið fyrir vegna missis verkefna og styrkja í tengslum við óréttmætar ásakanir í hennar garð, með greiðslu til Jóhönnu á kr. xxxxx. Greiðsla fjárhæðar þessarar fer fram samhliða undirritun samkomulags þessa.

  4. Gr. Rísi ágreiningur um túlkun samningsins eða efndir og ekki nást sættir milli aðila í þeim ágreiningi, skal hann borinn undir Héraðsdóm Reykjavíkur.

Í orðum get ég ekki lýst því hvaða áhrif allt þetta mál hefur haft á mig heilsufarslega, allt frá haustinu 2015, þegar Þekkingarnet Þingeyinga ákvað að trúa stjórnendum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í blindni og í kjölfarið að henda mér út úr eigin verkefni í samfélagi, sem mér þykir vænst um og dytti ekki í hug að koma fram við af óheilindum, eins og Óli vill vera láta. Sem betur fer eru til stofnanir, sem fagna mínu vinnuframlagi í Evrópu-verkefnum enda hefur mér, eftir uppistand Óla og félaga, farnast vel og fengið vel á annan tug metnaðarfullra Evrópu-verkefna samþykkt sem ég hef þróað og verkefnissstýrt fyrir hönd flottra fagaðila.

Með friðarkveðju,

Jóhanna Ingvarsdóttir

Sjálfstætt starfandi verkefnisstjóri Erasmus


 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744