Nýtt fjárhús tekið í notkun á HóliAlmennt - - Lestrar 875
Rétt fyrir jólin voru tekin í notkun ný fjárhús hjá Rúnari Tryggvasyni bónda á Hóli í Kelduhverfi. Bygging hússins hefur staðið yfir frá því í apríl. Húsið er þó ekki fullfrágengið en komið í notkun að hluta.
Það var Emar byggingavörur ehf sem flutti húsið inn frá Litháen. Húsið er sjálfberandi braggi þannig að ekkert sérstakt burðarvirki er í húsinu heldur eru bárurnar það stórar að þar myndast burðarvirkið.
Á fréttasíðu keldhverfunga segir að einangrun í húsinu er um 2 tommur af glerull og áldúkur á þeirri hlið sem snýr inn í húsið. Húsið er alls 800 m2 og tekur fullbúið rúmar 500 kindur, einnig er aðstaða í öðrum endanum sem er hugsuð sem aukarými á vorin en nýtist til að vinna með hross á öðrum árstímum.
Þriggja metra breið steypt stétt er í húsinu miðju og gjafagrindur á henni. Grindurnar eru færðar á ytri brún stéttarinnar meðan gefið er, síðan er rúllunum ekið inn á dráttarvél þangað sem þær eiga að vera og skornar þar. Rúnar segir það taka í kringum hálfa klukkustund að gefa 6 rúllur. Þegar allt verður komið í notkun verður hægt að gefa 12 rúllur í einu sem ætti að vera 5 daga gjöf.
Meðfylgjandi myndir tók Jón Þór Dagbjartsson í Garði í Kelduhverfi. Hann smíðaði gjafagrindurnar úr ryðfríu stáli og timbri í fjárhúsið. Jón Þór stofnaði fyrirtækið Riðfrýtt ehf. ásamt Ágústu konu sinni og smíðar ýmsa hluti úr riðfrýju stáli. Hægt að skoða heimasíðu fyrirtækisins hér