Ný samtök útgerðarmanna.Aðsent efni - - Lestrar 485
Enn á ný fá íbúar landsbyggðarinnar að kenna á hörmulegum afleiðingum kvótakerfisins. Nú eru það Flateyringar sem fá að bergja á þeim bitra kaleik sem borinn er á borð undir fölsku yfirskyni fiskverndar og hagræðis. Þeir fá ekki svo mikið sem að draga fisk á handfæri hvað þá meira sér og sínum til lífsviðurværis. Landsmenn eru beittir ólögmætri kúgun til þess að tryggja hagsmuni fárra útvaldra sem telja sig eiga fiskimiðin um ókomna tíð.
Alls engar líkur eru á því að fiskistofnum stafi hætta af svo takmörkuðum veiðum sem handfærin eru, en sjávarþorpunum stafar stórhætta af núverandi fyrirkomulagi. Undanfarna áratugi hafa íbúar landsbyggðarinnar búið við nagandi óvissu um framtíðina vegna þess að óvíst er hvað verður um atvinnurétt þeirra. Ekki er hugsað út í hvaða afleiðingar slíkt hefur á börn sem þar alast upp.
Því er haldið fram að kvótakerfið byggi upp fiskistofna og tryggi skynsamlega nýtingu. Við það er margt að athuga. Hvergi hefur tekist að byggja upp fiskistofn með kvótakerfi og því er óskynsamlegt að ætla að það takist hér við land. Og varla telst rökrétt að hrósa kerfinu fyrir hagkvæmni. Skuldir útgerðarinnar hafa hlaðist upp sem aldrei fyrr við núverandi aðstæður og eru komnar langt umfram greiðslugetu. Stórkostlegar afskriftir skulda eru óhjákvæmilegar. Misskipting og mannréttindabrot eru ekki þjóðhagslega hagkvæm þó svo að þau séu hagkvæm fyrir fámennan forréttindahóp.
Engar lögmætar ástæður eru fyrir þeirri kúgun og órétti sem landsmenn eru beittir. Krókaveiðar ógna ekki nokkrum fiskistofni og því fráleitt að takmarka slíkan veiðiskap.
Í burðarliðnum eru ný samtök útgerðarmanna. Helsta báráttumál þeirra verður að stjórnarskrárvarinn réttur landsmanna til atvinnufrelsis og jafnræðis verði virtur. Og að séu atvinnufrelsinu settar hömlur verði þær í samræmi við jafnræðisreglu stjórnarskrár og alþjóðlega mannréttindasáttmála. Við sættum okkur ekki lengur við núverandi ástand.
Viðtökurnar sem stofnun þessara samtaka fá eru vonum framar og erum við afar þakklátir fyrir það sem og það traust sem okkur er sýnt. Við finnum fyrir miklu þakklæti sérstaklega frá íbúum sjávarþorpa þar sem margir tala um að samtökin kveiki nýja von.
Þessi samtök verða í eðli sínu gjörólík þeim samtökum sem fyrir eru þar sem ekki er um sérhagsmunagæslu að ræða. Við ætlumst ekki til þess að fá eitthvað sem öðrum stendur ekki til boða. Við förum ekki fram á að geta selt öðrum aðgang að sameign þjóðarinnar. Við förum aðeins fram á að réttur okkar til að öflunar lífsviðurværis verði virtur. Þó að við ætlumst til þess að við fáum að stunda frjálsar handfæraveiðar erum við ekki að biðja um að handfæraveiðar verði “gefnar frjálsar” því við erum ekki að biðja um að fá neitt gefins. Við krefjumst þess að vinnufúsar hendur séu ekki bundnar með ólögmætri kúgun, að þjóðin sé ekki svipt auðlindum sínum til þess eins að hygla útvöldum.
Samtökin verða stofnuð formlega þann 20. nóvember og nú þegar eru á annað hundrað félagar búnir að skrá sig í samtökin. Heimasíða samtakanna er www.strandveidar.org þar sem hægt er að skrá sig í félagið.
Jón Gunnar Björgvinsson, einn forsvarsmanna nýrra samtaka útgerðarmanna.