Nei við þjóðkirkjuákvæðiAðsent efni - - Lestrar 915
Í kosningunum um nýja stjórnarskrá þann 20. október næstkomandi ætla ég að segja NEI við þjóðkirkjuákvæði í nýrri stjórnarskrá. Rök mín eru að nútíma lýðræðislegt samfélag sem vill byggja stjórnarskrá sína á mannréttindum eigi ekki að hafa ákvæði í þeirri sömu stjórnarskrá sem hefur að geyma ákvæði sem tiltekur ákveðna trúarskoðun sem hinna einu réttu. Ljóst er að núverandi starf kirkjunnar mun allavega ekki líða fyrir að vera ekki getið í stjórnarskrá.
Ég tel að langstærstur hluti landsmanna sé sammála um að hér sé veraldlegt samfélag. Slíkt samfélag á því að tryggja hagsmuni allra en ekki einstakra hópa eða hagsmunasamtaka. Að binda í stjórnarskrá tiltekna ríkistrú gengur því gegn almannahagsmunum. Slíkt ákvæði gengur einnig gegn trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Það er því verið að hunsa þau jafnræðissjónarmið sem við erum sammála að hér skuli ríkja. Við setningu laga, jafnt almennra laga sem annarra, skulu þingmenn gæta þess að þau séu fyrir alla.
Þegar skoðað er alheimskort þar sem gerð er grein fyrir löndum sem hafa ríkiskirkju er fróðlegt að sjá að í Evrópu eru þau afar fá. Ísland, Danmörk, England, Mónakó, Lichtenstein, Malta og Grikkland. Í Vatíkaninu ríkir trúræði. Síðan eru það Costa Rika, Kambódía og Tæland. Stærsti hópurinn er síðan lönd sem hafa íslam sem ríkistrú. Öll löndin sem brutust undan oki kommúnismans upp úr 1990 völdu að hafa ekki ríkistrú. Það eru því afar fá ríki í hinum vestræna heimi sem hafa slíkt fyrirkomulag. Það hafa því aðeins 35-40 ríki opinber ríkistrúarbrögð þar af aðeins tvö sem eru evangelísk-lútersk.
Ég hvet alla til að mæta á kjörstað og nýta stjórnarskrávarinn rétt sinn til að kjósa í lýðræðislegum kosningum. Það eru ekki allir jarðarbúar sem búa við slíkt fyrirkomulag. Segjum NEI við þjóðkirkjuákvæði.
Bjarni Jónsson
Framkvæmdastjóri