Mistök eru tækifæri til að læra - Jákvæður agi í BorgarhólsskólaAðsent efni - - Lestrar 784
Samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla eiga allir skólar að fylgja ákveðinni uppeldisstefnu. Eftir að hafa skoðað ýmsar stefnur var ákveðið að í starfi Borgarhólsskóla yrði lögð til grundvallar uppeldissefnan ,,Jákvæður agi“ (Positive discipline).
Nú eru tvö ár liðinn síðan starfsfólk skólans hélt í afdrifarík ferð til Bandaríkjanna til að kynna sér fræðin á bak uppeldissstefnuna. Þessi tvö ár hafa verið vel nýtt til að kafa dýpra í efnið og hefja innleiðingu. En hvað er jákvæður agi?
Stefnan byggir á svokallaðri “sjálfsstjórnarkenningu”, sem felur það í sér að horft er á orsakir hegðunar og það gildismat sem býr að baki þegar leitast er við að ná fram leiðréttingu, frekar en reyna að breyta hegðuninni með umbun og refsingu eins og lengi hefur tíðkast með ýmsum atferlismótunarkerfum sem hafa verið ráðandi í skólakerfinu um langan tíma.
Hugmyndafræðin “jákvæður agi” gengur út á að móta skólabrag sem einkennist af umhyggju og byggist á gagnkvæmri virðingu, reisn, vinsemd og festu.Við leitumst við að fá nemendur til að tileinka sér þrjú viðhorf; sjálfstraust ( ég get), að tilheyra ( ég tilheyri og mín er þörf) og áhrif ( ég hef áhrif á umhverfi mitt og líf) og fjórar tegundir af hæfni sem eru innsæi, samskipti, ábyrgð og dómgreind. Þessir hlutir eru m.a. kenndir og þjálfaðir markvisst á bekkjarfundum.
Of margir fullorðnir búast við að nemendur þrói með sér dómgreind án þess að þeir fái tækifæri til að æfa sig, gera mistök, læra og reyna aftur. Reglulegir bekkjarfundir gefa nemendum góðan tíma til þess. Bekkjarfundir eru grundvallaratriði í framkvæmd stefnunnar því að þar fá nemendur tækifæri til að æfa framangreind atriði í öruggu umhverfi.
Í framkvæmd bekkjarfundanna er m.a lögð áhersla á eftirfarandi:
- Við myndum hring
- Við veitum hrós og viðurkenningar
- Við vinnum skv. ákveðinni dagskrá
- Við þróum samskiptahæfnina með æfingum
- Við lærum um mismunandi skynjun / veruleika
- Við lærum um fjórar ástæður þess að fólk gerir það sem það gerir
- Við æfum hlutverkaleiki og hugstormun
- Við einbeitum okkur að lausnum án refsinga
- Að gefa nemendum ákveðna valkosti
- Að fela nemendum ákveðin verkefni eða ábyrgð í skólanum / kennslustofunni
- Þrautalausnir
- Eftirfylgni með virðingu og reisn
- Spyrja (ekki segja) "hvað", hvers vegna" og "hvernig"
- Leiðbeinandi spurningar
- Gera ekkert (augljósar afleiðingar)
- Ákveða hvað við gerum
- Segja NEI með virðingu og reisn
- Framkvæma meira - tala minna
- Setja alla í sama bátinn
- Jákvæð einvera nemenda
Stefnunni fylgja einnig fleiri atriði eins og að starfsmenn læri að skilja ástæður óæskilegrar hegðunar nemenda, að samskipti þeirra við nemendur séu hvetjandi, að byggt sé upp traust og gott samband milli heimila og skóla, að starfsmenn vinni saman í teymum og hjálpist að við að finna lausnir á vandamálum sem upp koma, og síðast en ekki síst gerir hugmyndafræðin ráð fyrir að kennarar tileinki sér fjölmargar hagnýtar aðferðir við bekkjarstjórnun.
Jákvæður agi er ekki bara aðferð fyrir skóla að nýta sér.
Jákvæður agi er fyrir alla jafnt börn sem fullorðna og getur nýst afar vel í öllum mannlegum samskiptum. Má nefna það til gamans að forseti Bandaríkjanna, Obama sjálfur segist nýta sér þessi fræði við uppeldið og í pólitískum samskiptum.
Áhugasamir geta nálgast frekari upplýsingar á heimasíðu skólans og t.d. á eftirfarandi vefslóðum:
http://www.posdis.org/
http://www.positivediscipline.com/
F.h. stýrihóps um Jákvæðan aga
Þórgunnur R. Vigfúsdóttir
Skólastjóri Borgarhólsskóla