Mér svíður óréttlætið í samfélaginu

Óréttlætið sem birtist í endurkomu útrásarvíkinganna með fé úr skattaskjólum. Skattaskjólsvíkingar fá nú afslátt hjá Seðlabankanum til að gleypa fyrirtæki

Mér svíður óréttlætið í samfélaginu
Aðsent efni - - Lestrar 764

Lilja Mósesdóttir.
Lilja Mósesdóttir.

Óréttlætið sem birtist í endurkomu útrásarvíkinganna með fé úr skattaskjólum. Skattaskjólsvíkingar fá nú afslátt hjá Seðlabankanum til að gleypa fyrirtæki sem búið er að skuldahreinsa á kostnað íslenskra skattgreiðenda.

Óréttlætið sem birtist í 400 milljarða eignatilfærslu frá heimilum með verðtryggðar skuldir til lífeyrissjóða sem töpuðu um 479 milljörðum í loftbólufjárfestingum.

Óréttlætið sem birtist í skuldaúrræðum sem fyrst og fremst hafa gagnast þeim tekjuháu sem skulduðu mest eftir hrun.

Óréttlæti sem felst í fullri innistæðutryggingu sem kostað hefur skattgreiðendur um 568 milljarða.  Á sama tíma  hefur almennri 20% leiðréttingu lána verið hafnað vegna þess að hún átti að kosta  285 milljarða.

Óréttlæti sem felst í því að þeir sem höfnuðu áhættu í faseignakaupum fyrir hrun sitja uppi með mestu skuldirnar.

Óréttlætið sem birtist í vaxandi kynbundnum launamun en hrunið átti að vera tækifæri kvenna til að jafna metin.

Bankahrunið bjó til væntingar um samfélag byggt á réttlæti og jöfnuði. Endurreisn óréttlætisins veldur því vonbrigðum.

Við eigum að bregðast við óréttlætinu með birtingu launaupplýsinga á netinu, sérstökum skatti á skattaskjólsundanskot, uppstokkun lífeyrissjóðskerfisins og  almennri leiðréttingu verðtryggðra lána.

Skattaskjólsundanskot verður að skattleggja þannig að skattgreiðendur fái  afslátt Seðlabankans og skatt af fjármagni sem skotið var undan fyrir hrun.

Það verður að aðskilja samtrygginguna frá ávöxtun viðbótarlífeyris í nýju lífeyriskerfi ef takast á að tryggja öllum lífeyri sem dugar til framfærslu.

Ríkisstjórnin dýpkaði kreppuna með of hröðum niðurskurði. Nú ætlar ríkisstjórnin að lengja efnahagsþrengingar almennings með því að bregðast ekki við þeirri staðreynd að við búum ekki lengur við bankakreppu heldur skuldakreppu heimilanna.

Lilja Mósesdóttir,
þingmaður og formaður framkvæmdarráðs
SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744