Menning í ReykjadalAðsent efni - - Lestrar 446
Leikdeild Eflingar í Reykjadal æfir nú af kappi nýjan, frumsaminn söngleik eftir þá Hörð Benónýsson og Jan Alavere. Leikstjóri er Arnór Benónýsson sem margoft hefur lyft Grettistaki í hlutverki leikstjórans eins og þeir þekkja sem séð hafa stórgóðar leiksýningar á Breiðumýri undanfarin ár. Leikhópinn skipa að mestu ungmenni úr Reykjadal og Laugaskóla auk nokkurra gamalkunnra leiksviðsrefa úr Þingeyjarsveit sem nú heitir svo.
Ég leit við á æfingu um daginn og varð margs vísari, en fyrst og fremst þess að í vændum er stórskemmtileg sýning á Breiðumýri, leiksýningin Ólafía.
Hörður Benónýsson er höfundur alls texta, en Jan Alavere semur tónlistina og stjórnar hljómsveit. Hörður hefur áður samið bráðskemmtilega einþáttunga og leikritið Landsmótið í samvinnu við Jóhannes Sigurjónsson ritstjóra og stílsnilling. Það leikrit var á sínum tíma valið það athygliverðasta meðal áhugaleikfélaga og sýnt í Þjóðleikhúsinu. Þessi nýi söngleikur gæti átt sömu framtíð fyrir sér, enda efnið bitastætt, textinn lipur og snjall og tónlistin stórskemmtileg eins og við var að búast þar sem Jan Alavere á í hlut. Hvort um rokksöngleik er að ræða, popp eða klassík verður hver að dæma fyrir sig, en víst er að tónlistin er fjölbreytt og flott.
Leikritið gerist á heimavist framhaldsskóla í þéttbýli og er í senn skemmtisaga og átakasaga þar sem glímt er við hversdagslífið, ástir, eiturlyf o.s.frv.. „Sjá nánar á Breiðumýri í febrúar og mars", en frumsýning er áætluð 13. febrúar. Ég hlakka til!
Steinþór Þráinsson.