Lítill rúntur um víðáttur Ástralíu - Annar hluti - Northern TerritoryFólk - - Lestrar 595
Fyrsti svefnstaður okkar í Northern Territory var á gatnamótunum þar sem farið er upp til Darwin höfuðborgar Norther Territory og suður til Alice Springs.
Er komið var í náttstað fundum við hvernig vindurinn blés af sléttunum og hversu heitur vindurinn var þrátt fyrir að hér sé miður vetur.
Þegar farið var af stað morguninn eftir þurfti að sjálfsögðu að setja eldsneyti á bílinn og þurfti að skilja eftir skilríki eða bíllyklana til að þess að fá kveikt á dælunum, eflaust hafa margir farið frá dælunum án þess að borga enda næsta lögreglustöð í þúsund kílómetra fjarlægð.
Í Devils Marbles.
Nú var komið að því að aka til suðurs til Alice Springs, en á leiðinni kíktum við á Devils Marbles sem eru gífurlega stórir kúlulaga steinar og þar sáum við líka í fyrsta sinn Dingo sem er villihundur, en höfum síðan séð marga.
Jónas eitursvalur í Devil Marbles.
Hilda tekur á því í Devils Marples.
Þegar komið var inn á hraðbrautina aftur lifnaði mikið yfir Jónasi þar sem hámarkshraði er 130 km. og eftir tveggja tíma akstur var komið á þann hluta hraðbrautarinnar þar sem engin hraðatakmörk eru og þá færðist stórt bros yfir Jónas, nú væri sko aldeilis hægt að spíta í. En brosið var fljótt að hverfa þegar Hilda gerði Jónasi grein fyrir því að hún væri ekki ánægð, og þetta væri nú kannski ekki alveg bíllinn til að vera stunda hraðakstur. Þar fór sú ánægja en áfram var ekið niður til Alice Springs.
Tjaldsvæði í Alice Springs.
Við gistum eina nótt í Alice Springs það sem vakti athygli okkar var að öll tjaldsvæði í Northern Territory eru girt af með háum girðingum og gaddavír. það er gert til þess að halda frumbyggjunum úti, en það er því miður mikil vandræði með áfengisneyslu hjá frumbyggjunum og til að mynda stendur lögregluþjónn fyrir utan hverja áfengisverslun til að koma í veg fyrir að þeir versli sér vín.
Tjaldstæði í Alice Springs.
Sunnudaginn 10. ágúst héldum við áfram til suðurs, ákveðið var að fara út af hraðbrautinni í átt að Uluru eða Ayers Rock og dvöldum við þar í þrjá daga.
Sólarupprás við Ayers Rock.
Sólsetur við Ayers Rock.
Jónas og Hilda með Ayers Rock í baksýn.
Við löbbuðum og skoðuðum Ayers Rock og svæðið þar í kring, fórum og sáum sólina koma upp og sólina setjast við þetta mikla ástralska kennileiti. Það var mikil upplifun að horfa á klettinn breyta stanslaust um lit og virkilega fallegt og sérstakt landslagið á þessum stað. Hér fór maður líka að sjá meira af villihundum eða Dingo, við komumst í návígi við einn Dingo á tjaldsvæðinu við Ayers Rock þar sem Jónasi fannst honum vera ógnað af hundkvikindinu og greip hann þá stóra steikarpönnu og hóf hana á loft og gerði atlögu að hundinum sem lagði á flótta hahaha.
Villihundur eða Dingo eisn og þeir eru kallaðir neðra.
Við hittum líka yndisleg hjón við Uluru, og vorum við orðin miklir mátar, kíktum yfir í drykk og spjall og karlinn var mikill húmoristi, virkilega skemmtileg hjón. En allir sem við höfum hitt á t jaldsvæðunum á þessu ferðalagi okkar hafa verið fínasta fólk og við höfum iðulega lent á spjalli við einhvern sem gerir ferðalgið bara skemmtilegra.
Í King Canyon.
Eftir þrjá dásamlega og afslappandi daga við Ayers Rock var ákveðið að kíkja til Kings Canyon, sem er "Grand Canyon" þeirra Ástrala haha ... (mynd nr 4-5) Við löbbuðum 7 km. hring um gljúfrið, í miklu roki en það var virkilega kaldur vindurinn þann daginn, en blessuð sólin skein :) við gistum eina nótt við Kings Canyon og kíktum meir að segja á barinn í einn drykk og hlustuðum á ekta ástralskan kántrý söngvara Já já...
14. ágúst var aftur haldið af stað út á hraðbraut eftir þennan 900 km. út úr dúr sem var farin til Ayers Rock og Kings Canyon. Nú var stefnan tekin á Opalnámubæinn Coober Peddy sem er í Suður Ástralíu. Um hádegisbilið var farið yfir landamærin til Suður Ástralíu eftir rúmlega 2200 km. akstur í gegnum Northern Territory. Segjum ykkur meira frá Suður Ástralíu í næsta pistli
Bestu kveðjur til ykkar allra frá litlu eyjunni í suðri.
Jónas og Hilda.