LH frumsýnir Sex í sveit í dagAlmennt - - Lestrar 213
Leikfélag Húsavíkur frumsýnir í dag leikritið Sex í sveit í leikstjórn Valgeirs Skagfjörð.
Um er að ræða vinsælan gamanleik sem fjallar um hjónakornin Benedikt og Þórunni sem skella sér í bústaðinn í Eyjafirði en hvort með sitt leyndarmálið í farteskinu.
Hann hugsar sér gott til glóðarinnar þegar hún hyggur á heimsókn til móður sinnar og býður því bæði viðhaldinu og vini sínum til veislu en allt í einu snýst eiginkonunni hugur og ákveður án fyrirvara að vera um kyrrt.
Þá hitnar hratt í kolunum og þegar veisluþjónustan bætist í hópinn ætlar beinlínis allt um koll að keyra. Hver bauð hverjum í mat og til hvers?
Hver er að halda við hvern og af hverju? Og hvað er veisluþjónustan í raun og veru að bjóða upp á?
Hjónakornin leika Benóný Valur Jakobsson og Kolbrún Ada Gunnarsdóttir.
Með önnur hlutverk fara Valgeir Sigurðsson, Friðrika Bóel, Bergdís Björk Jóhannsdóttir og Mikael Þorsteinsson.
Ljósmyndari 640.is leit við í Samkomuhúsinu í vikunni og hér gefur að líta nokkra myndir frá þeirri heimsókn.