Leikfélag Húsavíkur að eilífuAðsent efni - - Lestrar 517
Leikfélag Húsavíkur ætlar að fá Jón Stefán Kristjánsson til liðs við sig þetta leikárið. Hann ætlar sem sagt að koma aftur til LH, en hann kom fyrir nokkrum árum til Húsavíkur en þá náðist ekki að manna verk svo hann stoppaði stutt við.
Hann er leiklistarmenntaður og hefur starfað lengi við leiklist, ýmist sem leikari eða leikstjóri. Margir muna eftir Jóni Stefáni úr kvikmyndinni Englar alheimsins, en þar lék hann yfirþjóninn á Hótel Sögu.
Og verkið sem við ætlum að vinna með er Að eilífu eftir Árna Ibsen. Þetta er gamanleikrit sem sýnir svipmyndir úr brúðkaupi Guðrúnar Birnu Klörudóttur og Jóns Péturs Guðmundssonar, aðdraganda þess, undirbúningi og eftirköstum. Verkið fjallar sem sagt um brúðkaup, höfundurinn gerir góðlátlegt grín að okkur Íslendingum og hvernig við öpum allt eftir Ameríkönum þegar kemur að brúðkaupum. Í verkinu er fjöldinn allur af skemmtilegum persónum, foreldrar brúðhjónanna, vinir þeirra, gamlar frænkur og frændur mæta í brúðkaupið og það er þannig að flestir kannast við einhverja persónuna úr sinni fjölskyldu!!!
Æfingar hefjast 29. október og þá verður æft stíft í mánuð, jólafrí verður í desember. Jón Stefán kemur svo aftur í janúar, þráðurinn verður tekinn upp frá nóvembermánuði og frumsýnt í lok janúar.
Leikfélag Húsavíkur er opinn félagsskapur fyrir alla bæjarbúa og nærsveitamenn, því vil ég benda áhugasömum að fylgjast með þegar fyrsti samlestur verður auglýstur.
Halla Rún Tryggvadóttir