Leifur Þorkelsson: Við bjánalegum tillögum vakna, eðli málsins samkvæmt bjánalegar spurningarAðsent efni - - Lestrar 1359
Sendi eftirfarandi bréf til Fjármálaráðherra fyrr í morgun:
Sæll Steingrímur minn.
Ég verð að biðja þig um að lesa þessar línur með það í huga að þær eru skrifaðar af manni sem á ættir sínar að rekja norður í Þingeyjarsýslur en nýlega voru íbúum þar færð þau tíðindi að ríkisstjórnin hefði ákveðið að flokka þá í ruslflokk. Ég er semsagt afgangstærð. Er kjáni.
Þrátt fyrir ofangreinda fötlun mína get ég samt gert ýmislegt, þekki alla tölustafina og fjölmarga bókstafi. Má meira að segja keyra lyftara og hef ég pappíra uppá það. Síðan hef ég líka kosningarétt en þú manst það alveg, fékk einmitt voða sætt bréf frá þér fyrir síðustu kosningar. Ætla ekki að hafa þennan inngang mikið lengri, mig langar bara að biðja þig um að svara fáeinum spurningum sem hafa vaknað í kjölfar umræðu síðustu daga en þær eru eftirfarandi :
1. Finnst þér það ekki skrítið að á meðan áætlanir þínar gera ráð fyrir að fjárframlög til Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga verði skert um rúmlega 40% á milli ára, skuli sömu áætlanir gera ráð fyrir því að framlög til skógræktar skerðist bara um tæp 9%? Finnst þér kannski vanta fleiri hálfdauðar lerkihríslur í íslenskan berjamó?
2. Finnst þér það ekki skrítið að á meðan áætlanir þínar gera ráð fyrir að fjárframlög til Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga verði skert um rúmlega 40% á milli ára, skuli sömu áætlanir gera ráð fyrir því að framlög til sinfóníuhljómsveitar Íslands verði aukin um rúm 9%? Ég á tvær ömmur á Húsavík, þær eru báðar á níræðisaldri. Önnur vann fyrir sér sem fiskvinnslukona, hin var barnakennari. Telur þú að þær beri á einhvern hátt meiri ábyrgð á hruni bankanna og ástandinu í þjóðfélaginu en fagottleikarinn í sinfóníuhljómsveitinni?
3. Finnst þér það ekki skrítið að á meðan áætlanir þínar gera ráð fyrir að fjárframlög til Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga verði skert um rúmlega 40% á milli ára, skuli sömu áætlanir gera ráð fyrir því að framlög í launasjóði listamanna hækki um 9%?
4. Er bygging og rekstur menningarhússins Hofs á Akureyri mikilvægur þáttur í því að íslenskt efnahagslíf rétti úr kútnum?
5. Hvað kosta gluggarnir sem danski gæinn hannaði utan um tónlistarhúsið við Reykjavíkurhöfn? Eigum við alveg aura fyrir þeim?
6. Fjárlög næsta árs að viðbættum fjárlögum síðustu tveggja ára gera ráð fyrir því að veitt verði 225 milljónum króna til bókakaupstefnu í Frankfurt á næsta ári. Telur þú að þeim fjármunum hefði kannski verið betur varið í eitthvað annað? Í framhaldi af tali um eitthvað annað. Hver var sú stofnun sem þú bentir Þingeyingum á að væri „grunnstoðin“ í samfélaginu það sem þyrfti að vera til staðar svo allt annað gæti þrifist, í grein þinni í Skarpi þann 9. febrúar árið 2007?
Kveðja
Leifur Þorkelsson, Þingeyingur