Kristján Ţór varđi doktorsritgerđ sína viđ HÍ í dagAlmennt - - Lestrar 491
Í dag fór fram doktorsvörn við Íþrótta- tómastunda- og þroskaþjálfadeild Háskóla Íslands. Þar varði Húsvíkingurinn Kristján Þór Magnússon, lýðheilsufræðingur, doktorsritgerð sína þar sem fjallað er um hreyfingu og þrek sjö og níu ára gamalla barna á Íslandi. Þetta er fyrsta doktorsvörnin í íþrótta- og heilsufræði við íslenskan háskóla.
Í fréttatilkynningu segir að faraldsfræðilegar rannsóknir hafi sýnt að þróun ofþyngdar, offitu og hreyfingarleysis meðal barna og unglinga undanfarna tvo áratugi hefur almennt verið neikvæð og Ísland sé þar engin undantekning.
Doktorsritgerðin byggir á niðurstöðum tveggja rannsóknaverkefna sem unnin voru árin 2003-2004 og 2006-2008 í 24 grunnskólum á landinu.
Meginniðurstöður rannsóknar 1 sýndu samkvæmt mælingum hröðunarmæla að einungis lágt hlutfall níu ára barna uppfylltu ráðleggingar um daglega hreyfingu af miðlungs og mikilli ákefð árið 2003, þar sem stúlkur hreyfðu sig almennt séð minna en drengir. Slakara þrek þátttakenda tengdist aukinni fitusöfnun undir húð, því að vera stúlka frekar en drengur, að búa í Reykjavík frekar en í þéttbýli eða dreifbýli á Norðausturlandi, og reykingum og lægri tekjum föður.
Aukin fitusöfnun undir húð þátttakenda hafði tengsl við hærri BMI gildi foreldra, reykinga móður sem og lítillar hreyfingar móður og þátttakendanna sjálfra.
Meginniðurstöður doktorsritgerðarinnar voru þær að þótt aðgerðir sem gripið var til yfir tveggja ára íhlutunartímabil innan þriggja reykvískra skóla hafi skilað aukinni hreyfingu meðal barna á skólatíma, þá hafði slík íhlutun lítil eða engin áhrif á hreyfingu barna utan skólatíma, þrek þeirra eða holdafar.
Einnig var hreyfing og þrek 9 ára reykvískra barna minna árið 2008 samanborið við 2003.