Konan í svarta húsinu

Konan í Svarta húsinu kom út þann 11.11.2011.

Konan í svarta húsinu
Aðsent efni - - Lestrar 690

Konan í Svarta húsinu er ný bók eftir Helgu Lunu. Bókin inniheldur ljóðrænan texta sem höfundur kýs að kalla „sögubögur“. Þær duna í blóðinu, syngja í hjartanu og brenna á tungunni löngu eftir að lestrinum er lokið, skrifar Elísabet Jökulsdóttir rithöfundur m.a. á baksíðu bókarinnar. Sögubögurnar geta staðið einar sér, líkt og ljóð, en tengjast einnig hverri annarri líkt og um sögu væri að ræða.

Í Sögubögunum er rakin saga konunnar í Svarta húsinu, fyrst sem hnátu, þá sem stúlku og loks sem gyðju. Fylgst er með henni í birtu velgengninnar, í dimmu þunglyndis og að lokum í upprisunni og þá sem Högnu í hellinum. Bókin og sögubögurnar eru kryddaðar með myndbrotum af málverkum Helgu Lunu.

Helga Luna fæddist á Ólafsfirði, í stórhríð í júni árið 1959 og er nú búsett í Óðinsvéum í Danmörku. Hún er menntuð sem leikskólakennari, nuddari og jógakennari og hefur tekið þátt í óteljandi námskeiðum í myndlist, þæfingu, keramik, skartgripagerð, leðurvinnu, magadansi, bardagaíþróttum, handalestri og allskonar kukli.

„Þetta byrjaði allt saman með dúkkulísunum,“ segir Helga. „Ég teiknaði á þær föt, sagði sögur og seinna fór ég að sauma á barbiedúkkur. Svo urðu til kjólar og mussur úr netadræsum sem ég hirti upp af hafnarbakkanum og prjónaði ullarsokka, sinn af hvoru tagi, með undarlegum munstrum í óteljandi skærum litum. Svo kom leðurhönnunin, málverkin og nú Konan í Svarta húsinu.“

Konan í Svartahúsinu er gefin út af Nornagarði í Óðinsvéum. Til að byrja med verður hægt er að kaupa bókina á eftirtöldum stöðum. Hjá útgefanda www.nornagardur.dk, Ebay og http://www.facebook.com/Konan.i.Svarta.Husinu

 Þormar Þorkelsson.

(Fréttatilkynning)


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744