KEA selur eignarhlut í fjárfestingasjóðnum Tækifæri hf.

KEA hefur tekið tilboði hóps fjárfesta í ríflega 67% eignarhlut í fjárfestingasjóðnum Tækifæri hf. en KEA á tæplega 73% eignarhlut í félaginu.

Tækifæri á 35% hlut í Sjóböðunum.
Tækifæri á 35% hlut í Sjóböðunum.

KEA hefur tekið tilboði hóps fjárfesta í ríflega 67% eignarhlut í fjárfestinga-sjóðnum Tækifæri hf. en KEA á tæplega 73% eignarhlut í félaginu. 

Frá þessu greinir á heimasíðu KEA en stærstu eignir Tækifæris hf. eru 44% eignarhlutur í Jarðböðunum í Mývatnssveit og  35% hlutur í Sjóböðunum á Húsavík. 

Viðskiptin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Gera má ráð fyrir breytingum á starfsemi Tækifæris hf. ef viðskiptin ganga í gegn en KEA hefur um nokkurt skeið verið lang stærsti hluthafi félagsins sem hefur allt frá árinu 1998 einbeitt sér að fjárfestingum í nýsköpunarverkefnum á Norðurlandi.

Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA segir aðkomu KEA að nýsköpunarverkefnum á félagssvæði sínu fjarri því lokið með þessari sölu og muni í kjölfar viðskiptanna fara fram eftir öðrum leiðum heldur en áður þar sem tilgangi Tækifæris verður breytt í kjölfar viðskiptanna.  „Hver veit nema að þetta leiði fram frekari og ný tækifæri en það mun allt koma í ljós síðar.  Við fengum boð í þennan eignarhlut sem við töldum okkur ekki geta hafnað.  Tækifæri hf. er sjóður sem er að fullu fjárfestur og hefur á liðnum árum m.a. komið að uppbyggingu baðstaða með árangursríkum hætti og er henni í reynd lokið enda þau verkefni orðin að þroskuðum fyrirtækjum og starfsemi þeirra þess eðlis að þau halda umsvifum sínum óháð eignarhaldi“ segir Halldór.

Steingrímur Birgisson framkvæmdastjóri Hölds á Akureyri fer fyrir hópi fjárfesta sem standa að kaupunum en auk Hölds munu Íslenskar heilsulindir og Kjálkanes koma inn í hluthafahóp Tækifæris.  „Gangi kaupin í gegn munum við breyta tilgangi og starfsemi Tækifæris á þann hátt að það verði eignarhaldsfélag um eignarhluti í Jarðböðunum og Sjóböðunum“ segir Steingrímur.  „Ég hef setið í stjórn Jarðbaðanna og þekki vel til starfseminnar.   Það hefur blundað í mér að ef tækifæri gæfist á aukinni aðkomu Hölds að þessum rekstri þá væri það gaman.  Þarna er frábært starfsfólk að vinna góða vinnu og ég tel að með örlítið breyttum áherslum sé hægt að gera enn betur.  Núna gafst tækifærið og með sterka aðila með Höldi í kaupendahópnum sem eru Íslenskar heilsulindir og Kjálkanes er ég viss um að við getum nýtt enn betur þau tækifæri sem fyrir okkur liggja í ferðamennsku á svæðinu.“   

Meðal annarra hluthafa sem áfram verða í hluthafahópi Tækifæris hf. eru Stapi lífeyrissjóður og Íslensk verðbréf.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744