Jónsvika – vinnuvika listamanna í Kaldbak, HúsavíkAðsent efni - - Lestrar 846
Dagana 11. - 16. júní, stóð Framkvæmdafélag listamanna, FRAFL, að vinnuviku listamanna í Kaldbak, Húsavík. Verkefnið var unnið í samstarfi við Kaldbakskot – Cottages Guesthouses, Norðurþing og Úti á Túni Menningarhús.
Um 30 umsóknir bárust skipuleggjendum alls staðar frá, og var leitast við að velja einstaklinga sem höfðu listræna reynslu og menntun innan myndlistar og einnig var reynt að haga vali eftir fjölbreytileika miðla og ólíks bakgrunns.
Sjö myndlistarmenn urðu fyrir valinu; 2 frá Akureyri, 1 frá Noregi en hinir komu frá Reykjavík. Dvöldu þeir saman yfir vikuna í gamla Kaldbak og unnu að einstaklingsverkum með innblæstri frá umhverfinu, náttúrunni og fólkinu.
Hver morgun hófst með með stuttum æfingum sem mynduðu ákveðið veganesti inn í daginn. Heimamenn miðluðu reynslu sinni í formi Kundalini yoga í boði Huldar Hafliðadóttur, umræðum um skapandi framtíð Húsavíkur, kennslu myndmenntar á barnaskólastigi, kynningu á menningu og listum á Húsavík í boði Röðuls Reys Kárasonar, Martin Varga og Arnþrúðar Dagsdóttur, hvalaskoðun, safnaheimsóknum og innsýn inn í starfsemi ýmissa fyrirtækja; svo sem trésmíðaverkstæðis, stálsmíðaverkstræðis, sorpbrennslu, netagerðar og laserskurðarvélar, svo eitthvað sé nefnt.
Listamenn og skipuleggjendur hátíðarinnar unnu náið með heimamönnum og var leitast við að veita innblástur inn í skapandi geirann á Húsavík, en margir listamenn frá Húsavík lögðu verkefninu lið, og má þar nefna Kidda Halldórs, hljóð- og tónlistarmann, Baldur Kristjánsson, myndlistarmann, Heiðar Kristjánsson og Bjarna Þór Óskarsson, ljósmyndara, Arnhildi Pálmadóttur, hönnuð, Rafnar Orra, kvikmyndatökumann, Erlend Tómas Hallgrímsson, eldspúara, og alla þá fjölmörgu tónlistarmenn sem spiluðu á laugardagskvöldið.
Fjölmörg fyrirtæki á Húsavík lögðu verkefninu lið og má þar helst nefna Grím, Norðurvík, Sorpbrennslu Húsavíkur, Húsasmiðjuna, Gamla Bauk, Sölku veitingarhús, Ísnet, Viðbót, Skarp, Örkina prentstofu, Ljósmyndastofa Péturs, Norðursigling – North Sailing Húsavík, Hveravellir, Norðlenska, Heimabakarí, Samkaup, Kaskó og Silungseldið í Haukamýri.
Þannig miðluðu heimamenn reynslu sinni, hlýlegum móttökum og gestrisni til hópsins og veittu hópnum nýja sýn og framlag til listsköpunar.
Afrakstur vinnuvikunnar var svo sýndur í Kaldbak, bóndabýlu rétt fyrir utan Húsavík, á laugardeginum 16. júní, eða nánar tiltekið í súrheysturni, úti á hlaði, í gamla hesthúsinu, í hlöðunni, í haughúsinu, í mykjuhúsinu og í garðinum. Fjölmargir sóttu vinnuvikuna og var útkoman afar áhugaverð og skemmtileg.
Árni Már Erlingsson setti saman og gaf út bókverk tileinkað afa sínum, húsvikingnum Árna Sigurbjarnarsyni. Bókverkið hafði að geyma ögrandi og skemmtilegar ljósmyndir, samsettar og settar fram á áhugaverðan hátt umvafðar umhverfinu í kringum Kaldbak og Húsavík og náttúfegurðinni þar, tengdum boðskap um náttúru og þeirri list sem er að finna alls staðar í kringum okkur og í öllu lífinu.
Björk Viggósdóttir tók okkur í dásamlega hringferð. Vídeóverkum, annars vegar úr bát, með sýn á árarnar, og hins vegar úr flugvél, með sýn á flugvélarhreyfil, varpaði Björk inn í kringlóttan súrheysturninn og þar gleymdi maður sér inn á milli þessara tveggja mismunandi ferðamáta, í hringiðu lífsins. Hljóðverkið sem ómaði um súrheysturninn undirstrikaði enn fremur skilin (eða jafnvel tenginguna?) milli þessara tveggja nútíma og fortíðarferðamáta.
Camilla Renate Nicolaisen notaði skógarrjóðrið í kringum Kaldbak við innsetningu af plast- og gervitrjám. Gervitréin mynduðu sinn eigin "skóg" í garðinum - í harðri samkeppni við öll "alvöru" tréin. Skógurinn í kring mótmælti þó hástöfum og hafði safnað saman "röddum" sínum í leiðslu sem leiddi úr skóginum og inn í gerviskóginn og barst út um "gjallarhorn" þar. Varð þá klárlega ljós munurinn á milli þess lifandi og þess dauða - hljóð og raddir lífríkisins á móti þögn þess líflausa.
Dóra Hrund Gísladóttir bauð okkur velkomin á Hljóðasafn Húsavíkur. Safnið opnaði hún í súrheysturninum. Á safninu var að finna ýmis áhugaverð hljóð, en gestir gátu "blaðað" í gegnum safnaskránna og notið þeirra hljóða sem þeir vildu og fundu þar. Hljóð sem voru til hlustunar í hljóðasafninu voru til dæmis: Skrúðgarðurinn, Kaskó, Prentstofan Örk, Húsavíkurkirkja, Húsavíkurhöfn, hestagerðin og Sundlaugin, svo e-ð sé nefnt. Var afar skemmtilegt og áhugavert að heyra hljóðin tekin úr sínu rétta umhverfi og njóta sín fyllilega í sérstöku og afmörkuðu "safna"rými.
Hertha María Richardt Úlfarsdóttir kom okkur til umhugsunar um hvað kveikir í okkur. Í rými Herthu réð rómantíkin ríkjum, en kertaljós og kósí sófi buðu gesti velkomna. Þegar betur var að gáð stóð letrað á sófann: "What turns you on?" Við fætur gesta var að finna ljósrofa og þegar kveikt var á honum komu í ljós ritverk í ramma, öllum safnað frá bókum úr nytjamarkaði Húsvíkur. Öll ritverkin voru frá fyrrum tímum og höfðu að geyma kynferðislegar eða ögrandi lýsingar, sem í sumum tilfellum höfðu að geyma úreltar og sérkennilegar hugmyndir um kynlíf og aðdráttarafl og hlutverk kynjanna - "Does this turn you on?"
Mekkín Ragnarsdóttir sýndi verk sitt í gamla hetshúsinu. Verk hennar minnti okkur á saklausi og trú barnæskunnar, en verkið var einmitt innblásið af Dalíu og Ísari Sylgju- og Pálmabörnum (frá Kaldbak). Þrjú sporöskjulaga verk voru skorin, máluð og yfirlökkuð á spónaplötur - Jesús, kross fyrir miðju og barn. Verkin voru hengd upp á ógreinilegan kross - vegg byggðan úr vörubrettum. Barnaraddir umluku svo rýmið með lýsingum á trúnni og jesú og barnalegri trú á góðmennsku heimsins.
Þorleifur Gunnar Gíslason sýndi ljósmyndir í haughúsinu. Ljósmyndirnar tók hann í kringum Kaldbak í kvöld og næturbirtunni. Ekki var um neinar hefðbundnar landslagsljósmyndir að ræða, heldur samþættingu margra ljósmynda af sama rammanum með hvíta mannveru á leið sinni yfir náttúruna - skref fyrir skref. Mannveran minnti okkur á stöðu okkar og leið í gegnum lífið og hversu lítil og ósýnileg við erum- mannfólkið- innan um hina kynngimögnuðu og villtu íslensku náttúru.
Eftir kvöldmat á laugardeginum tóku síðan við tónleikar í Skógarkoti, nýja íbúðarhúsinu í Kaldbak. Fram komu: Cheek Mountain Thief, Grúska Babúska, Þórir Georg, Friðrik Marinó Ragnarsson, Lára Sóley Jóhannesdóttir fiðluleikari, Axel Flóvent og Einar Indra. Öll tónlistaratriðin áttu það sameiginlegt að flestir meðlimir, og ef ekki allir, voru tengdir Húsavík eða frá Húsavík eða búsettir þar.
Fjölmenni sótti listasýninguna og tónleikana og þrátt fyrir ferkar kalt veður var andinn yfir gestum og greinilegt að heimamenn kunnu að meta þau tækifæri og þá skemmtun og innlifun sem Jónsvika færir og hið sama má segja um þáttakendur Jónsviku.
Takk kærlega fyrir okkur og fyrir komuna,
Harpa Fönn Sigurjónsdóttir,
einn skipuleggjandi Jónsviku
FRAFL
Meðfylgjandi myndir af listaverkunum tók Bjarni Þór Björgvinsson.