Jakobsvegurinn - FerðasagaFólk - - Lestrar 3243
Á haustdögum létu vinkonurnar Elín K. Sigurðardóttir og Guðrún Kristín Svavarsdóttir draum sinn rætast og hjóluðu Jakobsveginn á norður Spáni.
Þær ætla að segja lesendum 640.is ferðasöguna í máli og myndum og mun hún birtast í nokkrum hlutum á næstu vikum.
Hér kemur sá fyrsti og er það Elín sem skrifar:
Jakobsvegurinn, eða vegur heilags Jakobs, er ein þekktasta pílagrímaleið í Evrópu og heitir á spænsku „El camino de Santiago“. Jakobsvegurinn endar í dómkirkjunni í Santiago de Compostela sem er borg í Galíseu héraði á norðvestur Spáni, en hefst þar sem pílagrímurinn leggur af stað. Jakobsvegurinn hefur verið farbraut manna í meira en þúsund ár og var ein megin pílagrímaleið kristinna manna á miðöldum, ferð um Jakobsveginn var ein af þremur slíkum sem veittu syndaaflausn samkvæmt kaþólsku kirkjunni, hinar tvær voru pílagrímaganga til Rómar og Jerúsalem.
Síðustu áratugina hafa tugir þúsunda pílagríma og annara ferðamanna lagt upp í ferð til Santiago de Compostela, og ganga menn þessa leið nú af fjölmörgum ástæðum öðrum en trúarlegum, menningarlegum og auðvitað af almennri ferðaþrá.
Algengast er að byrjað sé í franska þorpinu St. Jean Pied de Port austan við Pýrenafjöllin eða í Roncesvallas sem er Spánarmegin við fjöllin.
Það sem kveikti áhuga okkar á þessari leið var mynd sem sýnd var í sjónvarpinu fyrir nokkrum árum um Thor Vilhjálmsson, er hann gekk þessa leið.
Þegar ég fór að leita mér upplýsinga sá ég að þetta voru tæpir 800 kílómetrar og myndi það vera um 5 vikna gönguferð, og sá ég nú ekki fram á að hafa tíma til þess alveg á næstunni. En í leit minni á vefnum sá ég að líka væri hægt að hjóla leiðina á um hálfum mánuði og það leist mér strax betur á.
Það var svo fyrir um tveimur árum að ég var komin með ferðafélaga og ákváðum við Guðrún Kristín að haustið 2013 væri tíminn og auðvitað var komið að þessu áður en við vissum af.
Við skipulögðum ferðina sjálfar og algjörlega eftir okkar höfði og leituðum okkur allra upplýsinga á netinu, og nóg er til af þeim ef maður „ googlar“ Camino de Santiago. Þá las ég bókina Á Jakobsvegi eftir Jón Björnsson sem hefur að geyma mikinn sögulegan fróðleik um Jakobsveginn.
Í þorpinu St. Jean Pied de Port Frakklandsmegin landamæranna.
Við ákváðum að byrja í St. Jean Pied de Port í Frakklandi og leigja okkur hjól í ferðina, Það var svo aðfaranótt 10. sept sem við lögðum af stað og byrjuðum á að fljúga til Parísar og þaðan áfram til Biarritz sem er borg í suðvestur Frakklandi. Þegar þangað var komið ætluðum við að taka lest upp í þorpið þar sem við ætluðum að byrja. En þá vildi nú ekki betur til en að lestarstarfsmenn voru í verkfalli og engar lestarsamgöngur í gangi, en við vorum nú ekki lengi að redda því, hittum gamlan þjóverja hann Ernst sem var á sömu leið og deildi hann með okkur taxa til St. Jean Pied de Port.
Við vorum búnar að panta okkur gistinu á hosteli og þar biðu hjólin eftir okkur klár með töskum, hjálmum, viðgerðarsetti og vatnsbrúsa, frábær hjól og fyrirtaks þjónusta hjá Bikeiberia.com.
Fallegt í St. Jean Pied de port.
St. Jean Pied de Port er virkilega fallegur bær þar sem allt snýst um að þjónusta pílagríma sem eru að leggja af stað á Jakobsveginn, við fórum á þar til gerða skrifstofu til að útvega okkur vegabréf sem við þurfum að framvísa til að fá gistinu í Albergium (gistiheimili fyrir pílagríma) á leiðinni, þar sögðu þau okkur að 90% þeirra sem fara Jakobsveginn fari gangandi en 10% hjólandi.
Á pílagrímaskrifstofunni í St. Jean Pied de Port þar sem við fengum vegabréfin og ýmsar gagnlegar upplýsingar í upphafi ferðar.
Á gistiheimilinu í St.Jean Pied de Port þar sem við gistum fyrstu nóttina, en það var eina nóttin sem við pöntuðum fyrirfram.
Fórum í búðina og versluðum i kvöldmatinn, sem reyndar dugði líka í nesti fyrsta hjóladaginn.
Hörpuskelin er tákn Jakobsvegarins, og versluðum við okkur hana í upphafi ferðar og borðuðum fyrsta kvöldið.
Eftir ljómandi nótt á gistiheimilinu vorum við klárar að leggja af stað um hálf níu um morguninn, en við vissum að þetta yrði strembinn dagur. Fyrstu 8 kílómetrarnir gengu alveg ljómandi, en allt uppávið þó, og svo urðu brekkurnar bara lengri og brattari þegar á morguninn leið en upp á háskarðið komumst við um tvö leitið, vel sveittar og gríðarlega ánægðar með okkur. Svo tóku að sjálfsögðu við brekkur niður á við til Roncesvallas, en þar er klaustur sem stofnað var 1127 og er það eitt elsta og frægsta sæluhúsið á Jakobsveginum. Við stoppuðum það góða stund og skoðuðum Maríukirkjuna og fengum stimpil í vegabréfið okkar, en héldum svo áfram og enduðum daginn í Zubiri, og höfðum þá lagt að baki 55 km. þar fengum við gistingu í skemmu við hliðina á albreginu sem orðið var fullt, sváfum þar á dýnum með c.a 30 manns í hljómmiklum hrotukór þar sem hátt var til lofts í skemmunni. En við vorum með eyrnatappa sem komu sér vel og áttu eftir að reynast okkur virkilega vel í ferðinni.
í Valcarlosdalnum er víða fallegt.
Eitt af mörgum hvíldarstoppum fyrsta daginn en fyrstu 20 km. voru allir uppá við aðeins mismunandi langar og brattar brekkur.
Gistiaðstaðan í Zubiri.
741 km. eftir til Santiago de Compstela………..
Með því að smella á myndirnar er hægt að fletta þeim og skoða í stærri upplausn.
Jakobsvegurinn-Ferðasaga annar kafli
Jakobsvegurinn-Ferðasaga þriðji kafli
Jakobsvegurinn-Ferðasaga lokakafli