Hvernig samfélagi vilt þú búa í ?

Gott samfélag byggir á virðingu fyrir  náunganum og að allir fái tækifæri til að blómstra á sínum forsendum. Til þess að byggja slíkt samfélag er

Hvernig samfélagi vilt þú búa í ?
Aðsent efni - - Lestrar 383

Gott samfélag byggir á virðingu fyrir  náunganum og að allir fái tækifæri til að blómstra á sínum forsendum. Til þess að byggja slíkt samfélag er mikilvægt að það búi yfir öflugri grunnþjónustu sem eflir getu fólks til að búa við sjálfstæði á mannsæmandi hátt. D-listinn leggur áherslu á að standa vörð um slíka þjónustu í öllum byggðarlögum sveitarfélagsins en tryggja um leið hagkvæman rekstur stofnana svo sveitarfélagið geti staðið undir öflugri grundvallarþjónustu. Hlutverk félagsþjónustu sveitarfélaga er einmitt að  stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar og tryggja félagslegt og fjárhagslegt öryggi.

Öflug félagsþjónusta:

Öflug félagsþjónusta hefur verið rekin á Húsavík um áratugaskeið og á síðasta kjörtímabili tók Norðurþing yfir starfsemi félags- og skólaþjónustu Þingeyinga sem áður var rekin undir hatti Héraðsnefndar. Sú aðgerð var nauðsynlegt skref til þess að ná tökum á rekstri starfseminnar. Auk fólst mikil hagræðing í því að leggja niður daglega starfsemi Héraðsnefndar. D-listinn vill áfram reka félags og skólaþjónustu og sjá nágranna sveitarfélögunum fyrir þeirri þjónustu á hagkvæman máta. Nýleg athugun á starfseminni sýnir að kostnaðarlega stenst þjónustan vel samanburð við önnur sambærileg sveitarfélög eins og Skagafjörð og Fljótsdalshérað. Við íbúar og notendur þjónustunnar verðum svo að meta gæðin af reynslunni.

 

Viljum vera leiðandi sveitarfélag:

 

Um nokkurt skeið hefur staðið til að flytja málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Félagsþjónusta Norðurþings hefur haft þjónustusamning við ríkið um málefni fatlaðra meira en áratug og hefur það gefið góða raun. Nú þegar málefni fatlaðra verða flutt yfir til sveitarfélaga leggur D-listinn áherslu á að sveitarfélagið Norðurþing verði áfram leiðandi sveitarfélag í þjónustu við fatlaða í Þingeyjarsýslum. Með þessu tryggjum við forræði yfir þjónustunni í heimabyggð sem og þau störf sem henni fylgja. Önnur brýn málefni sem við viljum leggja áherslu á er að tryggja geðfötluðum viðunandi húsnæðiskost með því að byggja þjónustuíbúðir í samvinnu við ríkið.

 

Forvarnarstarf skiptir miklu:

Flestir geta verið sammála um að erfitt er að byrgja brunninn eftir að barnið hefur dottið ofan í hann. Forvarnarstarf er oft vanmetið þar sem erfitt getur verið að sýna fram á bein tengsl á milli aðgerða og árangurs, en óhætt er að segja að slíkt starf margborgar sig. D-listinn vill efla forvarnarstarf með fræðslu til foreldra og samvinnu við ungt fólk og einnig með því að byggja upp varanlega aðstöðu í Túni til félagsstarfs og listsköpunar. Áframhaldandi starfsemi Setursins og Miðjunnar er einnig hluti af forvarnarstarfi þar sem hún stuðlar að eflingu mismunandi einstaklinga og kemur í veg fyrir félagslega einangrun.

Fjárhagslegt öryggi:

Að búa við fjárhagslegt öryggi er í raun réttur hvers og eins. Í ljósi efnahagsástands vill D-listin tryggja velferð íbúa sem lenda í hremmingum vegna atvinnumissis eða af öðrum ástæðum sem rekja má til efnahagshrunsins og efla úrræði fyrir atvinnuleitendur og styðja starfsemi velferðarsjóðs enn frekar í samvinnu við kirkjuna, félagasamtök, atvinnulífið og ríki.

Að lokum:

Við teljum að við getum verið stolt af þeirri þjónustu sem veitt er í sveitarfélaginu og því mikilvægt að standa vörð um hana af öllum mætti. Einnig er vert að taka fram að sú þjónusta sem starfrækt er í þessum málaflokki er samfélaginu gríðarlega dýrmæt. Hún rennir styrkari stoðum undir uppeldi barna okkar með öflugu forvarnarstarfi, styður við þá sem þurfa þess með og gerir fötluðum, sjúkum og fjölskyldum þeirra kleift að búa hér. Ekki má gleyma verðmætum störfum sem skapast hér í byggð við þjónustuna.

Höfundar: Olga Gísladóttir sem skipar 2. sæti D-listans í Norðurþingi og Guðlaug Gísladóttir sem skipar 5. sæti.

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744