Hvað get ÉG gert?

Jú, það er reyndar rétt.. ég hef ákveðnar skoðanir og það er margt sem ég myndi vilja sjá breytast, en ég er bara ekki viss um að þetta sé rétti

Hvað get ÉG gert?
Aðsent efni - - Lestrar 458

Huld Hafliðadóttir.
Huld Hafliðadóttir.
Jú, það er reyndar rétt.. ég hef ákveðnar skoðanir og það er margt sem ég myndi vilja sjá breytast, en ég er bara ekki viss um að þetta sé rétti vettvangurinn fyrir mig. Mér leiðist pólitík.” Með þessum orðum ætlaði ég að afþakka boð um sæti á lista til sveitarstjórnarkosninga, en var þá góðfúslega minnt á að það hefði nú bara sýnt sig að þetta væri í raun rétti vettvangurinn til að koma skoðunum og/eða áhrifum sínum á framfæri.
Eftir stutta umhugsun sá ég að þetta var alveg rétt. Ég sem hafði svo oft velt því fyrir mér hvað lægi að baki því þegar fólk sækti í pólitík, ár eftir ár, kosningar eftir kosningar. Var það valdafíkn? Þrjóska? Eiginhagsmunir? Gamall vani? Ekkert nema neikvæðir kostir komu upp í hugann og horfði ég kannski meira í átt að landspólitík í leit að svörum, án þess þó að komast að haldbærri niðurstöðu.

Frá því ég flutti til baka í bæinn minn, þennan yndislega fallega og vel staðsetta bæ, hef ég séð hann svolítið nýjum augum. Skiljanlega kannski, orðin tíu árum eldri, kannski örlítið vitrari og komin með vott af því sem við köllum í daglegu tali gagnrýna hugsun. Eitthvað sem mér persónulega finnst vanta í grunnskólakennslu okkar Íslendinga, auk heimspeki og siðfræði, en allt þetta mætti hafa sem skyldufög í grunnskóla alveg frá fyrsta bekk… en það er víst önnur saga.
Eftir að ég flutti heim kom mér margt á óvart, margt sem gerði mig virkilega leiða og margt sem kveikti í mér áhuga og löngun til að breyta og bæta. Mér þykir svo afskaplega vænt um bæinn minn, ég vill honum allt hið besta. Fyrst og fremst vill ég að hann sé í höndunum á góðu fólki, sem hefur velferð hans og íbúanna að leiðarljósi.

Eiginhagsmunir, þrjóska, valdafíkn eða gamall vani, ekkert af þessu finnst mér eiga að koma við sögu þegar kemur að því að gera bæinn okkar betri. Við þurfum að græða bæinn okkar, sem því miður, er í sárum eftir erfitt tíðafar.
 Ég hef ekki setið og horft til baka og greint allar framkvæmdir, ákvarðanir eða hugmyndir ráðamanna bæjarins síðustu ára eða áratuga og hvaða flokki þeir tilheyrðu eða tilheyrðu ekki. Ég hef ekki áhuga á því, það er ekki mitt að kryfja, hvað þá dæma gjörðir annarra og eins og ég skrifa hér að ofan, þá er ég ekki mikið fyrir þesskonar pólitík. Hins vegar trúi ég því heitt og einlæglega að á hverjum tíma fyrir sig, hafi fólkið sem vann í þágu okkar bæjarbúa, að okkar velferð, unnið eftir sinni bestu getu. 
 
Það sem skiptir máli í dag er ekki það sem gerðist í gær eða fyrir tíu árum. Með því að dvelja í fortíðinni komumst við aldrei áfram. Það sem skiptir máli í dag er hvernig við vinnum úr því sem við höfum.
Ég hef undanfarið minnt mig á að það að keppa við aðra skilar mér engu. Minn stærsti sigur er að verða betri manneskja í dag en í gær. Eins hef ég vanið mig á að reyna að vanda mig við að lifa. Hvað þýðir það? Jú, það þýðir að ég geri mitt allra besta til að koma vel fram við menn og dýr, ég sé enga kosti við að tala illa um náungann eða níða á annan hátt og þegar öllu er á botninn hvolft þá segði það meira um mig sjálfa, en þá sem ætlunin væri að sverta.

Mig langar til að halda áfram að búa í bænum okkar, mig langar til að sjá breytingar til batnaðar. En fyrst og fremst þurfum við hugarfarsbreytingu. Ef við getum snúið okkur út úr því að vera fórnarlömb (kreppu, hægfara hruns, pólitíkur eða hvers sem er) yfir í að axla ábyrgð, þá er aldeilis ýmislegt sem við getum afrekað!
Eitt af mínum uppáhaldsheilræðum hljómar á þá leið að spyrja ekki “Hvers vegna?” þegar eitthvað kemur upp á, því það gerir okkur að fórnarlömbum. Spyrjum heldur: “Hvað get ég gert?”, það veitir okkur styrk.


Huld Hafliðadóttir
skipar 5. sæti S-lista til sveitarstjórnarkosninga.

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744