Húsvískar flatbökur mun betri en ítalskarFólk - - Lestrar 892
Jóhanna Ásdís Baldursdóttir og Örlygur Hnefill Örlygsson sem bæði vinna í ferðaþjónustu á Húsavík fóru í tveggja mánaðar lestarferð um Evrópu í haust.
Þau heimsóttu 10 borgir með bakpokana sína og sögðu 640.is ferðasöguna.
"Við höfum bæði unnið í ferðaþjónustu í nokkur ár og tekið á móti gestum frá fjölda landa og heyrt
sögur af ýmsum áhugaverðum stöðum víða um heim. Eftir mikla vinnutörn í sumar fengum við þá skyndihugmynd að fara í
tveggja mánaða ferðalag um Evrópu. Við vildum gera það á sem ódýrastan hátt og pökkuðum því svefnpokunum okkar og
helstu nauðsynjum í bakpoka og keyptum okkur InterRail miða, en þeir gilda í nær allar lestir í Evrópu."
Jóhanna segir að góðir skór séu lykilatriði fyrir tveggja mánaða ferðalag, enda sé mikið gengið á hverjum degi.
"Við fórum af stað frá Húsavík 27. september og gistum eina nótt í fyrirmyndar ferðaþjónustu í Keflavík.
Þá um nóttina var svo flogið af stað til Bretlands þar sem við dvöldum í eina viku í London. Frá London lá svo leiðin
með lest til Parísar þar sem við dvöldum í tvo daga. Það var virkilega gaman að sjá allar frægu byggingarnar, en við höfum aldrei
lent í jafn mikilli rigningu," segir Jóhanna.
Örlygur segir að næsti viðkomustaður hafi verið valinn af einfaldri ástæðu. "Fyrir nokkrum árum þegar verið var að vinna
harðvið hér á Húsavík kom hingað sendinefnd frá Eastport í Maine-fylki í Bandaríkjunum. Kona úr hópnum gaf
fjölskyldu minni mikið af sinnepi sem hennar fjölskylda framleiðir í Ameríku og síðan þá hef ég verið mjög hrifinn af sinnepi.
Það var því ekki annað hægt en að heimsækja höfuðborg sinnepsframleiðslu í heiminum, sem er smáborgin Dijon í
Austur-Frakklandi."
Mekka sinnepunnenda, Maille sinnepbúðin í Dijon í Frakklandi.
Örlygur segir að Húsavík geti lært margt af Dijon í ferðaþjónustu. "Ég var sérstaklega hrifinn af
því að þau í Dijon höfðu búið til gönguleið í gegnum gamla bæinn sem var merkt með litlum gylltum uglum á
gangstéttinni og uglurnar leiddu mann að öllum áhugaverðustu stöðunum í bænum. Við gætum verið með lítinn hval eða lunda
sem leiddi fólk að okkar áhugaverðu stöðum hér á Húsavík.
Frá Frakklandi lá leið þeirra til Sviss, nánar til tekið í höfuðborgina Bern. "Bern er ekki mjög stór borg og því ein
vinalegasta höfuðborg Evrópu. Fyrst leist okkur ekkert á hana, því að í kringum lestarstöðina eru háar og óspennandi
steinbyggingar. Eftir 10 mínútna göngu fundum við svo gömlu borgina, sem er virkilega falleg.
Útsýnið úr lestarvagninum á leiðinni frá Sviss til Ítalíu.
Frá Bern fórum við svo niður til Ítalíu og eyddum einni nótt á hóteli í Mílanó, en þar höfðu Gunnar bróðir minn og pabbi gist á samskonar lestarferð á leið til Grikklands árið 2001 og pabbi og mamma á sínu ferðalagi ári áður. Ég fékk góðan afslátt af gistingunni þegar ég sýndi þeim mynd af föður mínum, enda mundi maðurinn í móttökunni vel eftir tvífara Brian May," segir Örlygur.
Jóhanna við Arno ánna í Flórens.
"Næsta stopp var í Flórens þar sem við heimsóttum Björn Grétar bróður minn," segir Jóhanna. "Hann var í
ítölskunámi þar í haust og ákvað að sýna okkur hversu góður hann væri í tungumálinu með því
að panta fyrir hann og Ölla pizzu á máli heimamanna. Ég hef aldrei séð Ölla skilja eftir mat á diskinum sínum áður, en
þessi pizza var vægast sagt ekki góð og við vitum ekki enn hvað var á henni, en það var loðið. Ég var virkilega ánægð
að hafa sjálf pantað mína pizzu á ensku."
Tvíburarnir sameinaðir: Björn Grétar og Jóhanna í Flórens á Ítalíu.
Eftir nokkra daga á Ítalíu héldu þau til Austurríkis. "Við tókum næturlestina frá Flórens
til Vínarborgar og gistum á hermannabeddum í lestinni. Ég gat varla sofnað alla nóttina vegna kláða og hélt að efnið í beddunum
væri svona óþægilegt. Þegar við fórum frá borði í Austurríki daginn eftir sá ég hins vegar að ég var
með 30 moskítóbit," segir Örlygur. "Dvöl mín í Vínarborg fór því fyrir lítið, enda lá ég mest allan
tímann í rúminu á farfuglaheimilinu meðan Jóhanna skoðaði borgina.
Næsti áfangastaður var hins vegar hápunktur ferðarinnar. Það var Prag, höfuðborg Tékklands. Við ætluðum fyrst bara að vera
þar í eina nótt en enduðum með að dvelja heila viku. Prag er virkilega falleg borg, full af sögu og menningu og þar er líka ódýrt
að vera, bæði í gistingu og mat. Við gistum þar um borð í bát sem breytt hefur verið í hótel. Enskumælandi fólk kallar
það fyrirbæri Botel."
Mögulegt útibú Sparisjóðs Suður Þingeyinga í Prag í Tékklandi.
Frá Tékklandi héldu þau til Þýskalands. "Ein lengsta lestarferðin var frá Prag til Reutlingen í suðurhluta Þýskalands. Við þurftum að fara með lest langleiðina til Berlínar og þaðan niður eftir öllu Þýskalandi. Í Reutlingen gistum við ókeypis í nokkrar nætur hjá Ísaki Má Aðalsteinssyni vini okkar frá Laugum. Þetta var fallegur lítill bær, á stærð við Reykjavík. Ísak hafði verið þar að starfa sem sjálfboðaliði í heilan mánuð og hafði því ekki gefið sér mikinn tíma til að skoða sig um og hafði því gott af því að fá tvo ferðalanga í heimsókn til að skoða bæinn.
Örlygur les í kortin milli lesta.
Eftir dvölina í Reutlingen stóð til að fara aftur til Parísar, en eins og vanalega voru franskir lestarstarfsmenn í verkfalli og ákváðum við því að fara þess í stað til Berlínar, sem var ekki á upphaflegu ferðaáætlun okkar. Það var ótrúlega gaman að fara um Berlín og skoða alla þá sögu sem þar er," segir Örlygur. "Við vorum mest í gömlu Austur-Berlín og heimsóttum meðal annars safn sem er tileinkað gamla Austur-Þýska ríkinu, sem og Checkpoint Charlie, frægustu landamærastöð heims. Á leiðinni frá Berlín lentum við í mesta hasar ferðarinnar þegar við læstumst um miðja nótt inni í stigahúsi á gistiheimili og sáum fram á að missa af fluginu til London. Eftir mikil köll og örvæntingarfull öskur vaknaði loks einn gestanna og gat hjálpað okkur úr prísundinni. Úti beið svo leigubíllinn og við náðum rétt í tæka tíð um borð í flugvélina."
Múrbrot í Berlín.
Þegar hér var komið við sögðu höfðu þau Örlygur og Jóhanna verið á ferðalagi í einn mánuð, en síðari mánuðinum eyddu þau svo í Lundúnum. "Við tókum á leigu herbergi í heimahúsi í Hounslow, sem er úthverfi í London. Við dvöldum þar í mánuð og fengum því að kynnast daglegu lífi í höfuðborg konungsveldisins. Við fengum okkur kort í bókasafnið í hverfinu og reyndum bara að vera sem mest eins og heimamenn. Það var gaman að prófa það í stuttan tíma," segir Örlygur. "Þar gat ég líka unnið ýmsa tölvuvinnu og við fengum líka þrisvar gesti í stuttar heimsóknir til London sem við sýndum borgina og heimsóttum meðal annars höll drottningar. Þessi ferð var sannkallað ævintýri fyrir okkur og lærdómsrík."
Laugastúlkur í Lundúnum: Hildur og Unnur Ingólfsdætur úr Hvítafelli í heimsókn hjá Jóhönnu.