Helgi Pálma 60 ára. Afmæli og gifting grænmetisætunnarAðsent efni - - Lestrar 897
Helgi Pálmason er fæddur á Húsavík 24. febrúar 1954 og er því sextugur í dag. Helgi er sonur hjónanna Pálma Héðinssonar og Ólafar Emmu Kristjánsdóttur frá Ísafirði. Tengdafaðir Pálma var Kiddi ljúfi úr Dýrafirði en hann var bróðir Gústa guðsmanns, þó það verði varla merk á afmælisbarninu.
Helgi er alinn upp hér á Húsavíkinni þar sem atvinnulífið var jafnframt leikvöllur. „Fjaran á Húsavík er ævintýraheimur sem dugir frískum drengjum daglangt flesta daga ársins. Fjaran var mitt svæði við strákarnir stálumst til að gera ótrúlega margt þar, þó stöku sinnum færum við upp í bæ að ræna okkur rófum og rabbabara. Maður varð snemma grænmetisæta,“ segir hann og strýkur magann sem hreint ekki er skorinn við nögl.
Eignaðist bát 10 ára
„Ég eignaðist árabát þegar ég var 10 ára og þar með hófst í raun sjómennskan mín. Ég veiddi rauðmaga á þessum báti og gekk í hús og seldi, mest af innkomunni fór reyndar í mæru og má enn sjá hennar merki í vaxtalaginu.
Einhvern tímann tók afi bátinn af mér í nokkra daga. Það var suðvestan garri og við félagarnir notuðum yfirbreiðslu úr bátnum sem segl og komum yfir flóann með bátinn á súðum, auðvitað var ekkert vit í þessu en gaman var það.“
Skíðakappinn
En hugur Helga sneri ekki eingöngu að hafinu, líkt og ungir drengir hafði hann áhuga á íþróttum og keppti meðal annars á skíðum, bæði heima á Húsavík og í nágrannabyggðunum. „Toppurinn á ferlinum var áreiðanlega þegar ég keppti á Norðurlandsmóti, þegar ég loksins kom í mark voru meira að segja tímaverðirnir farnir heim, hvað þá aðrir. Pabbi sá að þetta gat ekki gengið og keypti á mig skíði sem voru á þriðja metra að lengd, með plastbotnum og stálköntum. Nú átti ekkert að stöðva drenginn og gerði það ekki. Það var ekki að sökum að spyrja, ég renndi mér niður Húsvíkurfjallið, rann í gegnum bæinn án þess að geta stoppað og endaði niður í fjöru. Þarna varð ljóst að mér lét áreiðanlega annað betur en íþróttir.“
Vildi verða leikari
Draumar drengsins snerust um fleira íþróttir og framtíðin heillaði og margt sem hugurinn stefndi að. „Auðvitað vildi ég verða sjóari en mig langaði líka mikið til að verða leikari, hef alltaf haft gaman af að tjá mig. Er með mikla og háværa rödd sem ég ræð lítið við,“ segir Helgi og hlær svo undir tekur og íbúðablokkinni í Pattaya í Tælandi. Þar eru um 3000 íbúar og hefur Helgi sett sitt mark á samfélagið þar, enda húsið aldrei kallað annað en Helgafell.
Barnaði í brælu
Sjórinn átti Helga alltaf og lífsstarfið varð á hafinu. „Framan af var ég á Húsavíkurbátunum, fór ungur í Norðursjóinn og hef verið að berja þetta síðan, var fyrst lögskráður 16 ára. Svo þvældist ég um allt land. Fór einu sinni inná Patró vegna brælu og brá mér á pöbbinn þar, úr varð hjónband og tvær dætur. Þar gerði ég út í 10 ár. Reyndar á ég fjórar dætur og nokkur barnabörn þannig að sumt hefur tekist betur en annað í lífinu.
Hætti til sjós og fór á fraktskip
Ég prófaði fraktina þegar ég hætti á sjónum um tíma, fór meðal annars á Eddunni í Karapískahafið, við sigldum með kartöflur, það var fínt, vorum stopp í 2-3 vikur í hverri höfn þannig að það var bara gaman. Skipið var að vísu orðið ansi lúið, í ágjöf hriplak með öllum lúgum og kom fyrir að dælur hefðu ekkert við þannig að við urðum að keppast við að koma kartöflum fyrir borð til að halda dallinum fljótandi. En svo fór ég aftur á sjóinn eftir fraktævintýrin og var á sjó á meðan ég stundaði vinnu.
Keyrir um á 100 fermetra Kadilakk
Eftir að ég hætti að vinna hef ég verið að keyra leigubíl á BSR. Þeir eru stundum að atast í mér strákarnir og skilja ekkert í því að ég skuli vera á 100 fermetra Kadilakk. Rifja upp að ég hafi ekki fiskað fyrir kælivatni þegar ég var á sjónum og nú keyri ég ekki inn fyrir bensíni á drekann minn. En allt gengur þetta nú og margir sem sérpanta þessa stærstu drossíu sem boðið er uppá.“
Afmælisveisla og brúðkaup
En hvað ætlar Helgi að gera í tilefni þessara merki tímamóta? „Ég hafði alltaf hugsað mér að fara til útlanda til að halda uppá afmælið en auðvitað get ég það ekkert núna, ég er í útlöndum. Þá kom upp sú hugmynd að gifta mig í tilefni afmælisins, við Duangphon Plapsri höfum verið saman í fimm ár og því ekki eftir neinu að bíða. Vinir okkar hafa hannað veislu í sundlaugagarðinum á Nirun condo og þar verður þessara tímamóta minnst með viðeigandi hætti. Þetta verður dagur lífs míns,“ segir Helgi þakklátur fyrir hve lífið leikur við hann.
-GS
Duangphon Plapsri, einatt kölluð Som ásamt Helga sínum. Þau ætla að nota stórafmæli drengsins til að ganga í það heilaga. Veislan í sundlaugagarðinum verður því ekkert venjulega frekar en annað sem Helgi tekur sér fyrir hendur.