Helga Kristinsdóttir: Ég get ekki orða bundistAðsent efni - - Lestrar 919
Ágætu ráðamenn Íslands.
Mér er algjörlega misboðið með niðurskurðartillögum ykkar í þessum fjárlögum sem nú hafa litið dagsins ljós. Ég hef eins og svo margir aðrir Íslendingar tekið ákvörðun um að lifa og starfa í Þingeyjarsýslum, n.t.t. í Norðurþingi. Ég ásamt mörgum íbúum þessa héraðs sem hér eru uppalin, hafa hleypt heimdraganum, orðið sér úti um menntun og komið aftur í sína heimabyggð til að setjast þar að reynslunni ríkari.
Það þekkist hér um slóðir að stúdentar hafa sótt háskólanám suður til Reykjavíkur, stofnað fjölskyldu, stefnt allan tímann á að koma aftur til sinnar heimabyggðar að námi loknu, því þar vill unga fjölskyldan ala upp börnin sín og hafa starf við hæfi og laun í samræmi við það en ekki láglaunastarf sem allt of margir Íslendingar setja saman sem merki við í umræðum um landsbyggðina. ¨Að flytja út á land, er ávísun á lélegri skilyrði til lífsviðurværis. Þar er rekin láglaunastefna¨. Það hefur hingað til og enn frekar nú, enginn setumaður í stofnun suður, né valdamenn Íslands séð ástæðu til að færa okkur hálauna störf. Við þurfum að berjast og berjast fyrir starfinu sem ungu stúdentarnir stefndu að í háskólanámi sínu.
Það er svo ómanneskjulegt að ráðast með þvílíku offorsi að landsbyggðinni með niðurskurðartillögum fjárlaga, að það tekur bara ekki nokkru tali. Ég hef lengi haft þá skoðun, að ráðamenn eigi að hafa hugrekki til að koma út í dreifbýlið og halda fund með heimafólki og segja bara hreint út: Stjórnvöld hafa ákveðið að hér á þessum stað verði land ekki byggt og fólkinu afhend peningafjárhæð sem nemur húsaverði á þeim stað sem því er ætlað að lifa og starfa. Skapa búsetuskilyrði fyrir Íslendinga á Íslandi.
Þetta var skoðun mín, þegar sjálfstæðismenn voru í forystu stjórnmála hér á landi meira og minna frá kvótasetningu sjávarafla. Þá vildi ég sjá þáverandi forsætisráðherra vorn hr. Davíð Oddsson koma til móts við fólkið úti í hinum dreifðu byggðum og flytja þeim boðskapinn. En nei, hann hafði ekki dug til, enda hvattur af hagsmunasamtökum og pólitík sem stefndi að söfnun auðs á fárra manna hendur.
Það er ömurlegt að nú skuli á landi voru stjórna ¨vinstri flokkar¨ og sú píning fyrir okkur hér í Norðurþingi, að velferðarstjórn skuli skera af okkur sjúkraþjónustu sem við höfum búið við í rúma hálfa öld eða allt frá stofnun sjúkrahússins árið 1936. Ég og fjölskylda mín höfum notið góðs af þjónustu hér í heimahéraði og fer hér á eftir reynslusaga fjölskyldumeðlims.
Reynslusaga sjúklings í Norðurþingi.
Móðir uppkominna barna sinna, dvelur á efri árum á Dvalarheimili aldraðra á Húsavík. Hún veikist og ákvörðun tekin af læknum Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga að senda hana með sjúkrabíl til Akureyrar, þar dvelur hún um tíma, ákvörðun tekin um að senda hana í nánari rannsókn til Reykjavíkur, þar sem hún gekkst undir aðgerð. Eftir nokkurra daga legu á aðgerðarsjúkrahúsinu í Reykjavík suður, var hún send heim, fyrst á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, síðan heim til Húsavíkur á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Ekki tókst aðgerðin betur en svo, að heilsu hennar hrakaði svo um munaði, eitt tók við af öðru og loks stóðu hún og afkomendur hennar frammi fyrir stórri ákvörðun. Svo var komið, að ef halda átti lífi, þurfti að fjarlægja fótinn (aflima eins og það e.t.v. nefnist á fagmáli). Hún hafði mikla löngun til að lifa og hafði sterkan bakhjarl þar sem fjölskylda hennar stóð að baki hennar. Það var þó alveg kristaltært í hennar huga, að flutningar til fjarnáms leggsins voru ekki til staðar. Hún þvertók fyrir að fara í ferðalög sem henni hafði áður verið boðið upp á. Fóturinn yrði tekinn í aðgerð við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, þar sem hún hafði í svo langan tíma eftir aðgerðina í Reykjavík suður, verið að jafna sig. Hún fann fyrir fagmennsku starfsfólks, umhyggju þess og ekki hvað síst að vera í námunda við sína nánustu fjölskyldu. Að vera komin heim á sjúkrahúsið, glíma við erfið veikindi og fá að njóta umhyggju fagfólks við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga var hennar ánægja í erfiðu ferli. Hún fékk sínu fram, læknar og hjúkrunarfólk lagði sig allt fram með þvílíkri kostgæfni og eftirfylgni að eftir var tekið. Hún náði sér furðu fljótt og fékk aftur að njóta samveru heldra fólks á Dvalarheimilinu Hvammi og njóta efri áranna í hjólastól að vísu, en bráðhress og nýtur samvista við fjölskyldu og vini.
Þökk sé ykkur lífið hennar tengdamóður minnar ágæta fagfólk og annað starfsfólk á sjúkradeild Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga. Fagmennskan og heimilislegu aðstæðurnar sem þið skapið sjúklingum ykkar er til mikillar fyrirmyndar. Ég veit að mikið hefur verið ráðist að okkur í sífelldu hagræðingarskyni, s.s. fæðingardeild aflögð og aukinn sparnaður hér og þar í þjónustu við okkur. Lengra verður ekki gengið.
Ég vil hvetja ráðherra, alþingismenn og aðra embættismenn, sem lifa og starfa í Reykjavíkurborg suður og hafa svo ríka ástæðu til að skera þjónustu við okkur á landsbyggðinni niður við nögl, að skoða nú sinn eigin barm og setja sig í okkar spor.
Við erum ekki að biðja um hátæknisjúkrahús eða nýjar byggingar, við viljum aðeins halda þeirri, sjálfsögðu þjónustu sem hverjum manni ætti að vera aðgengileg á Íslandi nútímans.
Helga Kristinsdóttir.
Bréf þetta er sent forsætisráðherra, ráðherra velferðarmála, fjármálaráðherra, ráðherra sveitarstjórnarmála og þingmönnum Norðausturkjördæmis.