Gunnar Rafn Jónsson: Er ríkisstjórnin stödd í Undralandi?

„ Geturðu verið svo vænn að segja mér, hvaða leið ég á að velja héðan?“, spurði Lísa í Undralandi köttinn, sem svaraði: „ Það byggist nú

„ Geturðu verið svo vænn að segja mér, hvaða leið ég á að velja héðan?“, spurði Lísa í Undralandi köttinn, sem svaraði: „ Það byggist nú heilmikið á því, hvert þú ætlar!

 

Gjörvöll landsbyggðin spyr nú stjórnvöld í kjölfar fyrirhugaðs niðurskurðar á minni sjúkrastofnunum:

  • Er hugmyndin sú sama og hjá Dönum forðum, þegar flytja átti alla Íslendinga á Jósku heiðarnar?
  • Á að hefja hreppaflutninga aftur til vegs og virðingar í nútíma samfélagi?
  • Stefnið þið vísvitandi á eignaupptöku hjá landsbyggðarfólki?
  • Áætlið þið að greiða fyrir verðlausar húseignir upphæðir, sem samsvara markaðsvirði eigna í Reykjavík, þegar þið smalið okkur landsbyggðarfólkinu saman á suðvesturhornið?

Í byrjun þegar fólk dreif að úr öllum áttum á magnaðan baráttufund á Húsavík, leið mér svolítið, eins og ég væri að fara á jarðarför. Stemningin varð hins vegar mögnuð í troðfullri höllinni. Framsögumenn fóru á kostum. Ýtarlega var sagt frá starfsemi stofnunarinnar. Hárbeittar ádeiluræður fylgdu í kjölfarið. Viðstaddir alþingismenn þurftu ekki að velkjast í vafa, hvern hug fundarmenn báru til fjárlagafrumvarps.

 

Eldhuginn Hafliði Jósteinsson endurtók kröftuglega í ávarpi sínu: „Við erum manneskjur!“

 

Það þýðir lítið fyrir starfsmenn heilbrigðisráðuneytisins að dusta rykið af „Gulu skýrslunni“, sem venjulega gengur undir nafninu „Símonar-skýrslan“. Hún er að vísu troðfull af tölum, en fjallar minna um manneskjur. Hvorki er hægt að skynja, að tillögur hennar hafi átt að þjóna þeim yfirlýstu markmiðum að fjölga störfum á landsbyggðinni né heldur virðast þær veita dreifbýlisfólki jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu.

 

Matthías Halldórsson sagði í grein í Heilbrigðismálum (1-2/1994), að fólk sætti sig ekki við „ það næstbesta í heilbrigðisþjónustunni“ ef betra væri í boði. Ekki finnst mér mótmæli landsbyggðarfólks þessa dagana bera þess merki, að það telji sig njóta annars flokks þjónustu í dag. Hugmyndir ráðuneytisins úr „Gulu skýrslunni“ voru fyrir hálfum öðrum áratug kveðnar af harðfylgni  í kútinn af landsbyggðarmönnum. Jón Aðalsteinsson, þáverandi yfirlæknir á Húsavík, skrifaði m.a. tvær afar fróðlegar greinar, sem birtust  12. og 13. apríl 1995 í Morgunblaðinu. Kjarni þeirra er jafn viðeigandi í dag og hann var þá.

 

Heilbrigðisyfirvöld hafa ítrekað í áratugi beitt flötum niðurskurði. Á sama tíma er þess krafist, að forsvarsmenn stofnananna geri langtíma áætlanir um reksturinn. Þegar endar nást ekki saman, er rekstaraðilum kennt um. Þó sagði í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 1994, að ráðuneytið vissi ekki lengur, hvað hver hlutur kostaði.

 

Á hverjum tíma verða heilbrigðisyfirvöld að gera heiðarlega tilraun til þess að svara spurningunni um, hvaða kerfi sé best að nota til þess að :

  • draga úr heildarkostnaði
  • tryggja viðeigandi fjármagn til reksturs
  • auka möguleika skjólstæðinga til vals á þjónustu og fræða þá um, hvaða kostir séu í boði
  • veita öllum þegnum landsins góða þjónustu á jafnréttisgrundvelli
  • stýra framboði eftir þörfum fólksins og eftirspurn eftir þjónustu
  • tryggja eðlilega þróun við að lækna, líkna og fyrirbyggja heilsuleysi
  • auka gæði þjónustunnar
  • standast siðfræðikröfur heilbrigðisstétta

Norrænir fulltrúar innan heilbrigðisgeirans heimsóttu okkur á Húsavík fyrir nokkrum árum. Eftir að hafa kynnt sér fyrirkomulagið hér, óskuðu þeir okkur innilega til hamingju með að reka kerfi, sem þá hafði í fjöldamörg ár dreymt um að hrinda í framkvæmd. Fyrir rúmu ári var reynt með valdboði að sunnan að knýja fram breytingar á þessu sama kerfi.

Ég kannast ekki við háværar gagnrýnisraddir notenda þjónustunnar á landsbyggðinni, að hér sé handónýtt heilbrigðiskerfi og því þurfi þess vegna að breyta. Alþingismaður úr röðum stjórnarliðsins bar af sér sökina á nefndum baráttufundi á Húsavík. Sá sagði það vera starfmönnum ráðuneytisins að kenna, að slíkar niðurskurðartillögur kæmu fram. Það væri hvorki við ríkisstjórn né flokksbræður úr röðum stjórnarsinna að sakast. Ekki urðu menn á háborðinu þó sammála um, hver bæri þessa ábyrgð. Alltént kom það fram á fundinum, að höfundar niðurskurðartillagnanna virðast  hvorki hafa haft samráð við notendur þjónustunnar né heldur stjórnendur téðra stofnana.

Núverandi tillögur finnst mér hrákasmíð. Nefni hér nokkur atriði því til staðfestingar:

  • Ekki hefur verið sýnt fram á, að ódýrara sé að láta sjúklinga sjúkrasviðs liggja annars staðar. Í þessu samhengi má einnig nefna, að 1994 reiknaði Ríkisendurskoðun út, að kostnaður á hvern legudag á Húsavík væri einungis 50% af kostnaði á Ríkisspítölum.
  • Hvorki er reiknað með kostnaðaraukningu vegna fjölgunar sjúklinga á FSA né á Landspítala. Ráðuneytið hlýtur að reikna með því, að þessir einstaklingar gufi upp, deyji drottni sínum eða séu vaktaðir af ættingjum allan sólarhringinn með stöku stuðningsheimsóknum hjúkrunarfræðinga í heimahjúkrun. Mestur hluti af vinnutíma hjúkrunarfræðinganna færi þó líklega í ferðir um dreifbýlar sveitir.
  • Ekki verður séð, hvað handlækninga- og bæklunardeild FSA á að gera við þá sjúklinga, sem fram að þessu hafa, í  kjölfar aðgerða, verið sendir til endurhæfingar og hjúkrunar á Sjúkrahúsinu á Húsavík. Einnig er sennilegt að langtímadvöl skjólstæðinga á FSA dragi verulega úr afkastagetu áðurnefndra deilda. 
  • Aukinn kostnaður virðist eiga að leggjast á notendur dreifbýlisþjónustu. Sjúklingar og aðstandendur þeirra munu óneitanlega standa straum af kostnaði við ferðir og uppihald svo ekki sé minnst á vinnutap því samfara. Þar að auki virðist eiga að hætta að styrkja áætlunarferðir úti á landi. Ekki er ólíklegt, að annað hvort leggist þær þá af ellegar verði svo dýrar, að þeir, sem minna mega sín, hafi ekki efni á því að fara til læknis. Benda má á, að SÍ tekur yfirleitt ekki þátt í ferðakostnaði nema tveggja ferða á ári.
  • Starfsfólk  heilbrigðisráðuneytisins virðist ekki hafa gert sér ljóst, hve gífurleg margfeldisáhrif uppsagnir hundruða starfsmanna sjúkrastofnana víðsvegar um landsbyggðina munu hafa.

Sorgin, reiðin og örvæntingin, sem greip um sig meðal íbúa landsbyggðarinnar, þegar fyrirhugaður niðurskurður var kunngerður, virðist nú vera að breytast í órofa samstöðu gegn óréttlætinu. Hundruðir sýndu það aftur í dag, er þeir mynduðu skjaldborg um stofnanir Þingeyjarsýslna. Þetta fólk vill sýna stjórnvöldum, að hér búa manneskjur með bæði sál og líkama. Við öll viljum vita, hvert ferðinni er heitið. Okkur finnst margt vera öfugsnúið líkt og í ævintýrinu um Lísu í Undralandi.

„ Nú viljið þið áreiðanlega vita, hvernig maður gerir þetta“, hrópaði töframaðurinn út í salinn eftir að hann hafði galdrað fram þrjár dúfur að því er virtist úr tóminu. „ Nei!“, kallaði lítil stúlka. „ Ég vil fyrst vita AF HVERJU  þú gerir þetta!“

Stjórnvöld!

Við á landsbyggðinni óskum eftir skýringum og bíðum svara við ofangreindum spurningum!!!

 

                             Húsavík, 10.október 2010 – Gunnar Rafn Jónsson

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744