Grenitréð við Hvamm ljósum prýttAlmennt - - Lestrar 408
Grenitréð sunnan við Hvamm á sér litla sögu sem vert er að rifja upp. Starfsfólk Hvamms gaf tréð þegar Hvammur var 10 ára og Svanlaug Björnsdóttir gróðursetti það.
"Það hefur stækkað mikið og er afar fallegt og nýtur sín vel en „barnið vex en brókin ekki“. Jólaljósin sem klæddu tréð svo vel þegar það var lítið tóku sig illa út síðastliðin ár. Þess vegna var haft samband við einn stjórnarmann í gjafa- og minningarsjóði Hvamms og óskað eftir að stjórn hans myndi freista þess að finna lausn en LIONS hefur af miklum myndarskap séð um að setja upp og skreyta tréð við HÞ svo lengi sem menn muna
Erindið var of seint á ferðinni þetta árið en Gjafasjóður Hvamms mun senda senda erindið fyrir félagasamtök fyrir næstu aðventu.
En viti menn maðurinn hennar Brynhildar Hallgrímsdóttur hann Guðmundur Eiríksson frétti af þessu og brást við. Hann fór sjálfur á stúfana safnaði andvirði átta sería hjá fyrirtækjum eða 65.120.- krónum og setti þær síðan upp með bróður sínum.
Nú tekur tréð sig svo ljómandi vel út og veitir íbúum, aðstandendum, og starfsfólkinu ómælda ánægju.
Við þökkum Guðmundi fyrir framtakið og einnig fyrir að setja uppsetninguna á seríunum fyrir næstu aðventu í farveg". Segir í bréfkorni sem 640.is barst frá starfsfólki Hvamms.
Eftirtalin fyrirtæki gáfu seríurnar og kunna íbúar og starfsfólk Hvamms þeim bestu þakkir fyrir: Landsbankinn, Íslandsbanki, GPG, Vísir,VÍS, SJÓVÁ, Framsýn og Víkurraf.
Meðfylgjandi myndir tók Guðný Reykjalín Magnúsdóttir.