GPG Seafood kaupir línuskip

GPG Seafood ehf. á Húsavík ráðgerir að sigla Jökli ÞH 299, áður Nanok, til heimahafnar á Raufarhöfn í byrjun næsta árs.

GPG Seafood kaupir línuskip
Almennt - - Lestrar 465

Nanoq siglir út frá Reykjavík vorið 2016.
Nanoq siglir út frá Reykjavík vorið 2016.

GPG Seafood ehf. á Húsavík ráðgerir að sigla Jökli ÞH 299, áður Nanok, til heimahafnar á Raufarhöfn í byrjun næsta árs. 

Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Fiskifrétta en nokkuð er um liðið frá því GPG gerði samning um kaup á skipinu Nanok af Arctic Prime Fisheries á Grænlandi sem er að stórum hluta í eigu Brims hf.

Ráðgerð afhending á skipinu til nýrra eigenda var í júlí síðastliðinn en hún hefur tafist um næstum hálft ár. GPG er einnig með 15 metra langan, 30 brúttótonna trefjabát í smíðum hjá Víkingbátum ehf. og afhending er ráðgerð í febrúar næstkomandi. Línubáturinn kemur í stað Lágeyjar ÞH sem strandaði í Þistilfirði í nóvember á síðasta ári.

Gunnlaugur Karl Hreinsson, eigandi GPG Seafood, segir Jökul ÞH hreina viðbót við skipaflota fyrirtækisins og til þess ætlaða að auka hráefnisöflun fyrirtækisins. GPG starfrækir flaka- og hrognavinnslu á Raufarhöfn, saltfiskvinnslu og fiskþurrkun á Húsavík og dótturfélagið Þórsnes í Stykkishólmi starfrækir salfiskvinnslu í Stykkishólmi og útgerð.  Fyrir réttu ári keypti GPG Halldór fiskvinnslu á Bakkafirði. Þaðan gerir fyrirtækið út bát og er með flakavinnslu í landi.

Jökull ÞH er enn undir grænlensku flaggi en að sögn Gunnlaugs er nú unnið að því að uppfæra búnað skipsins til þess að hann uppfylli íslenskar reglugerðir. Meðal búnaðar sem þarf að setja upp í skipinu er sjálfvirkur sleppibúnaður fyrir björgunarbáta.

Skipt um aðalvél

Jökull ÞH er ísfisk- og frystiskip. Það er smíðað árið 1996 og er 45x11 metrar á lengd og breidd. Kælimiðillinn var freon en verður ammóníak. Það óhapp varð að aðalvél skipsins bræddi úr sér og það hefur verið í gagngerum breytingum sem fela meðal annars í sér að aðalvélinni er skipt út fyrir nýja ásamt öllum tilheyrandi búnaði. Þetta ásamt í töfum í kjölfar alheimsfaraldurs  og forkaupsréttar sveitarfélagsins Nanortalik, sem síðar var fallið frá, gerði sitt til að tefja endanlega afhendingu skipsins.

Gunnlaugur segir að mestur tími hafi farið í að skipta um aðalvélina í skipinu og setja upp nýtt  kælikerfi. Sett verður upp ammóníak kerfi og er áætlað að því verki ljúki í byrjun næsta árs.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744