Friðrik Sigurðsson: Ágæti þingmaður

Í júní s.l. skrifaði ég ykkur sem fulltrúum okkar kjósenda í fjárlaganefnd Alþingis vegna áhyggja minna af framtíð lögreglu og sýslumannsembætta í

Friðrik Sigurðsson: Ágæti þingmaður
Aðsent efni - - Lestrar 649

Í júní s.l. skrifaði ég ykkur sem fulltrúum okkar kjósenda í fjárlaganefnd Alþingis vegna áhyggja minna af framtíð lögreglu og sýslumannsembætta í Þingeyjarsýslu. Aðeins tveir fulltrúar úr ykkar hópi sáu ástæðu til að svara þeim ábendingum sem ég beindi til ykkar og þar af aðeins einn úr ykkar hópi sem ræddi þær ábendingar efnislega. Þrátt fyrir þetta er búið að gefa það út í fjárlögum að hér eigi að sameina og skera niður í löggæslu. 

En á dauða mínum átti ég von að það kæmi til þess að ég þyrfti að skrifa ykkur bréf og kvarta yfir því að stjórnvöld hyggðust segja Þingeyingum stríð á hendur. Það er ekkert annað en stríðsyfirlýsing við íbúa hér að ætla að taka 85% af fjármagni frá sjúkradeild Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga.

 

Ég geri mér grein fyrir því, að með aðgangi að góðu Þingeysku lofti eru allar líkur á því að við verðum allra manna heilbrigðust á landinu góða en að halda að fólk á svæðinu hætti að verða sjúkt er fráleitt?  Því er okkur Þingeyingum ætlað að taka á okkur 9% af skerðingu í heilbrigðisþjónustu?

  • Ég hvet ykkur til að kíkja á landakortið og sjá hvað starfssvæði HÞ er stórt.
  • Er ykkur ekki ljóst hvaða vegalengdir er um að ræða á starfssvæði HÞ t.d. frá Þórshöfn til Húsavíkur? 
  • Er ykkur ljóst hvaða áhrif þetta hefur á samfélagið í Þingeyjarsýslu.  Þetta jafngildir því að 2.500 manns væri sagt upp á einu bretti í Reykjavík
  • Samkvæmt framkomnum upplýsingum var bent á það að nauðsynlegt væri að hafa eitt varasjúkrahús í nágrenni Reykjavíkur, ef þið eruð samkvæmir sjálfum ykkur með þetta þá þarf að sjálfsögðu að vera varasjúkrahús fyrir Akureyri
  • Samgöngur til Akureyrar eru ekki opnar alla daga ársins vegna veðurs eiga þá sjúklingar bara að deyja veðurtepptir á leiðinni á sjúkrahús þar?

Ég hef ekki séð rökin fyrir því að þessar snargölnu hugmyndir komi til með að spara fjármagn úr ríkissjóði Íslands, sjóði sem ég greiði í til jafns við aðra þegna landsins. Hvernig dettur ykkur í hug að hægt sé að halda úti starfsemi með 15% af því fjármagni sem áður var til sama rekstrar, rekstrar sem hefur verið í stanslausum sparnaði og aðhaldi síðastliðin 10-15 ár. Ef einhver ykkar hafa komið nálægt rekstri fyrirtækja þá ætti ykkur að vera ljóst að fastur kostnaður við rekstur er alltaf meiri en 15% ALLTAF!  Það eru því bara fíflalæti að láta frá sér hugmyndir sem bjóða okkur Þingeyingum upp á að reka sjúkrahúshlutann á 15% af núverandi framlagi til reksturs.  

Ég ítreka skoðun mína frá því í júní að ykkur ber að standa vörð um grunnþætti í íslensku samfélagi sem eru að standa vörð heilbrigðisþjónustuna og öryggismál borgarana.
Þetta eru lykilatriðin í okkar samfélagi ásamt því að tryggja menntun þjóðarinnar. 

Ég legg því allt mitt traust á fjárlaganefnd Alþingis að hún leiðrétti þann órétt sem við Þingeyingar erum beittir í framlögðu fjárlagafrumvarpi. 
Við erum að sjálfsögðu til viðræðu um að hagræða og leita allra leiða til að spara í rekstri ríkissjóðs.

Ég reikna að sjálfsögðu með því að fá svör frá ykkur öllum um þetta alvarlega mál sem fyrir ykkur er lagt hér í þessum tölvupósti.

Virðingarfyllst, 
Friðrik Sigurðsson
Höfðavegi 5
640 Húsavík

Erindi þetta var sent á fjárlaganefnd Alþingis í gær ásamt afriti á fjármálaráherra og velferðarráðherra

 

 

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744