Framtíðin er okkarAðsent efni - - Lestrar 887
Þessar línur eru sérstaklega ætlaðar þeim sem hafa ekki mjög mikinn áhuga á stjórnmálum. Það er nefnilega staðreynd að þeir sem hafa minnstan áhuga á stjórnmálum eru gjarnan þeir sem þurfa mest á breytingum að halda. Þetta eru oft þeir sem þurfa að láta í sér heyra og hafa áhrif. Þetta er millistéttin og þeir sem hafa það jafnvel enn verra.
Hvernig stendur á því að í lýðræðisþjóðfélagi er stærsti þjóðfélagshópurinn, þ.e. millistéttin, í sífelldri varnarbaráttu? Hvernig stendur á því að það er sífellt verið að fórna okkur fyrir lítinn hóp fjármagnseigenda sem notar okkur sem kubba í einkaspilavíti kerfisins? Hvernig stendur á því að þeir sem taka áhættuna halda sínum vinningi en við sitjum alltaf uppi með reikninginn eftir að allt hefur verið lagt undir í lok veislunnar? Ef svörin eru þau að þessir menn séu bara svona ótrúlega klárir er um leið verið að segja að við séum vitlaus.
Það er kominn tími til að standa upp og hætta þessari vitleysu. Það er komið nóg af því að fjölskyldum okkar sé fórnað. Reikningarnir sem við erum að greiða eru ekki okkar. Heimili landsins eru komin á ystu nöf og talnasérfræðingar geta ekki galdrað annan raunveruleika. Viðbótarlífeyririnn er búinn, sparireikningurinn er tómur og á útgjaldareikningnum eru bara rauðar tölur. Launin eru hætt að duga. Það er verið að ræna framtíð okkar og barna okkar beint fyrir framan nefið á okkur.
Það er kominn tími á rétta forgangsröðun. Forgangsröðun þar sem réttlæti, virðing og heiðarleiki ráða för. Það er kominn tími til að sérhagsmunir víki fyrir almannahagsmunum. Það er kominn tími til að við, fólkið í landinu, séum metin að verðleikum.
Fjármagnseigendur og þeir sem lögðu framtíð okkar að veði eru ekki vont fólk. Þetta eru einstaklingar sem lærðu að notfæra sér kerfi sem er vont. Þessu kerfi er hægt að breyta. Það er kominn tími til að snúa bökum saman og hætta að berjast um pólitíska hugmyndafræði og fara að berjast fyrir því sem skiptir máli. Mér er nákvæmlega sama hvort eitthvað heitir vinstri eða hægri ef við höfum það alltaf jafn skítt. Pólitísk hugtök eru lítið annað en kúgunarvald þeirra sem vilja ráða framtíð okkar. Hræðslan við stefnubreytingar er orðin skynseminni yfirsterkari.
Í krafti fjöldans getum við breytt stjórnmálum. Í krafti lýðræðis getum við haft áhrif og breytt því sem þarf að breyta. Það þarf nýja hugsun, nýja stefnu og nýtt siðferði. Það þarf nýtt fólk. Fram undan er barátta en baráttan er ekki um framtíð flokka. Baráttan er um framtíð þjóðar.
Við megum ekki óttast breytingar. Það er óbreytt ástand sem við þurfum að óttast. Framtíð Íslands þarf á þér að halda. Ekki vanmeta þau áhrif sem þú getur haft. Baráttumaðurinn Nelson Mandela sagði: „It always seems impossible until it‘s done.“ Framtíðin er okkar, ef við viljum.
Birgir Örn Guðjónsson,
formaður SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar.