Frábær árangur í Amsterdammaraþoninu

Nokkrir félagar úr Hlaupahópnum Skokka skelltu sér til Hollands nú á dögunum til að taka þátt í Amsterdammaraþoninu.

Frábær árangur í Amsterdammaraþoninu
Íþróttir - - Lestrar 775

Anna Halldóra Ágústsdóttir.
Anna Halldóra Ágústsdóttir.

Nokkrir félagar úr Hlaupahópnum Skokka skelltu sér til Hollands nú á dögunum til að taka þátt í Amsterdammaraþoninu.

Hlaupið fór fram sunnudaginn 15. október í blíðskaparveðri, sól og rétt um 20 stiga hita. Það voru fjórir hlauparar sem hlupu heilt maraþon, þau Anna Halldóra Ágústsdóttir, Guðmundur Árni Ólafsson, Heiðar Hrafn Halldórsson og Jón Friðrik Einarsson. Þá hljóp Ágúst Sigurður Óskarsson hálfmaraþon.

Skokki-Amsterdam

Öll skiluðu þau sér heil heilsu í mark og á fínustu tímum en hæst bar þó glæstan árangur Önnu Halldóru sem fór kílómetrana 42,2 á tímanum 3:16:31 sem er næstbesti tími íslenskrar konu á árinu. Aukinheldur telst þetta vera 24 besti einstaklingsárangur íslenskrar konu í maraþoni frá upphafi.

Frábær árangur það og Anna Halldóra er að vonum ánægð með sitt fyrsta maraþonhlaup, "Þó ég segi sjálf frá, þá er ég rosalega ánægð með árangurinn í maraþoninu. Þetta er ógleymanlegt hlaup og líklegast það skemmtilegasta sem ég hef tekið þátt í" sagðu hún í stuttu spjalli við 640.is 

Hún sagði að markmiðið fyrir hlaupið hafi að sjálfsögðu verið að komast hlaupandi í mark.

"Síðan var markmiðið að ná besta tímanum sem pabbi á, sem er 03:35 en draumamarkmiðið sem ég var með bakvið eyrað var 03:20. Markmiðið í hlaupinu sjálfu var að líða vel amk. fyrstu 34 km. og þurfa ekki að labba neitt. Síðan að ná að hlaupa á þeim hraða sem ég var búin að plana fyrir hlaup og halda honum út hlaupið sem myndi skila mér draumatímanum.

Hlaupið þróaðist eins og í sögu. Ég fór mjög skynsamlega af stað, hægar en ég ætlaði mér að vera allt hlaupið. Síðan leið mér mjög vel eftir 21,1 km eða hálft maraþon svo ég ákvað að prófa auka hraðan aðeins og sjá hvað myndi gerast, hvort ég myndi lenda á vegg eftir 34 km en svo var ekki og ég kláraði seinni 21,1 km hraðar heldur en fyrri part hlaupsins.

Auðvitað voru fæturnir orðnir vel þreyttir eftir 37 km og mig langaði virkilega að fara sjá endamarkið en þá voru bara rúmir 5 km eftir svo það var ekkert annað í stöðunni en að stilla hausinn rétt og klára þetta með stæl. Ég tók orkugel á 5 km fresti rétt fyrir hverja drykkjarstöð og drakk vel af vatni á þeim í hitanum" sagði Anna Halldóra sem fór á sína fyrstu formlegu hlaupaæfingu með Hlaupahópnum skokka 7. febrúar 2015. 

Aðspurð hvort það hafi verið pabbi gamli sem hafi dregið hana í hlaupin segir Anna Halldóra að svo sé. "Hann á allan heiðurinn af því að ég er að hlaupa í dag, betri hlaupafélaga er ekki hægt að finna sér og við erum dugleg í að hvetja hvort annað í þessu sporti.

Hann bauð mér margoft á æfingar með Skokka en aldrei mætti ég. Mér fannst ég ekki hafa getu til þess að hlaupa svona hratt og langt. Síðan mætti ég á mína fyrstu hlaupaæfingu þegar Skokkamenn voru í undirbúning fyrir Parísarmaraþonið og þá var ekki aftur snúið.

Þá, fyrir rúmum tveim árum, var ég langt á eftir þeim í Skokka, bæði hvað varðar hraða og þol". Segir Anna Halldóra sem býr í Reykjavík þar sem hún er í meistaranámi í geislafræði auk þess sem hún vinnur með náminu á myndgreiningardeild Landspítalans sem geislafræðingur. 

Anna Halldóra æfir með Valur - skokk fyrir sunnan og eru fastar hlaupaæfingar þrisvar sinnum  í viku. "Heima á Húsavík æfi ég með hlaupahópnum Skokka og pabba. Báðir hóparnir eru mjög hvetjandi og mér finnst nauðsynlegt að æfa hlaupin í góðum félagsskap því þetta er svo miklu meira en bara að fara út að hlaupa. Lengstu æfingarnar fyrir maraþonið voru u.þ.b. 34 km og þá er gott að þekkja góða, reynda og skemmtilega hlaupara sem maður hleypur með". Segir Anna Halldóra en næstu dagana taka við rólegar hlaupaæfingar.

Svo er bara að fara skipuleggja næsta hlaupaár og hún segir löngun sína standa til þess að hlaupa tvö maraþonhlaup á næsta ári en þetta kemur allt í ljós. 

Skokki í Amsterdam

Anna Halldóra, Jón Friðrik, Guðmundur Árni og Heiðar Hrafn hlupu heilt maraþon í Amsterdam.

Hér má sjá árangur Íslendinganna sem þátt tóku í Amsterdamhlaupinu en Anna Halldóra og Jón Friðrik voru í 1. og 2. sæti af íslensku keppendunum.

Hlaupahópurinn Skokki var stofnaður í febrúar árið 2009. Fastar æfingar eru tvisvar í viku, kl. 18 á þriðjudögum (mæting við íþróttavöll) og kl. 10 á laugardagsmorgnum (mæting við sundlaug). Nýliðar eru ávallt velkomnir.

Hópurinn hefur reglulega farið saman hlaupaferðir, innanlands og erlendis. Í sumar fóru t.a.m. níu hlauparar austur á Borgarfjörð Eystri í Dyrfjallahlaupið. Verkefnin eru því af ýmsum toga og henta öllum unnendum hreyfingar. 


 

 





  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744