Fögnuðu brúðkaupsafmælinu á HúsavíkAlmennt - - Lestrar 741
Victoría krónprinsessa Svíþjóðar og eiginmaður hennar Daniel prins fögnuðu brúðkaupsafmæli sínu á Húsavík í dag. Þau fóru í siglingu á skonortunni Hildi sem Norðursigling gerir út. Hjónin þáðu hádegisverð í boði forsætisráðherra á Gamla Bauk áður en ferðinni var haldið í skoðunarferð Mývatnssveit og málþing um samvinnu á Norðurslóðum á Akureyri. Heimsókn hjónanna lýkur í kvöld.
Victoría og Daniel fóru í siglingu um Skjálfanda ásamt forseta Íslands hr. Ólafi Ragnari Grímssyni, frú Dorrit Moussaieff og fylgdarliði. Hjónin sáu hnúfubak og virtust ánægð með siglinguna. Þegar í land kom beið þeirra margt fólk bæði með myndavélar og gjafir. Leikskólabörn á Grænuvöllum tóku á móti prinsessunni með skrauti sem krakkarnir föndruðu en það var hjarta í fánalitum Íslands og Svíþjóðar.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri fylgdu svo hjónunum ásamt forseta Íslands og forsetafrú til hádegisverðar.
Frú Dorrit Moussaieff, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, Daniel prins og Victoria krónprinsessa.
Að lokinni siglingu á Skjálfanda
Þeir biðu á bryggjunni Sigmundur Davíð forsætisráðherra og Bergur Elías bæjarstjóri
Nemendur á Grænuvöllum tóku vel á móti hefðarfólkinu
Victoría krónprinsessa var ánægð með móttökurnar
Það fór vel á með þeim Victoríu krónprinsessu og Unni Mjöll Hafliðadóttur þegar þær ræddu um Eurovision og Unnur færði henni heimaprjónaða íslenska ullarsokka á Estelle dóttur Victoriu.