Flutti starfið með sér heimFólk - - Lestrar 867
"Litla Kvíðameðferðarstöðin (Litla KMS) er sálfræði- og ráðgjafa-þjónusta fyrir börn, unglinga og ungmenni.
Þá sinnum við einnig aðstand-endum og handleiðum aðra fagaðila.
Fullorðnir geta einnig óskað eftir sálfræðiþjónustu á Litlu KMS en almennt vísum við þeim á „stóru“ Kvíðameðferðarstöðina (KMS) sem sinnir þeim aldurshópi" segir Kristján Gunnar Óskarsson sálfræðingur sem veitir útibúi Litlu Kvíðameðferðar-stöðvarinnar á Húsavík forstöðu.
"Eins og nafnið gefur kannski til kynna þá sérhæfum við okkur í meðferð kvíðaraskana og þráhyggju- og árátturöskun en veitum einnig sérhæfða meðferð við áföllum, þunglyndi og öðrum tilfinningavanda eins og reiði, afbrýðisemi, skömm og sektarkennd.
Á Litlu KMS er einnig unnið með tengd vandamál er snúa að velferð barna s.s. svefnvanda, lágu sjálfsmati, tölvufíkn, sjálfsskaða, einelti og öðrum áföllum í nærumhverfi. Auk þess höfum við unnið talsvert með afreksíþróttafólki sem vill bæta sig í viðkomandi íþrótt án þess að það séu einhver sérstök vandamál til staðar.
Þannig að það eru ýmiskonar verkefni sem koma inn á borð til okkar". Segir Kristján Gunnar sem hefur starfað sem sálfræðingur á Litlu KMS nánast frá stofnun fyrirtækisins vorið 2016.
Að sögn Kristjáns Gunnars voru fjórir sálfræðingar í samfloti með „stóru“ KMS en síðan hefur Litla KMS stækkað ört og starfa þar nú um tuttugu sálfræðingar. Það er lagður mikill metnaður af eigendum í að þjálfa upp öflugt starfsteymi svo þessi stækkun hefur alls ekki komið honum á óvart.
"Litla KMS var eingöngu með starfstöð í Reykjavík þar til í haust svo það var mjög ánægjulegt fyrir mig að fá að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu fyrirtækisins og opna útibú í heimabænum.
Þá er líka ánægjulegt að geta boðið upp á þjónustu sem hefur verið talsverð þörf á en mér skilst að framboð af sálfræðimeðferð hafi verið af skornum skammti á svæðinu. Ekki bara hér í Norðurþingi heldur í mörgum öðrum sveitarfélögum úti á landi af svipaðri stærðargráðu.
Við bjóðum einnig upp á fjarmeðferð fyrir þá sem einhverra hluta vegna komast ekki á stofuna til okkar og þar sjáum við þessa þörf þar sem við fáum inn talsvert af fólki frá öllum landshornum".
Kristján Gunnar er í sambúð með Snæfríði Dröfn Pétursdóttur lyfjafræðingi og eiga þau eina litla stúlku, Söru Björk.
Hvað kom til að þið ákváðuð að flytja norður á heimaslóðir ?
"Flutningarnir komu sjálfum mér býsna á óvart. Við Snæfríður vorum búin að koma okkur mjög vel fyrir í Reykjavík eftir margra ára búsetu þar og vorum alls ekki á þeim buxunum að flytja aftur „heim“ í bráð. Við höfðum eignast marga góða vini og vorum við bæði vel sett starfslega séð en Snæfríður er lyfjafræðingur hjá Lyf og Heilsu.
Svo eignumst við dóttur okkar, Söru Björk, 4. apríl þegar fyrsta Covid bylgjan er í hámarki og erum eðlilega einangruð frá vinum og vandamönnum. Ömmur og afar máttu ekki koma og heimsækja barnabarnið alveg strax sökum aðstæðna sem var reyndar ekki alslæmt þar sem við fengum þá dýrmætan tíma bara við þrjú.
En þá fór hugurinn að leita heim til Húsavíkur og ættingjanna sem biðu þar og þá fyrst kviknaði hugmyndin um að flytja kannski aftur heim. Það var svo ekki fyrr en við fórum norður í sumarfrí að við fundum hvað okkur leið vel fyrir norðan og fórum að hugsa þetta af einhverri alvöru.
Þar vó kannski þyngst að við áttum erfitt með að ímynda okkur Söru Björk alast upp fjarri fjölskyldu og þekkja varla ömmur sínar og afa og frænkur og frændur. Það eru ómetanleg lífsgæði fólgin í því að alast upp innan um fólkið sitt". Segir Kristján Gunnar en um mitt sumar gengu þau frá samningum um kaup á fasteign og fluttu svo í bæinn um mánaðamótin sept/okt.
"Það var því tiltölulega stuttur aðdragandi að flutningunum og við erum mjög ánægð með þá ákvörðun og ekki skemmdi það fyrir að geta flutt starfið á Litlu KMS með í bæinn. Sagði Kristján Gunnar að lokum.
Kristján Gunnar, Snæfríður Dröfn og Sara Björk.