Fermingarbörn söfnuðu fyrir Hjálparstarf kirkjunnarAlmennt - - Lestrar 121
Í vikunni gengu fermingarbörn Húsavíkurkirkju um bæinn og söfnuðu fyrir Hjálparstarf kirkjunnar.
Frá þessu segir á vef Húsavíkurkirkju en alls tóku 25 fermingarbörn þátt af 28, þar sem veikindi hjá nokkrum settu strik í reikninginn.
Áður höfðu börnin fengið fræðslu um verkefni sem Hjálparstarf kirkjunnar vinna að, einkum vatnsbrunna verkefni í Afríku sem söfnunarfé þeirra verður nýtt í.
Börnin gengu saman 3-4 í hópum og skiptu hverfunum á milli sín. Þau voru að frá kl. 17.30- 19.35, en náðu því miður ekki að banka uppá hjá öllum í bænum. Að lokinni söfnun var börnunum boðið á pizzuhlaðborð á Fosshótel Húsavík.
Fermingarbörn höfðu orð á því hvað vel var tekið á móti þeim og margir sem lögðu söfnunni lið. Alls söfnuðust kr. 206.832- sem er töluvert meira en á síðustu árum. Hjartans þakkir færum við fermingarbörnum og bæjarbúum fyrir rausnarlegt framlag og stuðning.