Ferðin til Heljar-Fréttatilkynning

Íslenska víkingasveitin Skálmöld og færeyska dómsdagssveitin Hamferð á tveggja vikna tónleikaferð um Ísland og Færeyjar. Tónleikar fyrir alla

Ferðin til Heljar-Fréttatilkynning
Almennt - - Lestrar 248

Íslenska víkingasveitin Skálmöld og færeyska dómsdagssveitin Hamferð á tveggja vikna tónleikaferð um Ísland og Færeyjar.

Tónleikar fyrir alla aldurshópa.

 

Þann fimmta júlí næstkomandi hefst tveggja vikna tónleikaferðalag Skálmaldar og Hamferðar um Ísland og Færeyjar. Báðar sveitir gáfu út sínar fyrstu plötur á síðasta ári hjá færeyska plötuútgáfufyrirtækinu Tutl og hafa sérfræðingar sem og aðrir lofað þær báðar í hástert. Í gegnum útgáfufyrirtækið myndaðist vinskapur með sveitunum og nú er komið að því að sambandið beri ávöxt, tveggja vikna tónleikaferð sem hlotið hefur yfirskriftina „Ferðin til Heljar“ og hefst í Reykjavík þann fimmta júlí á Sódómu. Þá liggur leiðin til Húsavíkur þar sem spilað verður á miðvikudegi. Lokahnykkur Íslandsleggsins verður síðan sleginn á Neskaupstað, en dagana 7. til 9. júlí fer þar fram hin árlega þungarokkshátíð Eistnaflug. Þar munu bæði böndin stíga á stokk ásamt rjómanum af íslensku þungarokkssenunni sem og úrvali af erlendum hljómsveitum.

 

Í Færeyjum verður svipað fyrirkomulag uppi á teningnum. Sveitirnar spila tvenna tónleika í Tvøroyri og Tórshavn í vikunni, og enda síðan herlegheitin á G! Festival helgina eftir. G! Festival er sem kunnugt er haldið árlega í Götu og er stærsta tónlistarhátíð Færeyja. Stór númer hafa staðfest komu sína þangað þetta árið ásamt Skálmöld og Hamferð, svo sem sænsku þungarokksrisarnir í Meshuggah, Travis, Tý hinir færeysku og okkar íslenski Mugison.

 

Fyrir fjölskyldufólk og yngra fólk er rétt að nefna að tvennir tónleikar eru fyrirhugaðir í Reykjavík, þeir fyrri síðdegis og verða þeir opnir öllum aldurshópum. Þá verða tónleikarnir á Húsavík einnig opnir öllum.

Skálmöld er orðin Íslendingum að nokkru kunn, grípandi víkingaþungarokk af bestu gerð, þjóðlegt yfirbragð og vandaðir, þjóðlegir textar hafa heldur betur slegið í gegn síðan plata þeirra, „Baldur“ rataði í verslanir rétt fyrir síðustu jól. Nýlega gerði sveitin samning við austurísku útgáfuna Napalm Records og á þeirra vegum kemur platan út á heimsvísu þann 27. júlí.

Hamferð spilar einnig þungarokk, en af öðrum toga, svokallað dómsdagsrokk (e. Doom Metal). Slík tónlist einkennist af drungalegu samspili og níþungum hægagangi og þykir Hamferð fara einkar vel með herlegheitin. Hamferð sigraði „Sement“ í fyrra sem eru einskonar Músíktilraunir þeirra Færeyinga og í kjölfarið kom út fjögurra laga stuttskífa sem hefur fengið fullt hús stiga víðast hvar hjá gagnrýnendum.

Yfirskrift ferðalagsins, „Ferðin til Heljar“ var valin því hún þykir skírskota til sameiginlegrar forsögu þjóðanna beggja, og eins var lögð áhersla á að finna titil sem er eins á báðum tungumálunum.

 

 

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744