Ferðalangar í Ástralíu - Regnskógurinn, kóralrifin og krókódílarFólk - - Lestrar 866
Þá heldur ferðalagið okkar áfram hér á þessari „litlu“ eyju í suðurhöfum.
Í þetta sinn var stefnan tekin í norður frá Gold Coast og í átt að Cairns.
Við byrjuðum á að keyra upp til Rockhampton sem er „höfðuborg kjötsins“ í Ástralíu, í Rockhampton snýst allt um Tudda og kjötframleiðslu og má sjá stórar styttur af „tuddum“ út um alla Rockhampton.
Og ef að það segir þér ekki að þú sért komin til höfuðborgar kjötsins þá ættu kúrekastígvélin og kúrekahattarnir að gefa þér smá „hint“, já þeir eru mjög stoltir af nautunum sínum „Dallas“ búarnir uppí Rockhampton.
En í þetta skiptið var mjög stutt stopp þar sem við rétt bara hölluðum okkur og svo var haldið áfram ferðalaginu, enda voru rúmlega 1000 km. enn eftir upp til Cairns, en í bakaleiðinni var ákveðið að stoppa og fá okkur dýrindis nautakjöt að hætti Rockhampton búa, en meira um það síðar.
Það er mjög fallegt að keyra þessa leið, frá Gold Coast til Cairns. Það er mjög mikil sykurreyr framleiðsla þarna norðurfrá og hvert sem litið er á leiðinni sér maður stóra akra af sykurreyr.
Þegar við vorum á ferðalaginu var verið að skera niður sykurreyrinn og koma honum í framleiðslu. Það er gert með lestarvögnum sem fara á milli akranna og ná í uppskeruna og skila henni í næstu verksmiðju þar sem hann er unnin um leið, og hvert sem litið er eru lestarteinar, og vagnar hér og þar og allsstaðar að ná í eða koma með sykurreyr.
Jónas við bananatré.
Einnig er bananaræktun þarna norður frá og mátti sjá bananatré meðfram veginum og jafnframt er ananasræktun, en mest er þó um sykurreyrræktun í norður Queenslandi.
Það er líka mikill húmor í Queensland búum, eins og sjá mátti á leiðinni.
Það er fallegt í Cairns.
Við gistum tvær nætur upp í Cairns, við ætluðum að njóta þess að vera í fríi og kíkja á ströndina og fara í sjóinn, en við komumst fljótt að því að í Cairns fer fólkið ekki í sjóinn og þar er ekki strönd, nema jú manngerð strönd. En ástæðan fyrir þessu er að við Cairns er fullt af krókodílum og svo læðast marglytturnar inn þegar líða fer á sumarið (í lok Nóvember byrjun Desember) og þær geta sko stungið, en við létum þetta nú ekki skemma ferðalagið.
Upp við Cairns er stór og mikill regnskógur sem við ákváðum að fara að skoða, farið er upp með kláfum og eru tvö stopp áður en náð er upp á toppinn.
Á leið upp í regnskóginn við Cairns.
En lofthrædda Hilda hélt nú að þetta yrði ekki mikið mál, en raunin varð nú önnur. Í fyrstu ferðinni var Hilda svo stjörf af hræðslu að litlu mátti muna að hún færi að hágráta hahahaha .... en sem betur fer varð ástandið betra í seinni ferðini og í síðastu bununni var hún orðin eins og atvinnumaður, eða svona hér um bil.
Hilda stjörf í kláfinum en það lagaðist eftir því sem ferðunum fjölgaði.
Jónas svalur í kláfinum.
Kláfarnir fara með mann upp í lítið þorp sem heitir Kuranda, þar er fullt af litlum verslunum sem selja handunna skartgripi og svo er mikið af allskonar fallegum verkum eftir frumbyggjana, nóg er af veitingastöðum og hægt er að eyða góðum tíma í að skoða sig um fallegu Kuranda, þar er til dæmsi hægt að kíkja á Koalabirni og einnig er þar fallegur fiðrildagarður.
Bílskúr í Kuranda.
Einnig má finna eitt og annað skemmtilegt en við fundum til dæmis þennan fína bílskúr. Við fengum okkur hádegsimat á einum af mörgum veitingastöðunum í Kuranda, og var ákveðið að prófa eitthvað nýtt.
Hilda fékk sér Krókodílasalat sem var ágætt, blessaður krókodíllinn var afskaplega líkur kjúkling á bragðið en áferðin var þó öðruvísi, hann var svolítið seigur. Jónas fékk sér kengúruhamborgara, sem við mælum ekki með, það var lítið varið í þann hamborgara í raun svo lítið varið í hann að það var ekki einu sinni tekinn mynd af honum.
En eftir fínan hádegismat var komin tími á að fara aftur niður fjallið og kveðja regnskóginn,við ákváðum að sleppa því að fara niður með kláf og fara frekar niður með 100 ára gamalli lest.
Glæsileg þessi aldargamla lest.
Lestarferðin var virkilega skemmtileg og margt fallegt að sjá og á meðan lestarferðinni stendur er sögð sagan af því þegar lestarteinarnir voru lagðir. Það er óhætt að mæla með ferð uppí regnskóginn við Cairns. Cairns er fallegur staður, heimamenn eru opnir og skemmtilegir, og virkilega gaman að koma þangað.
Séð yfir regnskóginn við Cairns.
En áfram með ferðalagið.
Nú næsta stopp var á litlum fallegum stað sem heitir Airlie Beach, við enduðum á að vera þar í þrjár nætur, þar sem það er svo rosalega margt og mikið sem hægt er að skoða þar og þar í kring. Airlie Beach er mjög lítill bær sem getur þó stundum haft annasamt yfirbragð rétt eins og maður væri staddur í Brisbane.
Bærinn hefur dásamlega veitingastaði við ströndina, sem eru ekki mjög dýrir. Við prófuðum til dæmis dásamlega góðan sjávarréttarstað með fallegt útsýni út yfir hafið. Heimamenn eru mjög vingjarnlegir og vilja allt fyrir mann gera. Við fundum okkur fína en ódýra gistingu, svo var bara að skella sér í að skoða þennan fallega stað og nánasta umhverfi.
Á leið út í kóralrifin.
Auðvitað var ákveðið að fara skoða kóralrifin, það ætti enginn að láta þau fram hjá sér fara, enda stórmerkileg náttúruundur, fólk getur valið um hvort það fer að snorka við rifinn eða fer í lengri ferðir og fer að kafa, við ákváðum í þetta skiptið að snorka, en næst ætlum við að kafa, ekki spurning. Nú við vorum sótt kl. átta að morgni og brunað með okkur út á sjó í fínum opnum báti og siglt á meðal fallegu Whitsundayeyjanna sem eru um sjötíu og fjórar talsins. Svo var skellt sér í sjóinn og var markmiðið að finna til dæmis hann Nemó eða eitt stykki skjaldböku, en því miður fundum við hvorugt en við fundum hana Dóru, svona fyrir ykkur sem hafið séð teiknimyndina um hann Nemó.
Homer er ein Whitsundayeyja.
Við áttum alveg yndislegan dag á sjó og í landi, en hádegismaturinn var snæddur á Whitehaven Beach sem hefur sérstaklega hvítann sand og sagt er að eyjan sú hafi eina fallegustu strönd á meðal Whitsundayeyjanna, og sumir vilja meina að hún hafi eina fallegustu strönd í heiminum.
Eftir hádegissnarl, sull í sjónum og sólbað, var komin tími til að fara til baka til fallegu Airlie Beach eftir dásamlegan dag, ferðin var yndisleg í alla staði, og leiðsögumaðurinn mjög hress og skemmtilegur, og var vel hugsað um okkur í ferðinni og fóru allir kátir og glaðir heim á hótel eftir dásamlegan dag.
Nú næsta dag vorum við sótt klukkan átta að morgni, (hér í Ástralíu eru dagarnir teknir snemma, jafnvel þó maður sé í fríi) og nú var förinni heitið í krókodílasafarí.
Ferðalangarnir á Whitehaven Beach.
Það voru tveir „Krókodíla Dundee“ félagar sem tóku á móti okkur, og áður en farið var af stað þurfti að fara yfir öryggisreglurnar og þess háttar, við máttum til dæmis alls ekki setja hendurnar út fyrir borðstokkinn.
Nú auðvitað vildu þeir fá að vita hvaðan fólk væri að koma, það er óhætt að segja að þeir ráku upp stór augu þegar við sögðum þeim að við væru frá Íslandi, þeir töldu að við værum fyrstu Íslendingarnir sem hefðu komið til þeirra, gaman af því. En svo var komin tími til að drífa sig af stað, ferðast er niður stóra á, sem er mjög gruggug, en þannig vilja krókodílarnir hafa það.
Lítill krókódíll en nóg var af þeim.
Eitthvað ,gekk nú ill að finna stóru dýrinn en við sáum fullt af litlum „dílum“ en leiðsögumaðurinn okkar gafst þó ekki upp og viti menn eftir góðan rúnt upp og niður ánna þá við fundum hana Gloriu sem er um 4 metrar á lengd, ekkert smá smíði kellingin.
Gloría er engin smásmíði.
Eftir um tvo tíma á vatninu var komið að hádegissnarli, og svo var farið í ferð um skóginn, þar sem okkur var til dæmis boðið uppá að sleikja rassinn á trjámaur, en bossinn á honum bragðast víst eins og lime, eða svo var okkur tjáð. Það var nú bara einn farþegi sem bauð sig framm í það smakk og það voru ekki við haha.
Þegar komið var til baka eftir skógarrúntinn var boðið uppá te og glæ nýtt brauð sem bakað var á glóðum, og af því loknu var komið að heimferð, eftir mjög svo skemmtilegan dag með „Dundee-unum“. Dásamleg ferð og bráð skemmtileg, og allt annað að upplifa krokódíla í sínu náttúrulega umhverfi heldur en í dýragörðum, við mælum hiklaust með krókodílasafarí.
Allir að skella sér á Airlie Beach ef þið eigið leið um litlu eyjuna hér í suðurhöfum.
Enn þrír tímar eftir krakkar.
Daginn eftir var sagt bless við fallegu Airlie Beach og haldið af stað niður til Rockhampton höfuðborg kjötsins og áleiðis heim.
Það var lítið um stopp á leiðinni þar sem ákveðið var að finna sér góðan matsölustað og prófa góða nautasteik hjá Rockhampton búum. Náðum við rétt í tæka tíð til að smakka dásamlega góðan tudda og meðlæti áður en matsölustaðirnir lokuðu og það var sko vel þess virði að keyra í 6 tíma fyrir þá steik - Jummí.
Til stóð að keyra niður til Hervay Bay og fara í hvalaskoðun og sitthvað fleira, en skyndiákvörðun var tekin og ákveðið var að keyra alla leiðina „heim“ til Gold Coast eða um 1120 km, og var keyrt í um 15 klukkustundir þann daginn, en það var dásamlegt að komast heim í kotið sitt eftir þetta flotta ferðalag. Á fjórum dögum var semsagt keyrt litla 3667 Km og náðum við að skoða margt og mikið á þessum tíma, þar á meðal regnskóginn, kóralrifin, krókodíla og margt fleira skemmtileg.
Næst á dagskrá hjá okkur ferðalöngunum er 8000 km. ferðalag um þessa „litlu“ eyju, en þá ætlum við að keyra inn í landið og rúnta til Alice Springs til að skoða hið tilkomu mikla Uluru, fara til Melbourn, þvælast um Great Ocean Road, skoða og upplifa allt það skemmtilega sem verður á vegi okkar og munum við að sjálfsögðu leyfa ykkur að fylgjast með því ævintýri.
Kveðjur frá Ástralíu til allra ættingja og vina og annara er nenna að lesa þetta.
Jónas og Þórhildur.
Hér má lesa fyrri ferðasögu þeirra hjóna.
Ef smellt er á myndirnar er hægt að fletta þeim og skoða í stærri upplausn.